14.05.1926
Sameinað þing: 7. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í D-deild Alþingistíðinda. (3084)

121. mál, þúsund ára hátíð Alþingis

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Eins og jeg hefi áður sagt, sje jeg enga ástæðu til þess að ræða hjer þær till., er komið hafa fram um hátíðahöldin 1930. Það er aðeins nefndarskipunin, sem hjer er til umr.

Jeg get ekki verið hæstv. forsrh. (JM) sammála um það, að Þingvallanefndin, sem stjórnin skipaði, sje hátíðanefnd og eigi að starfa eftir sem áður, þótt þessi nefnd sje skipuð. Þingvallanefndin á að líða undir lok, því þessi nefnd, sem hjer er farið fram á að skipa, mundi koma í stað hennar, og jeg sje ekki, að með því sje að neinu leyti brotið á móti því, sem menn hafa hugsað sjer áður um undirbúning hátíðarinnar. Jeg veit ekki til þess, að hið háa Alþingi hafi til þessa tekið neina ákvörðun um skipun nefndar, er sæti allan tímann fram yfir 1930 og hefði allan þunga þess starfs. Till. kemur því ekki í bág við nein fyrri ákvæði þingsins.

Þá hefir verið talað um, að rjett sje að hafa í nefndinni þá menn, er sjerþekkingu hafi og sjeu starfsmenn ríkisins, vegna þess, að nefndin á að starfa kauplaust.

Jeg sje nú ekki, hver þörf er á því sjerstaklega að hafa í þessari nefnd vegamálastjóra og húsameistara ríkisins. Ef sjerþekkingar þarf við, þá er hægurinn hjá fyrir nefndina að leita til þeirra starfsmanna ríkisins, er sjerþekkingu hafa, því að allir starfsmenn ríkisins eru sjálfkjörnir ráðgjafar nefndarinnar.

Jeg fyrir mitt leyti get ekki orðið við þeim tilmælum, er fram hafa komið um það, að bætt skuli mönnum við í þá Þingvallanefnd, er nú situr. Sje nauðsynlegt að hafa þá menn í nefndinni, er hana skipa, er hægurinn hjá að kjósa þá á þessum fundi í hina nýju nefnd. Jeg býst við því af þeim flokkum, er telja þessa menn ómissandi í nefndinni, að þeim sjáist ekki yfir að kjósa þá.

Jeg held fast við till. eins og hún er og vona, að hið háa Alþingi sjái sóma sinn í því að fara sjálft með málið, að hafa einlita, þingskipaða nefnd, en rugla ekki saman stjórnskipuðum og þingkjörnum mönnum.