27.03.1926
Efri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í D-deild Alþingistíðinda. (2835)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Jónas Jónsson:

Jeg verð að láta í ljós óánægju mína yfir því, að þar sem þessu máli hefir nú verið frestað tvisvar til þess að hæstv. fjrh. gæti verið viðtaddur þessar umr., þá er hann hjer ekki að heldur. Það getur ekki skilist nema á einn veg, sem sje þann, að hann óski ekki að vera það. Það er líka hægt að leiða líkur að því, að það er mjög skiljanlegt, að hæstv. ráðh. óski ekki að vera mjög nærstaddur þessu máli. Jeg verð þá fyrst að segja sögu þessa máls í nokkrum atriðum. Snemma á þinginu kom hæstv. fjrh. á fund háttv. fjhn. Nd. og bað hana að gangast fyrir því, að Alþingi heimilaði þessa tilfærslu. Öðruvísi verður þetta ekki skilið. Hann hefir litið svo á þá, að sig hafi skort heimild til að gefa eftir þennan veðrjett upp á sitt eindæmi. Jeg ætla með leyfi hæstv. forseta að lesa upp kafla úr brjefi frá fjármálaráðuneytinu til stjórnar „Kára“-fjelagsins. Það er ljóst af þessum kafla brjefsins, að hæstv. fjrh. hefir tekið það til athugunar, að hann hafði ekki heimild til að gefa veðrjettinn eftir án samþykkis Alþingis:

„Í brjefi dags. 24. þ. m. hefir hin háttv. fjelagsstjórn farið fram á, að ráðuneytið fjelli frá því skilyrði fyrir veðleyfi með 2. veðrjetti í skipum fjelagsins, fyrir alt að 150 þús. kr. rekstrarláni, sem greint var undir staflið 6 í brjefi hjeðan 19. þ. m., svohljóðandi: „að rekstrarlán þetta endurgreiðist af rekstrartekjum svo fljótt sem þær hrökkva til þess og gangi endurgreiðslan fyrir öllum afborgunum annarra skulda, að frátöldum samningsbundnum afborgunum fyrsta veðrjettar lánanna í Viðeyjarstöð og skipum fjelagsins, eftir núgildandi samningum þar um“. Ráðuneytið telur sig enn sem fyr algerlega bresta heimild til að hverfa frá þessu skilyrði, sem felur það í sjer, að veðleyfið er gefið fyrir venjulegu rekstrarláni, en ekki fyrir neinum nú áhvílandi skuldum fjelagsins. Hinsvegar vill ráðuneytið, eftir að hafa borið sig saman við stjórn Íslandsbanka um þetta, lofa að mæla með því við Alþingi, er saman kemur 6. febrúar næsta ár, að það veiti stjórninni heimild til að falla frá umræddu skilyrði, og mun stjórnin þá vilja nota slíka heimild, ef það má verða til þess að tryggja rekstur fjelagsins yfir næstu vertíð og engin sjerstök óhöpp koma fyrir. Þetta loforð er þó því skilyrði bundið, að rekstri fjelagsins verði haldið áfram þar til Alþingi hefir átt kost á að taka afstöðu til málsins“.

Eins og jeg sagði áðan, er það ljóst af þessum kafla brjefsins, að hæstv. fjrh. hefir ekki talið sig hafa leyfi til að gefa veðrjettinn eftir. En það verður annað upp á teningnum. Jeg man eftir því, að þegar þetta mál var afgreitt í hv. Nd., var því flýtt svo mikið, að það var afgreitt með afbrigðum frá þingsköpum. Og það kom því flatt upp á marga, þegar það kom í ljós, að stjórnin hafði þegar afhent veðrjettinn. En þegar málið kom fyrir þessa hv. deild, þá er vert að geta þess, að nokkuð var þar gert til að kynna sjer málið.

Fjhn. fjekk stjórn Íslandsbanka og forstjóra „Kára“-fjelagsins á fund með sjer, og á þessum fundi viðurkendi einn bankastjórinn það hreinskilnislega, að bankinn hefði nú þegar þennan veðrjett og væri búinn að lána út á hann. Það er hætt við, að ef þessar upplýsingar hefðu verið gefnar fyr, hefði farið svo, að það hefði haft áhrif á gang málsins í Nd. Það hafa nú líka komið fram almennar upplýsingar um ástand fjelagsins, og það hefir komið í ljós, að af hálfrar milj. króna höfuðtól er um einn fimti hluti eða 100 þús. kr. í forgangshlutum.

Hlutafje þessu hefir verið safnað víðsvegar að. T. d. safnaði duglegur maður miklum hluta þessa fjár austur í Múlasýslum, og var þar svo langt gengið, að vinnumenn seldu kindur sínar, og sumir ungir menn tóku lán til að leggja í þetta fyrirtæki. Þetta fjelag hefir altaf verið mjög óheppið og reksturinn gengið illa. Það var t. d. alveg að drepast, þegar þingið miskunnaði sig yfir það árið 1923, og þá mun fjelagið hafa skuldað Íslandsbanka ca. milj. króna. Af því, sem síðan hefir fram komið, er það mjög vafasamt, hvort nokkurt gagn er í því og hvort það er rjett að hjálpa þessu fjelagi nú aftur.

