05.05.1926
Efri deild: 67. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í D-deild Alþingistíðinda. (3160)

100. mál, málshöfðun gegn Sigurði Þórðarsyni

Sigurður Eggerz:

Jeg mun í fáum orðum skýra frá því, hvað jeg tel aðalatriðið í því máli, sem hjer liggur fyrir. En til þess að lýsa afstöðu minni verð jeg í höfuðdráttum að minnast á „Nýja sáttmála“. Um sjálfan höf., sem ekki er hjer viðstaddur, mun jeg sem fáorðastur.

Í „Nýja sáttmála“ er lýsing á þjóðinni, þinginu, sjálfstæðisbaráttu vorri og öllu menningarástandi vora o. s. frv. Þá er lýsing á þeim mönnum, sem framarlega hafa staðið í stjórnmálunum á seinni tímum, og sú lýsing, sem gefin er af þeim mönnum, sem framarlega hafa staðið í sjálfstæðisbaráttunni, er allmjög í samræmi við afstöðu höfundarins sjálfs til stjálfstæðismálanna. Reynist nú lýsingin á þjóðinni rjett, þá mætti einnig ætla, að ýmislegt rjett væri í lýsingunni á stjórnmálamönnunum. En ef lýsingin á þjóðinni væri með afbrigðum skökk, þá mætti ef til vill einnig efast um lýsinguna á stjórnmálamönnunum.

Jeg mun ekki þylja aftur upp allar þær tilvitnanir, sem lesnar hafa verið upp úr „Nýja sáttmála“, en aðeins láta mjer nægja að lesa fáeinar tilvitnanir upp, og mun jeg þá fara eins að og hæstv. forsrh. (JM) og hv. flm. (JJ) og biðja hæstv. forseta í eitt skifti fyrir öll um leyfi til þess að mega lesa upp þessar tilvitnanir, svo jeg þurfi ekki að þreyta hann með því að biðja um leyfi í hvert sinn.

Um íslensku þjóðina segir höf. á bls. 7: „Með henni er nú að gerast, ekki sköpunarverk, heldur verk tortímingar. Nú getur hún orðið öðrum þjóðum, ekki til fyrirmyndar, heldur til viðvörunar. En til þess að það geti orðið, verða þær að veita henni eftirtekt og atferli hennar“.

Þetta er þá sýnishorn af ummælunum um þjóðina. Á öðrum stað er Ísland kallað ræningjabæli o. s. frv. Ef þessi ummæli væru rjett, þá væri lítill vegsauki að því að vera Íslendingur. En eru þá þessi ummæli rjett? Er það verk tortímingar, sem er að gerast hjá þjóðinni? Er það ekki einmitt sköpunarverk, sem er að gerast á öllum sviðum? Í hvaða átt sem litið er, alstaðar blasa framfarirnar við. Hver er svo blindur, að hann sjái ekki, hvernig sjávarútveginum hefir fleygt fram? Og ekki þurfum við að roðna fyrir sjómennina okkar. Ætli margar þjóðir eigi menn, sem ötulli eru til sjósókna en við? Ekki er það heiglum hent að draga fiskinn úr sjónum á veturna í skammdegishörkunum. Á örstuttum tíma hefir farmensku vorri fleygt áfram. Og farmenn vorir hafa á sjer bæði prúðmensku- og dugnaðarorð. Á sviði landbúnaðarins eigum við ýmsa framúrskarandi áhugamenn, sem vilja skapa landbúnaðinum betri vaxtakjör. Á sviði vísindanna eigum við mjög duglega menn, sem án vafa munu auka veg háskóla vors með hverju ári sem líður. Á sviði listanna eigum við menn, sem vakið hafa eftirtekt á oss hjá fínustu listamönnum heimsins.

Sú lýsing, sem höf. „Nýja sáttmála“ gefur af íslensku þjóðinni, á ekki við hana, heldur á hún við þjóð, sem lifir inni í hinu sjúka ímyndunarafli höfundarins.

