20.04.1926
Neðri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í D-deild Alþingistíðinda. (2891)

88. mál, björgunar- og eftirlitsskipið Þór

Jakob Möller:

Jeg skal ekki lengja umr. Jeg sje ekkert á móti því, að málið komi fyrir sjútvn. En þar sem komið hafa fram brtt., gæti verið álitamál, hvort ekki ætti að fresta umr.

Jeg vil vekja athygli manna á því, að hjer er ekki að ræða um það, hvort Vestmannaeyingar eigi að borga fyrir unnið verk eða ekki. Því að áreiðanlegt er það, að þeir gætu fengið svo miklar tekjur af Þór, ef alt sektafje rynni til þeirra, að þeir gætu gert hann út að kostnaðarlausu. Í gær t. d. vann Þór inn fyrir ríkissjóðinn um 60–70 þús. kr., þar sem hann tók 4 skip, og var hvert þeirra sektað um 12250 kr. og afli og veiðarfæri gerð upptæk. Og áður hefir hann tekið mörg skip á þessu ári, sem sektuð hafa verið. Hann er því áreiðanlega búinn að vinna fyrir útgerðarkostnaði sínum þetta tímabil og meira. En auk þess hefir hann litið eftir bátum og veiðarfærum Vestmannaeyinga. Það er því með þessu verið að skattleggja eyjaskeggja. Þeir verða að borga fyrir það, að ríkissjóður taki að sjer rekstur skipsins, og honum þannig trygður gróði. Því er haldið fram, að þeir hafi ekkert gagn af því, ef tillagi þessu er slept. En það er alveg órjettmætt. Ákvæði till. eru nægilega skýr. Ríkið kaupir skipið með því skilyrði, að það annist björgunar- og eftirlitsstarf við Vestmannaeyjar 3–4 mánuði árlega. Og þeir eiga fulla heimtingu á, að þessi krafa verði uppfylt, án þess að þeir þurfi að leggja fram meira fje.

Jeg vil skjóta því til sjútvn., ef málinu verður vísað til hennar, að athuga, hve mikið fje Þór hefir unnið inn í sektum fyrir landhelgisbrot, og bera það saman við rekstrarkostnað skipsins. Hjer er ekki aðeins um nauðsynjamál fyrir Vestmannaeyinga að ræða, heldur fyrir almenning í heild sinni.