20.04.1926
Neðri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (2888)

88. mál, björgunar- og eftirlitsskipið Þór

Jón Baldvinsson:

Eiginlega er mál þetta komið frá sjútvn. beggja deilda, og ætti þess vegna að vera óþarfi að vísa því til sjútvn. Nd.

Jeg vildi aðeins gera nokkrar athugasemdir við till. og kem þá kanske inn á sum af þeim atriðum, er fram hafa komið við umr.

Í fyrra á þinginu var skýrt svo frá af hæstv. forsrh., að stjórnin hefði í hyggju að kaupa Þór. Var einnig skýrt frá tilhögun allri, sem var og svipuð því, sem hjer er farið fram á. Samþ. meiri hl. sjútvn. beggja deilda þetta fyrir sitt leyti. En hvernig fór svo. Þó að stjórnin væri í fyrra búin að samþ. kaupin, vill hún nú láta þingið samþ. þau líka eftir á. En þetta var alveg óþarfi, því að stjórnin hafði lagaheimild til þessa. Mjer þykir leitt, að hæstv. forsrh. (JM) er ekki við. En jeg get ekki varist þeirri hugsun, þar sem hæstv. forsrh. var búinn að fá samþykki sjútvn. Alþ. í fyrra, en vill nú enn láta þingið samþ. þetta, að hann vilji láta líta svo út, sem hann hafi ekki skift um skoðun í þessu máli. En það er öllum kunnugt, að hann var lengi vel þeirrar skoðunnar, að ekki væri vert að styrkja þessa starfsemi Þórs. En úr því að hann hefir nú samþ. kaupin og þau eru ákveðin, virðist algerlega óþarft að láta málið ganga aftur til þeirrar nefndar, sem stendur að till. Ætti till. heldur þegar að geta komið til atkv.

Jeg get fyrir mitt leyti mjög vel fallist á, að gjaldið verði lægra en nú er í till. Hygg jeg líka, að athugasemdir hæstv. fjrh. (JÞ) mæli mjög með því.

Því er haldið fram, að ekki sje samrýmanleg landhelgisgæslan og gæsla veiðarfæranna. En ef Vestmannaeyingar skaðast á því, að Þór skreppi frá við og við til þess að gæta landhelginnar, sje jeg ekki betur en að þeim beri minna að gjalda.

Mjer virðist rjett að samþ. niðurfærslutill. hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Aftur á móti nær það engri átt að vera að vísa málinu aftur til sjútvn. Það væri miklu nær, að það færi t. d. til fjhn.