Þá er hjer eitt af sýnishornunum um Alþingi: „Vildu því t. d. helstu blöðin á Norðurlöndum í hvert sinn gera fjárlögin íslensku að umtalsefni, með nauðsynlegum skýringum fyrir þá, sem ekki þekkja hjer til, þá færi ekki hjá því, að það hefði gagnleg áhrif, því það væri sama sem að setja Alþingi og landsstjórnir þess í gapastokk“.

Jeg er nú ekki í miklum vafa um, að Norðurlandablöðin mundu líta öðruvísi á fjárlögin íslensku heldur en Sigurður Þórðarson. Hann segir, að þau setji Alþingi og landsstjórnina í gapastokkinn. Hvaða atriði eru þannig vaxin? Varla eru það þeir liðir fjárlaganna, þar sem fje er veitt til atvinnubóta, samgöngubóta, strandvarna, verklegra framkvæmda yfir höfuð. Varla það fje, sem veitt er til fræðslumála, til dómgæslu, til heilbrigðismála o. s. frv. Ekki er það fje, sem veitt er til að efla listir og vísindi. Allar þessar fjárveitingar sýna, að hjer er menningarþjóð, sem er á óðfluga framsókn.

Ef Norðurlandablöðin, sem lesa bók Sigurðar Þórðarsonar, þektu ástandið hjer, þá væri það ekki Alþingi og landsstjórnin, sem færu í gapastokkinn, heldur mundi höf. „Nýja sáttmála“ sitja þar fastur til eilífs nóns.

Um Alþingi er og sagt, að það sje undirrótin að allri spillingu í landinu. Þau eru ekki mjúk ummælin um þessa veglegustu stofnun þjóðarinnar. Jeg hika mjer nú ekki við að fullyrða, að þetta háa Alþingi sje mjög heiðarlegt í alla staði. En hinsvegar eru gerðar hjer, eins og á öllum löggjafarþingum svo margar ráðstafanir, sem grípa svo djúpt inn í alt líf þjóðarinnar, að eðlilegt er, að dómarnir um þingið sjeu jafnan mjög mismunandi. En hvernig sem þeir dómar annars eru, þá er ekki hægt að komast fram hjá því, að í þinginu er falin spegilmynd af þjóðinni sjálfri. Og þó utan þingsins sjeu ef til vill ýmsir betri menn en á þinginu, þá er það þó svo að jafnaði, að í hverju löggjafarþingi sitja menn úr hópi bestu manna þjóðanna.

Ekki mundi jeg hræðast það, þó erlendar þjóðir fengju að horfa framan í þjóðarfulltrúa vora. Varla trúi jeg, að þeir í þeim andlitum sæju þá drætti spillingarinnar, sem Sigurður Þórðarson er að leitast við að festa í hugum lesenda sinna hjer og erlendis.

Er þetta ekki alt saman óráð hjá hv. höfundi? Sama óráðið og þegar hann var að tala um þjóðina sína.

Hjer koma þá næst nokkur sýnishorn af ummælunum um fullveldið og baráttuna fyrir því. Og þau ummæli eru ekki minna furðuleg en það, sem á undan er komið: „Meðan landið er að sökkva sem dýpst niður í óstjórnarendemið, er það leitt til sætis með óháðum og fullvalda ríkjum heimsins“.

Enn segir hjer: „Barnaskapur er vægasta heitið, sem unt er að velja ólánlegasta og óviturlegasta sporinu, sem íslenskir fulltrúar hafa stigið í öllu þessu máli: uppsagnarákvæðinu á sambandinu við Dani. Það er tvent í senn: óþarft og skaðlegt. Komist Íslendingar einhverntíma það í veg, að þeir viti sig geta verið án sambandsins við Dani, munu þeir hafa ráð með að losa sig úr því, þótt ekki hafi verið samið um það fyrirfram. Ákvæðið var því óþarft. Og skaðsemi þess hefir verið í hælunum á því síðan það skreið úr egginu“.

