08.04.1926
Sameinað þing: 4. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í D-deild Alþingistíðinda. (3136)

73. mál, kröfur til trúnaðarmanna Íslands erlendis

Flm. (Jónas Jónsson):

Áður en jeg vík að þeirri rökstuddu dagskrá, sem fyrst var borin fram, vil jeg segja fáein orð út af ræðum hinna tveggja hæstv. ráðherra (MG og JM). Jeg hafði margtekið það fram, að jeg gerði ráð fyrir því, að þessi þjóðarvilji, sem komið hefir fram í áskorunum þeim, sem borist hafa víða af landinu, myndi ekki verða brotinn á bak aftur, og að það myndi naumast verða gerð tilraun til þess, að hindra atkvgr. um málið sjálft. Ræður þessara tveggja ráðherra bera það með sjer, að þeim er, eins og flm. dagskráarinnar (JakM), ekki um þessa till., og gerði jeg þó ráð fyrir, að þeir hefðu ástæðu til að óska sjer þess stuðnings, sem í henni felst.

Hæstv. atvrh. (MG) byrjaði á því, sem þó vitaskuld var aukaatriði, að tala um sendiför Gunnars Egilssonar. Jeg hafði aðeins drepið á sendiför hans í sambandi við þau tvö dæmi, sem jeg nefndi um það, hvað ráðherrar geta verið gálausir í sendimannavali. Annað dæmið er það, að þessi maður, sem er svæsinn andbanningur, er sendur til að semja við þjóð, sem vill láta afnema þau lög á Íslandi. Slíkt kæmi ekki fyrir í Bandaríkjunum, að maður, sem er andvígur slíku stórmáli, væri sendur til þjóðar, sem sömuleiðis er á móti því, til þess að semja um það við hana. Það er algerlega ómögulegt að verja þetta með öðru en því, að hjá okkur eigi að gilda aðrar reglur um það, hvernig eigi að velja trúnaðarmenn. Hitt dæmið var það, sem kom í ljós í hv. Ed., að þessi maður stóð í óbættri sök við ríkissjóð. Hann stóð í skuld við ríkissjóð, meira en 20 þús. kr., sem hann hafði notað fram yfir það, sem hann mátti, í Ameríku. Mjer er kunnugt um það, að þessi skuld var ekki borguð þeirri stofnun, sem átti hana, og að seinast varð að semja um hana upp á sem næst mannsaldurslanga afborgun. Þetta er gott, þegar um almenn viðskifti er að ræða, en jeg vil benda á, að það er nokkuð alment um banka erlendis, að þeir segja tafarlaust upp viðskiftum við mann, sem ekki stendur í skilum, þó ekki sje nema með einn einasta víxil, og jeg skil ekki, að stjórn nokkurrar þjóðar, nema okkar, myndi voga sjer að velja mann til sendiferða, sem allir vita að stendur í vanskilum við ríkið. Þetta mál er tekið hjer til umræðu, til að sýna það, meðal annars, hve undarlega gálauslega núverandi ráðherrar hafa farið í þessu máli.

Hæstv. atvrh. (MG) áleit það hart, að hjer skyldi vera sagt frá þingmálafundinum í Borgarnesi. En getur það verið, að hæstv. atvrh. (MG) sje svo illa að sjer, að hann viti ekki, að skjöl frá þeim fundi liggja hjer frammi í lestrarsal Alþingis, og að þar er glögg skýrsla um, að þar börðust 18 menn undir forustu þriggja embættismanna gegn till.? (Atvrh. MG: Stendur það í skjölunum?). Atkvæðagreiðslan stendur þar, svo að það er aðeins, ef hæstv. ráðh. (MG) vill gera sig fáfróðan, að látast ekki vita það, en það er sá eini vottur um sómatilfinningu þeirra manna, sem þar eiga hlut að máli, að þeim skuli vera illa við, að minst er á frammistöðu þeirra. Þessir tveir ráðherrar vildu halda því fram, að það kæmi þeim ekki við, þó að sendimaður erlendis sje þar ölvaður langdvölum og geri landinu skömm. Að skoðun ráðherra eiga Íslendingar að gera lágar kröfur til sendimanna sinna.

Jeg hefi ekki sjeð ástæðu til að sækja þetta mál með öðru en almennum rökum, sem eru þekt, og láta hæstv. ráðherra og aðra hv. þm., sem vilja, halda því fram, að aldrei hafi verið látið undan lögbrotum og frekju útlendinga hjer, því að það er of þekt til þess.