Jeg vil einnig leyfa mjer að „kritisera“ þann hugsunarhátt, sem kemur fram í því, að bankinn og hæstv. stjórn vilja reyna að halda lífinu í þessu fjelagi, hvað illa sem það er statt; því að það hefir ekki sýnt í hinu undanfarna góðæri, að slík hjálp hafi getað orðið til þess að bæta hag fjelagsins. Hinsvegar notar fjelagið þessa miklu hjálpsemi til að skrúfa upp vinnulaun og soga til sín vinnukraftinn frá öðrum og heilbrigðari atvinnuvegi. Jeg vil nota tækifærið til þess að lýsa þeirri óheilbrigði, sem er hjá okkur í þessum efnum. Það er deilt um það, hvort það sje rjett að bjarga þessu fjelagi undan öxinni. Jeg álít, að það sje rangt, og hafi verið rangt 1923, því að það er betra, að eitt fyrirtæki fari á höfuðið, en að landið tapi stórfje fyrir það. En sú ráðstöfun 1923 hefir verið rjettlætt með því, að næsta ár á eftir hafi fjelagið grætt allan höfuðstól sinn, 500 þús. kr. En þessu fje var svo öllu kastað inn í eina skuldahít, Íslandsbanka; hann fær allar sínar skuldir greiddar, en ríkissjóður ekki neitt. Jeg vildi spyrja hæstv. fjrh., hvort hann hafi verið þar vel á verði fyrir ríkissjóðinn; mjer skilst, að Íslandsbanki hafi gætt sín betur, þar sem hann fær alt sitt. Og það er ekki nóg með það, að fjelagið hundsar landið þannig, heldur svíkst það einnig um að greiða skatt í ríkissjóð, sem nemur 40 þús. kr. Á síðastliðnu ári græddi fjelagið aftur mikið fje. En þá borgaði það ekki einu sinni sínum banka neitt, hvað þá heldur opinbera skatta, en fór með 200 þús. kr. í viðgerð á skipunum og stöðinni í Viðey. Væntanlega hefir fjelagið treyst því, að Íslandsbanki mundi hjálpa sjer áfram; en af þeim skjölum, sem nú liggja fyrir, er það ljóst, að hann treystir nú ekki fjelaginu lengur. Fjelagið hefir grætt hálfa milj. króna annað árið og að minsta kosti 200 þús. kr. hitt árið. Það er þess vegna undarlegt, að stjórnin skyldi ekki höggva eitthvað í fjelagið, að minsta kosti með skatt eða afborgun, eins og Íslandsbanki gerði, þegar það óð í peningum. Í sumar setur fjelagið sinn síðasta eyri fastan í viðgerðir, og því er haldið fram, að með því hafi veð ríkissjóðs verið bætt; en það sýnir sig nú, þegar búið er að afhenda veðið, hversu ágætt það er, þar sem Íslandsbanki neitar að lána út á það eingöngu, heldur heimtar frekari tryggingu. Í stuttu máli, því er haldið fram, að veðið sje einskis virði, og þess vegna sje sjálfsagt að gefa það eftir; en um það þýðir eiginlega ekkert að vera að ræða hjer, því að veðrjetturinn hefir nú þegar verið afhentur og lánað út á hann. Eggert Claessen bankastjóri játaði því, er hann var spurður, hvernig fara mundi, ef fjelagið tapaði á ný, hvort bankinn gæti þá ekki hagnýtt sjer veðið gagnvart ríkissjóði, þó að þingið neitaði nú, að bankinn hefði nú veðið upp á afsal hæstv. stjórnar, hvað sem við segðum. Sem sagt, Íslandsbanki hefir nú veðrjettinn framseldan af hæstv. fjrh., og að fara nú fram á það við þingið, að það gefi hann eftir, er sama sem að biðja um það, sem þegar hefir verið gefið.

Þegar fjhn. hafði fengið þessar upplýsingar, sá hún, að þetta var eintómur skollaleikur, og fór þá að athuga, hvort ekki væri unt að tryggja rjett landssjóðs á einhvern annan hátt. Stjórn Íslandsbanka hefir skýrt frá því, að hún hafi ekki getað lánað út á þetta veð, heldur hafi hún auk þess krafist persónulegrar tryggingar fjelagsstjórnarinnar fyrir rekstrarláni til 3 mánaða í haust. Þessa ábyrgð hluthafanna er nú búið að leysa út; til þess var fyrsti fiskurinn notaður. Þetta sýnir, hve lítils fjelagið metur hina drengilegu hjálp hæstv. fjrh., og virðist þó svo sem það hefði átt að vera kurteisisskylda að leysa hann úr hengingarólinni, áður en til þess kæmi, að hann yrði að sæta ábyrgð fyrir þetta tiltæki sitt, gagnvart þinginu.