Þá segir höf. ennfremur: „Og þær afleiðingar getur sú pólitík enn haft, að í framtíðinni verði það talin söguleg vissa, að bein samvinna hafi verið milli sumra Norðmanna og sumra Íslendinga síðan 1907. Hvernig skyldi t. d. í framtíðinni verða dæmt um slíkan fyrirburð sem þann, að eftir að það hefir sýnt sig, að málalokin 1918 hafa fært norsku hreyfingunni nýtt fjör, heldur sjálfstæðismaðurinn Bjarni Jónsson frá Vogi því fram bæði á Alþingi og utan þess, að sambandinu við Dani skuli að sjálfsögðu lokið 1940 (þ. e. á næstu árum þar á eftir)? Hann minnist ekki á þá sjálfsögðu afleiðingu af sambandsslitum við Danmörku, að landið hverfur undir Noreg (ekki er að óttast stórveldin, því að þau eiga ekki með að ráðstafa landinu, þegar það er skilið við Danmörku!)“.

Hvað á nú að segja um ummæli eins og þessi? Hjer er beinlínis gefið í skyn, að þetta land hverfi undir Noreg, ef uppsagnarákvæði sambandslaganna verði notuð. Ekki að tala um hina djúpu fyrirlitningu, sem kemur fram á allri sjálfstæðisbaráttu vorri, og hinn megna misskilning á kjarnaatriði sambandslaganna. Uppsagnaratriðið var skoðað sem aðalatriði sambandslaganna, og jafnframt sem hið ljósa og ótvíræða einkenni fullveldisins. En þessu atriði vill Sigurður Þórðarson kippa burt úr sambandslögunum. Miklir menn erum við, Hrólfur minn!

Hjer stendur enn á bls. 152: „Nú eiga Íslendingar kost á baráttu, ef ekki á að láta reka á reiðanum, uns smáþjóð þessi verður tekin til hirðingar af öðrum þjóðum, sem óþrifakind í sauðahjörð“.

Eru það ekki hugnæm orð að láta kalla þjóðina okkar óþrifakind í sauðahjörð. Og sjá ekki allir, hvað þessi bending um, að aðrar þjóðir eigi að taka hana til hirðingar, er þrungin af hinni heitu ættjarðarást höfundarins.

Á ummælum þessum, sem jeg hefi tilfært, sjá menn nú, hvers eðlis „Nýi sáttmáli“ Sigurðar Þórðarsonar er. Þar er þjóð vor og þing smánað. Þar er gert lítið úr fullveldi voru og öllu, sem íslenskt er og okkur er kært.

Hvernig getur nú Sigurður Þórðarson fengið sig til að skrifa svona bók? Jeg hefi verið að reyna að finna einhverjar sálarfræðilegar skýringar á því.

Jeg sje fyrir mjer mynd úr skólasögunni. Það var einu sinni við morguntíðir í latínuskólanum. Kennarinn sat þá sem oftar á upphækkuðum palli. Stóllinn bilaði undir honum. Söngurinn hætti. En æskan hláturmilda hló í hverju horni. Kennarinn skildi ekki þennan græskulausa gáska. Hann varð reiður, tók brotin úr stólnum og kastaði þeim sínu í hverja áttina. Hann var að hefna sín fyrir hláturinn. Jeg sje nú Sigurð Þórðarson á öðrum stóli. Hann situr inni í hinum gamla tíma. Alstaðar er auðmýktin í kringum hann og gyltu hnappana. En svo bilar stóllinn. Hinn nýi tími grípur í strenginn. Og æskan, sem ber hinn nýja tíma á örmum sjer, hún fer að brosa yfir gömlu auðmýktinni, sem hjúfraði sig í kringum gyltu hnappana. En þetta þolir Sigurður Þórðarson ekki. Því fer honum eins og kennaranum. Hann tekur stólbrotin og kastar þeim á ringulreið sínu í hverja áttina. Þessi stólbrot eru hinar ranghugsuðu árásir á Ísland, sem er ættjörð Sigurðar Þórðarsonar, eins og okkar hinna. Með öðrum orðum: Sigurði Þórðarsyni finst sjer ofaukið í hinum nýja tíma. Hann saknar auðmýktarinnar, sem hjúfraði sig um líf hans inni í gamla tímanum, og svo fer hann að mála alt svo svart, eins og það væri einhver andskoti okkar þjóðar, sem vildi tylla ótal drísildjöflum upp á hvern snaga í hinu litla þjóðfjelagi voru.