Þá sagði hæstv. forsrh. (JM) það alveg rangt, að önnur þjóð rjeði yfir okkar málum. Jeg býst við, að það eigi að taka þessa skýringu hæstv. forsrh. (JM) sem sönnun fyrir því, sem einn maður hefir talið vera landráðalöggjöf landsins. Sá maður hefir haldið því fram, að okkur væri best að vera undir umsjón annarar þjóðar, en ef hæstv. ráðh. (JM) er ekki vikinn burtu af fundi, vil jeg minna hann á, að það kom fyrir á milli Norðmanna og Svía dæmi, sem alveg kollvarpar því, sem vakir fyrir hæstv. ráðh. (JM). Það var enginn vafi á því, að Norðmenn voru fullvalda á árunum 1814–1905, en það er heldur enginn vafi á því, að það voru sænskir menn, sem fóru með völdin, og að Norðmönnum líkaði það illa, og þetta var ástæðan til þess, að þjóðirnar skildu, og það var tilviljun ein, að ekki varð blóðugt stríð á milli þessara tveggja frændþjóða. En það á, eftir skilningi hæstv. ráðh. (JM), að vera gott, að önnur þjóð fari með valdið fyrir okkur; svo að jeg ætla þá að ráðleggja hæstv. ráðh. að lesa svolítið betur um „konsúlamálið“ í Noregi og Svíþjóð, áður en hann fer að halda næsta fyrirlestur yfir okkur um það, að við höfum fullkomið sjálfstæði. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri dæmi þess, að það færi vel á því, að ein þjóð bæði aðra að fara með utanríkismál fyrir sig. Þá vjek hæstv. ráðh. að því, að jeg myndi hafa verið á móti því að hafa sendiherra erlendis, og býst jeg við, að hæstv. ráðh. muni vera kunn skoðun mín í því efni. Úr því að hæstv. ráðh. telur sig hafa verið pott og pönnu í því að gera samninga við aðra þjóð um það að fara með utanríkismál Íslendinga í 25 ár, þá verður þjóðin að taka afleiðingunum af þeim samningi.

Jeg kem þá að hinni rökstuddu dagskrá hv. 3. þm. Reykv. (JakM). Ef jeg hefi heyrt hana rjett, þá er hún bygð á því, að þessu máli megi vísa frá, af því að það hafi ekki gefið neitt tilefni til að bera kvíða í brjósti um það, og hæstv. ráðh. (JM) sagði, að þessi till. hefði alls ekki átt að geta komið fram. Hann er sem sagt alveg samdóma mjer um, að sendimenn landsins eigi að koma virðulega fram erlendis. En nú vil jeg biðja hæstv. ráðh. (JM) og þennan hv. þm. (JakM) að athuga meðal annars þingmálafundargerð úr Vestur-Húnavatnssýslu. Það er úr frómu íhaldskjördæmi, og vona jeg, að hvorugur þessara hv. þm. muni vilja bera það á þá kjósendur, að þeir vantreysti stjórninni, eða að minsta kosti hefir það ekki enn þá komið í ljós í framferði þess þm., sem er fulltrúi þeirra hjer. Í þessari fundargerð er beinlínis talað um það, að landið hafi haft óheppilegan sendimann, og ef jeg má biðja hv. þm. þeirra (ÞórJ) að svara því, þá vil jeg spyrja, hvort hann hafi ekki einmitt fengið því framgengt, að hjer var breytt einu orði í upphaflegu tillögunni, að í staðinn fyrir „óhæfan sendimann“ var sett það, sem nú stendur í tillögunni, því að þessum ágæta stuðningsmanni stjórnarinnar þótti þetta of frekt og fjekk því þess vegna breytt. Og hvernig á nú að samræma þetta við skoðun stjórnarinnar, að við höfum altaf haft ágæta sendimenn, alla óaðfinnanlega. Eins og jeg tók fram áðan, gerði jeg ráð fyrir, að öllum hv. þm. væri þetta kunnugt. En hæstv. atvrh. (MG) kom fram eins og óþekk börn, sem hafa hegðað sjer illa og eiga von á hirtingu. Hann undraðist yfir því að hafa ekki fengið meiri ákúrur hjá mjer en hann fjekk. Að jeg hlífði honum, var ekki fyrir þá sök, að hann hefði ekki unnið til að fá meiri ofanígjöf, heldur hjelt jeg, að hann skildi fyr en skellur í tönnunum, og hann myndi því telja þann kost vænstan að samþykkja tillöguna með þeim almenna rökstuðningi, sem jeg færði fyrir henni, og láta það gleymda vera gleymt.

En eftir það, sem nú er fram komið er ekki hægt að skilja við málið svona.

Hæstv. forsrh. (JM) sagði, að ekkert það hefði komið fram, sem gæfi ástæðu til, að slík tillaga sem þessi væri borin fram, og vildi með því ekkert gera úr þeim röddum, sem meðal annars hafa komið úr Vestur-Húnavatnssýslu, Árnessýslu, Vestur-Skaftafellssýslu og Mýrasýslu. En jeg vil nú biðja hæstv. atvrh. (MG) að gefa glögga og rjetta skýrslu um það mál, sem einna mest hefir verið talað um meðal þjóðarinnar síðan í haust, sem sje val sendimanns stjórnarinnar til Bandaríkjaferðar, til þess að semja við stjórnina þar um ullartollinn, því að hingað til hefir hæstv. stjórn verið mjög sagnafá um það mál. Er því gott, að hún fái nú tækifæri til þess að segja sína skoðun um hvatir þær, sem rjeðu því, að maður þessi var sendur.

