29.03.1926
Efri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í D-deild Alþingistíðinda. (2847)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Fjármálaráðherra (JÞ):

Út af orðum hv. 3. landsk. (JJ) vil jeg segja það, að því fer fjarri, að jeg vilji gera það að neinu kappsmáli, hvort sú þáltill., sem hjer liggur fyrir, verður samþ. eða ekki. En hitt get jeg ekki látið mjer vel líka, ef dagskráin á þskj. 203 yrði samþ. Þessu máli hefir frá upphafi verið stýrt þannig, að þingið gæti haft alveg óbundnar hendur um það, hvort það vildi veita þessa tilfærslu á veðrjetti ríkissjóðs eða ekki. Og það, sem í þessu máli gerðist milli þinga, var fyrst og fremst gert af þeirri ástæðu, að jeg, og raunar öll stjórnin, vildum koma málinu í það horf, að þinginu gæti gefist kostur á því að taka afstöðu til þess. Þess vegna er þessi till. fram komin, og jeg lofaði fyrir mitt leyti að gera mitt til þess, að hún yrði samþykt í þinginu, og það hef jeg gert og geri hjer með. En jeg geri það ekki að neinu stóratriði, hvort hv. þdm. vilja ganga inn á till. En hitt er annað mál, að jeg tek ekki með neinum þökkum við ofanígjöf fyrir mín afskifti af málinu. (JJ: En ef hún er verðskulduð?). Ef hún er verðskulduð og ofanígjöf gefin, þá þarf hvorki hv. 3. landsk. (JJ) nje aðrir að halda, að fjrh. verði sorgmæddur yfir því, þó honum verði gefin lögmæt ástæða til þess að hverfa frá fjármálastjórninni og taka sjer eitthvert annað skemtilegra starf fyrir hendur.

Jeg mun ekki gera fundarhöld hv. 3. landsk. (JJ) að frekara umræðuefni. — Hann getur spurt sína flokksmenn um það, hve mikils fylgis hann hafi aflað sjer með framkomu sinni á þeim fundum.

En það, sem jeg átti við, er jeg sagði, að hv. 3. landsk. hefði verið eins og vængbrotinn fugl framan af þessum þingtíma, var það, að hann byggi enn að afleiðingunum af margmælgi sinni á síðasta þingi, en væri nú heldur að ná sjer.

Jeg kannast við það, að það gæti verið ástæða til þess að spyrja, hvers vegna og með hverri heimild stjórnin hefði á ný gengið í ábyrgð fyrir „Kára“-fjelagið — ef hún hefði gert það. En þessu hefir hv. 3. landsk. vikið við, til þess að geta sannað, að jeg hafi gengið í ábyrgð fyrir „Kára“-fjelagið, með því að gefa eftir um ábyrgðina. Jeg skal nú taka þessa spurningu eins og hún er meint: Með hvaða rjetti eða heimild hefir stjórnin gefið eftir af veðrjetti ríkissjóðs, svo fjelagið gæti fengið rekstrarlán fram að þingtíma? Það hefir hún gert með því valdi og þeirri skyldu, sem hver stjórn hefir til þess að ráða fram úr hverju vandamáli, sem að höndum ber milli þinga. Það verður hún að gera og taka svo afleiðingunum á eftir af því, hvort hún hafi ráðið skynsamlega eða óskynsamlega. Jeg hefi áður gert grein fyrir því, hverjar ástæður hafi valdið því, að stjórnin rjeð eins og hún rjeð.

Eftir mínum dómi var hjer ekkert fje að leggja í hættu, sem ríkið átti eða átti kost á að fá. En jeg skal þó setja dæmið upp eins og háttv. minni hl. fjhn. vill og segja, að ríkissjóður hafi hjer lagt í hættu 13 þús. kr. til þess að gera tilraun til þess að bjarga 173 þús. kr. Jeg held, að þetta verði ekki átalið. Hjer var um úrræði að gera, sem að minsta kosti var hugsanlegt að kynni að geta bjargað allri upphæðinni. En til þess þurfti ráðstöfun, sem stjórnina skorti heimild til, en þingið gat gert. En þá var það úrræði að setja 13 þús. kr. í hættu, til þess að þinginu gæti gefist kostur á að taka ákvörðun á sínum tíma um málið í heild sinni. Og jeg held, að þingið hafi enga ástæðu til þess að finna að þessu, jafnvel þótt þessar 13 þús. kr. tapist, sem ekki er víst að sje til fulls tapaðar, þótt svo sje í bili. Og þeirrar trúar er stjórn Íslandsbanka, sem hefir að styðjast við mikla reynslu úr okkar atvinnulífi. En hún sýnir það, að sá, sem hefir þolinmæði til þess að bíða, fær að lokum sína peninga. Það leiðir af þeim miklu sveiflum, sem í atvinnulífinu verða; það koma einlægt góð ár, sem skila því fje, er slæmu árin hafa sett fast. En þetta kemur því aðeins að gagni, að tök sjeu á að bíða þangað til góðu árin koma. Það má benda á mjög mörg dæmi frá þeim fjárkrepputímum, sem hjer hafa gengið yfir á okkar tíð, t. d. frá 1909 og 1921 og 1922. Það voru mörg fyrirtæki, sem skiluðu skuldum sínum, er álitnar voru tapaðar, þegar rannsókn var gerð í Landsbankanum 1909. Og margir hafa skilað fje, sem talið var tapað 1921–22.

