08.03.1926
Efri deild: 22. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í D-deild Alþingistíðinda. (2975)

54. mál, kaup á snjódreka og bifreiðum

Flm. (Jónas Jónsson:

Það er rjett skilið hjá hæstv. atvrh. (MG), að jeg geri ekki ráð fyrir, að þessi bíll, sem till. fer fram á að keyptur sje, verði notaður til flutninga á þungavöru, t. d. austur yfir Hellisheiði, svo að því leyti erum við sammála.

En þar skilur okkur líka, mig og hæstv. atvrh. (MG). Fyrir mjer vakir, að gerð sje hjer á landi tilraun með þennan bíl, sem reynst hefir ágætlega nothæfur á margskonar vegleysum víðsvegar úti í löndum og það á lítt bygðum svæðum. En af slíkri tilraun vill hæstv. atvrh. (MG) ekkert vita, og ef dæma má eftir orðum hans eins og þau fjellu, þá er ástæðan sú, að vegamálastjóri landsins hefir einhverja ofurtrú á því, að þessi bíll, sem jeg vil láta reyna, sje með öllu ónothæfur á vegleysum þeim, er Íslendingar hafa við að búa.

Jeg vil þá benda á, og því verður ekki neitað, að við, sem greitt höfum atkv. með hæstv. atvrh. (MG) um 5 þús. kr. styrk til þess að gera tilraun um að stífla Þverá, sem mjög ólíklegt er að komi að notum, þó að vegamálastjórinn hafi ráðlagt það, við, sem greiddum atkv. með því, höfum verið of auðtrúa í fjárveitingum okkar, ef það verður ofan á, að ófýsilegt sje að reyna það samgöngutæki, sem hæstv. atvrh. (MG) og vegamálastjóri bera ekki á móti að farið hafi verið á um víðari vegleysur en við þekkjum á okkar hálfruddu vegum, bæði í sveitum og sveita milli.

Vegamálastjóri hefir ekki fengið hæstv. atvrh. (MG) þau plögg í hendur, er sanna, að bíll þessi geti ekki komist yfir margskonar lendi á Íslandi. En svo er einmitt mörgum vegum okkar farið, að þó að þeir sjeu ófærir þeim bílum, sem við þekkjum enn, þá er sennilegt, að sá bíll, sem hjer er um að ræða, komist klaklaust eftir mörgum þeirra.

Jeg skal t. d. í því sambandi minnast á Landsveit. Síðastliðið sumar komst ekki bíll þangað upp eftir vegna lausasands og annars farartálma á veginum. Sama er að segja um fleiri sveitir í Rangárvallasýslu, að þó þar sje ófært venjulegum bílum, virðist margt benda á, að bíll, sem farið hefir yfir eyðimerkurnar í Afríku þverar og endilangar, geti komið að góðum notum víða hjer á landi.

Hæstv. atvrh. bygði andmæli sín gegn því að reyna þennan bíl á því, að honum væri ekki ætlað að flytja þungavöru. En við höfum fleiri þarfir í samgönguumbótastarfsemi okkar en þær, sem eingöngu miðast við þungavöruflutning. Og þótt vegamálastjóri leggi til að kaupa 17 þús. króna bíl til snjóruðnings á Hellisheiði, þá getur hann ekki gengið yfir Holtavörðuheiði á vetrum nje orðið notaður þar.

Hæstv. atvrh. (MG) þótti sá bíll of lítill, er jeg legg til að verði keyptur, af því að hann tæki aðeins 4 menn. En jeg vil þá bæta því við, að hingað til höfum við mikið notast við fjögra manna bíla, enda er það öllum kunnugt, að sá bíll, sem rutt hefir sjer mest til rúms um allan heim, er einmitt af þeirri stærð.

Mjer skilst, að þessi óvilji hæstv. atvrh. (MG) og ótrú hans á málinu sje komin frá vegamálastjóra, og þess vegna eigi að koma því fyrir kattarnef. En jeg geri nú samt ráð fyrir, að till. fái að komast til nefndar, og mun mjer þá gefast tækifæri að ræða við þá hæstv. atvrh. (MG) og vegamálastjóra, þó jeg hinsvegar geri ekki ráð fyrir, að mikið verði að græða á því, sem þeir hafa fram að færa móti málinu, ef dæma á eftir þeim rökum, sem hæstv. atvrh. hefir hreyft hjer í dag.

Hæstv. atvrh. taldi það ekki mikið kraftaverk að komast í bíl norður á Blönduós, af því að margir vegarkaflar væru þegar akfærir á þeirri leið. Þetta þykir mjer samt því undarlegra, sem hann hlýtur að vita, að á þeirri leið þarf samkvæmt áætlun vegamálastjóra að kosta til of fjár að gera við vegleysurnar og bæta þá vegi, sem komnir eru, svo að fært geti talist öllum venjulegum bílum eða þeim, sem við höfum notast við hingað til.

Annars finst mjer, að setja megi athugasemd við, hvað sá maður hafi til þess að bera að vera vegamálastjóri landsins, sem legst á móti því, að reyndur sje hjer á landi bíll, sem óhrekjandi sannanir eru fyrir, að gefist hefir ágætlega í víðlendum eyðimörkum suður í Afríku. Og jeg leyfi mjer að bæta því við, að það þarf brjóstheilindi til og meiri vantrú en alment þekkist, að leyfa sjer að segja, að ekki megi veita 10 þús. kr. til þessa fyrirtækis, þegar áreiðanleg skilríki liggja fyrir, sem sanna, að í bíl þessum hefir verið farið um margfalt meiri og erfiðari vegleysur en við þekkjum. Sá vegamálastjóri, sem legst á móti jafnmiklu nauðsynjamáli, hann hlýtur að verða sjer til ævarandi minkunar, ef rjett er haft eftir honum af yfirmanni hans, hæstv. atvrh.