Það hefir komið fram við umr. um þetta mál, að það hefði líklega verið rjettast að leggja upp skipunum, að minsta kosti yfir hausttímann, enda hafa sum ríkustu útgerðarfjelögin ekki sjeð sjer hag í því að láta skipin ganga þennan tíma; en „Kári“ er nógu ríkur til að halda skipunum úti með tapi.

Það virðist þess vegna næstum, að fjelagið geri leik að því að fara óvarlega, og verður það síst til að auka traust manna á því.

Það virðist þess vegna næstum, að fjrh., að hann hefir hliðrað sjer hjá því að gefa þinginu rjetta skýrslu í þessu máli. Það er heldur engin vissa fyrir því, eins og stjórn Íslandsbanka hefir viðurkent, að þessi hjálp verði fjelaginu nokkur stoð til viðreisnar á hag þess; hitt er líklegra, að hún verði að eins ríkinu til útgjalda og einskis annars.

Allir vita, að þetta fjelag hefir fengið mikla hjálp hjá ríkissjóði 1923. Við vitum ennfremur, að það hefir svikist um að greiða tekjuskatt sinn. Og loks vitum við, að það hefir varið tveggja ára gróða til alls annars en borga skuldir sínar. Þá loks fara hluthafarnir að kría sjer út lán hjá Íslandsbanka, gegn persónulegri ábyrgð. En gagnvart ríkissjóði, sem reynst hefir þeim betur en nokkur annar, neita þeir um persónulega ábyrgð. Þó hann hafi ábyrgst fyrir þá yfir 150 þúsund kr., og þó þeir hafi svikið hann um sjálfsagða skattgreiðslu, þá neita þeir um lítilsháttar ábyrgð í sömu andrá og þeir koma til hans og biðja að gefa sjer eftir síðustu leifarnar af þeirri tryggingu, sem ríkið hefir haft fyrir ábyrgð sinni.

Jeg tek það fram, að þetta hlutafjelag, sem ekki hefir sýnt þá drenglund að borga neitt til ríkisins af skuldum sínum, og neitar svo í þokkabót um persónulega ábyrgð, um leið og það biður um enn meiri hjálp — það á ekki skilið neina samúð og á engan rjett til þess að fara fram á meiri hjálp frá ríkinu en þegar er orðið. Nú hefir það einnig komið í ljós við athugun fjhn., að það er alveg óvíst, hvort þessi nýja tilslökun gagnar nokkuð. Á fundi í nefndinni, þar sem bankastjórnin var viðstödd, var hún spurð, hvort hún mundi vilja lána fjelaginu rekstrarfje. Þá kemur það í ljós, að annað skip fjelagsins, og það betra skipið, liggur inni í Viðey aðgerðalaust, vegna þess að það vantar nauðsynlegustu hluti til þess að geta farið út á veiðar; og ástandið er svo bágt, að aðalvörnin er sú, að hitt skipið kunni að koma með afla, sem hægt sje að veðsetja, svo unt verði að láta þau ganga bæði. Fjelagið liggur þannig á gjaldþrotabarmi, að það verður að láta annað skip sitt liggja inni um hávertíðina, vegna þess að útgerðina vantar 5 þús. kr. Alt er veðsett, kolin auk heldur.

Hæstv. fjrh. talaði um það, að það væri ábyrgðarhluti að stöðva fjelagið, þegar vertíðin væri að byrja. En það er ljóst, að fjelagið var stöðvað, þegar stjórnin var að hjálpa því á flot á dauða tímanum. Hefði stjórnin gert ráðstafanir til þess, að einhver dugandi maður eða fjelag hefði tekið að sjer þetta farlama fyrirtæki, þá hefði fengist trygging fyrir því, að skipin hefðu ekki þurft að liggja inni á vertíð vegna þess, að það skorti nokkrar þús. kr. til nauðsynlegustu þarfa.

Jeg hygg, að það hafi nú verið sannað ljóslega, að þetta fjelag var upphaflega stofnað með því að narra menn, einkum í sveitum, sem aldrei höfðu nærri slíkum málum komið, til þess að leggja fram fje. Því næst hefir landið gengið í ábyrgð fyrir það, og sú ábyrgð hefir verið þökkuð með því að svíkjast um að greiða ríkissjóði lögmæt gjöld, og loks tekur stjórnin sig til og afhendir í algerðu heimildarleysi nokkurn hlut af þeim veðrjetti, sem ríkið átti í eignum fjelagsins. Fyrir því var ekki snefill af heimild. Og það er í raun og veru hæstv. fjrh., sem á að borga landinu það tjón, sem hann hefir bakað þjóðinni með þeirri ráðstöfun. Í raun og veru ætti þingið að samþykkja till. um það, að stjórnin borgi þetta sjálf. Það bætir heldur ekki málstað hæstv. fjrh. (JÞ), að hann skuli ekki þora að vera viðstaddur í deildinni, þegar hann er í raun og veru að biðja að gefa sjer sjálfum peninga. Jeg hefði talið hann meiri mann og betri dreng, ef hann hefði verið hjer og játað það hreinskilnislega, að hann hefði ekki haft heimild til þess að gefa eftir veðrjettinn og væri nú að biðja um fje handa sjálfum sjer.