Hv. 3. landsk. (JJ) spurði að því, hver nauðsyn hefði verið á því að drífa skipin út á dauða tímanum, strax eftir nýár. Það var sú nauðsyn, að ef skipin hefðu ekki farið út á þeim tíma, sem allir aðrir gerðu út, þá hefði hvorki verið hægt að halda í skipshöfn nje skipstjóra nje aðra starfsmenn, og þar með var fyrirtækið komið um koll. Það var auðvitað æskilegt að geta haldið skipunum í höfn, en það var ekki hægt. Það var sama og að gefa fyrirtækið alveg upp.

Hv. þm. (JJ) sagði, að fjelagið hefði borgað aðrar skuldir síðan um nýár, en bara ekki þessa. Það er rjett, að fjelagið hefir ekkert borgað af þeim skuldum, sem trygðar eru með 2. veðrjetti; og það er líka rjett, að það hefir borgað skuldir við Íslandsbanka, sem hafði handveð í þurfiski frá fyrra ári, og er eðlilegt, að þær greiddust jafnóðum og þetta handveð seldist. (JJ: Það hefir greitt skuldir frá þessu ári). Jeg geri ekki ráð fyrir, að Íslandsbanki hafi veitt fjelaginu annað lán á þessu ári en hið umrædda rekstrarlán, og hafi fjelagið haft arð af rekstri sínum síðan um áramót, þá hefir þeim arði ekki verið til annars varið en þess að greiða rekstrarlánið; og hafi fjelagið getað greitt það, þá þarf ekki að óttast halla af þessari margnefndu eftirgjöf. Hún er þá burtu fallin. Þetta getur hv. þm. (JJ) sjeð sjálfur í hinu margumrædda brjefi, sem nefndin hefir haft í höndum, viðvíkjandi veðrjettinum.

Þá sagði hv. þm. (JJ), að jeg hefði átt að heimta meiri greiðslu á skuld fjelagsins af gróðanum 1924, en á því hafði jeg engin tök. Afrit af hinu upphaflega ábyrgðarskjali er í málsskjölunum, og það gefur ríkinu engan rjett til þess að krefjast ákveðinna afborgana. En það skuldbindur ríkið gagnvart Íslandsbanka að ábyrgjast vissa upphæð af skuld fjelagsins í sterlingspundum með því gengi, sem verði, þegar skuldin sje færð yfir. Og þá kom það augnablik, að sá, sem gengið hafði í ábyrgðina, varð að standa við hana að fullu. (JJ: Ríkið hafði veð í skipunum). Jú, en hjer var ekkert tilefni til að ganga að veðinu. Ábyrgðin gilti gagnvart Íslandsbanka, og það þýddi ekki annað en halda áfram með hana úr því sem komið var. En úr því verið er að tala um þetta, þá vil jeg minna á það, að þegar stjórnin fær slíkar ábyrgðarheimildir, þá kemur það oft fyrir, að þegar stjórnin heimtar tryggingar, þá eru þeir, sem eiga að fá þessi fríðindi, ekkert fjarska fúsir til þess að láta tryggingarnar.

Það var einn slíkur maður í stjórnarráðinu í fyrradag og fór þaðan í mesta fússi, vegna þess, að af honum var heimtuð alveg sjálfsögð trygging. Jeg býst jafnvel við því, að hv. þm. (JJ) kannist eitthvað við þetta, því mjer virtist anda eitthvað úr þeirri átt. En það er að mínu áliti skylda stjórnarinnar að ganga vel frá slíku þegar í upphafi, því eftir á er það ekki hægt. Þetta var ekki gert, þegar sú ábyrgð var veitt, sem hjer hefir verið mest rætt um, og af því stafa öll vandræðin. Það var hvorki samið um hæfilega afborgun nje nægilega tryggingu fyrir því, að í skilum yrði staðið yfirleitt.

Jeg finn svo ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um orð hv. þm.; því er flestu fullsvarað áður, svo sem skrafi hans um tregðu stjórnarinnar í því, að leggja málið ljóst fyrir þingið, og eins um heimildarleysi stjórnarinnar til þess að slaka á veðrjettinum um nýár í vetur. Þessu hefir öllu verið svarað til fullnustu. En það gladdi mig að lokum að fá ótvíræða staðfestingu á óvildarhug hans til stórútgerðarinnar. Hann sagði, þessi hv. þm., í lok ræðu sinnar, að við hefðum komist af án stórútgerðar í 1000 ár, og síðan stórútgerðin kom hefðum við ekki haft af öðru að segja frá hennar hálfu en fjárþrotum, sem nú væri það helsta, sem við hefðum af að státa. Jeg ætla nú ekki að deila um þetta. En mjer virðist hjer vera fengin ótvíræð staðfesting á því, að hv. þm. beri kaldan hug til þessa atvinnuvegar yfirleitt, þó hann vilji kanske í öðru orðinu klóra eitthvað yfir það.