Hinn 11. október s. 1. haust var jeg ásamt hæstv. forsrh. (JM) og hæstv. fjrh. (JÞ) o. fl. staddur á fundi í Borgarnesi. Skýrði þá hæstv. fjrh. (JÞ) frá því, að stjórnin hefði þá fyrir skömmu sent hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) til Bandaríkjanna til þess að semja um ullartollinn. Gaf hann bændum í Borgarfirðinum góðar vonir um, að þetta yrði til þess að bæta ullarmarkaðinn. En hann notaði tækifærið til þess að gefa fyrirrennara sínum, Kl. J., olnbogaskot um leið fyrir, að lítið hefði verið gert í þessu máli í hans stjórnartíð. Litlu síðar kom svo grein í málgagni stjórnarinnar á Seyðisfirði, sem fór mjög í sömu átt. Lofaði blaðið mjög, hve valið á manninum hefði tekist vel, og mættu bændur því vænta mikils árangurs af för sendimanns. Opinberlega veit maður svo ekki annað í þessu máli, og að maðurinn fór aldrei til Ameríku. Komst aðeins til Khafnar, þangað sem hæstv. atvrh. var þá staddur, og kom svo heim rjett fyrir jólin.

En það var á allra vitorði, að fulltrúi þessi lagðist í svo megna óreglu í Khöfn, að hann veiktist, og varð því að senda hann því sem nær ósjálfbjarga heim til Íslands. (SigurjJ: Hann hefir aldrei verið kallaður opinber lygari. ÓTh: Og ekki heldur opinber rógberi). Jeg vona, að þessir hv. þm. geymi Thórsblóm sín þangað til síðar, en ef þeir kalla söguna um æfintýri sendimanns þessa lýgi, þá öfunda jeg þá ekkert af þeim titlum, sem þjóðin gefur þeim.

Er svo skemst frá að segja, að þegar þetta var gert að blaðamáli, þá reyndu stjórnarblöðin af veikum mætti, eftir skipun fráeinum oflætisfullum andlegum smælingja, sem heldur, að hann eigi peninga, að afsaka hneykslið. En niðurstaðan varð sú, að maður sá, sem hlut átti að máli, viðurkendi sjálfur að hafa skilað landssjóði ferðapeningunum aftur. Játaði hann þar með sekt sína til fulls. Ef sendimaðurinn hefði forfallast af eðlilegum ástæðum, t. d. veikst af lungnabólgu eða þessháttar, þá hefði hvorki þessi stjórn nje önnur getað verið svo kröfuhörð að heimta ferðapeningana aftur. Nei, slíku var ekki heldur hjer um að kenna. Hæstv. stjórn var þegar orðið kunnugt, að þetta var vandræðamál, og hefði orðið meira vandræðamál, ef Íhaldsmenn hefðu ekki borgað peningana í landssjóð aftur.

Af því, sem jeg nú hefi sagt, ætti öllum að vera það fyllilega ljóst, að það er ekki frambærilegt hjá stjórninni að halda því fram, að hjer hafi um engar misfellur verið að ræða. Jeg held meira að segja, að engin dæmi sjeu til þess, að nokkur þjóð velji sjer slíka trúnaðarmenn. Og sökina tel jeg vera nær eingöngu á höndum stjórnarinnar, því að henni var vel kunnugt um, að enda þótt maður þessi væri að mörgu leyti vel gefinn, þá var a. m. k. þingi og stjórn vel kunnugt um, hve veikur hann var fyrir vínnautn.

Þetta verður því algerlega að teljast sök stjórnarinnar, og orð mín hjer lúta að því að krefja hana um skýrslu um málið, en jeg vil láta manninn, sem í óláninu lenti, sem mest hlutlausan.

Jeg hefi nú gefið stjórninni tækifæri til að skýra þetta einstaka hneykslismál sitt. Að jeg gerði það ekki strax í fyrri ræðu minni, var fyrir þá sök, að jeg vildi fá að vita, hvort aðstandendur stjórnarinnar væru í raun og veru svo brjóstheilir að vilja ekki kannast við sekt sína og þola rjettmætar aðfinslur. En nú lætur stjórnin sem ekki hafi í skorist, og hæstv. atvrh. (MG), sem á alla sökina á þessu, talar digurbarkalega um Gróusögur, meðan honum var hlíft við að nefna þær þungu sakir, sem hann aldrei að eilífu getur af sjer borið. Þegar hann og hans fylgifiskar tóku svona í málið, sá jeg enga ástæðu til að vægja lengur.