Svona bók getur orðið til í hvaða þjóðfjelagi sem er, ef aðeins einn einasti maður er til, sem hugsar svona. En auðvitað væri það best, að enginn svona hugsandi maður væri til. En nú er það staðreynd. En aðalatriðið í málinu er þó, að þroskinn í þjóðfjelaginu væri svo mikill, að svona bók væri fædd með öllum ótvíræðum dauðamerkjum á sjer. En hvernig var þá bókinni tekið? Í móttökunni, sem bókinni fjekk, finst mjer liggja verulega pólitíska atriðið í þessu máli. Og því er nú ver, að bókinni var í byrjun tekið vel, og sjerstaklega í þeirri átt, þar sem skyldugt var, að hún mætti sem mestum kulda.

Annars, áður en jeg vík nánara að þessu, þá skal jeg taka fram, að jeg mundi ekki finna til neinnar gleði, þó Sigurði Þórðarsyni, 70 ára gömlum, yrði hegnt með harðneskju fyrir þessi skrif. Jeg fylgi mannúðarstefnunni, sem hæstv. forsrh. (JM) rjettilega telur einkenni hins nýja tíma. Sig. Þórðarson virðist aftur vera talsmaður harðneskjustefnunnar, sem trúir á tugthúsin og vill láta hegna eftir strangasta bókstaf laganna. Jeg tel heppilegra, að 10 sekir sleppi við hegningu, heldur en einum saklausum sje hegnt. Á seinni tímum hefi jeg að minsta kosti í öðrum löndum heyrt fundið meira að of mikilli hörku hjá dómurunum en of mikilli vægð.

En nú sný jeg mjer aftur að aðalatriðinu í þessu máli. Jeg hefi lýst bókinni. Hún er árás á þjóðina, á Alþingi, á fullveldið, á svo að segja alt, sem íslenskt er. En hvað segir svo stjórnarblaðið „Vörður“, sem gefið er út af miðstjórn Íhaldsflokksins, stjórnarflokksins? Hvað segir það um bókina? Þar kemur svartasti bletturinn í öllu málinu. í „Verði“ 27. febrúar — jeg held á honum hjer í hendinni, svo að enginn getur rengt mig — í „Verði“ er lofsöngur um höfund „Nýja sáttmála“. Að vísu eru einhverjar málamyndaafsakanir í þá átt, að kenningarnar um fullveldið sjeu órjettmætar. En þær afsakanir sýnast vera rjett til málmynda, er þær eru bornar saman við hið mikla lof um höfundinn.

Jeg vil leyfa mjer að sýna lítið sýnishorn af móttökunum, sem bókin og höfundurinn fær í stjórnarblaðinu, sem gefið er út af miðstjórn Íhaldsflokksins. Hjer eru tvö gullkorn: „Bók Sigurðar Þórðarsonar, „Nýi sáttmáli“, varð útseld, og gat sjer landfrægð á fáum vikum“. — Og ennfremur: „Sigurður Eggerz bregður honum um landráð. Slíkt tal nær auðvitað engri átt, og þó því síður, sem alt ritið ber fagran vott um sterka ættjarðarást og alvöruþrungna tilfinningu fyrir sóma og heill Íslands, órólega og kröfuharða þrá eftir siðferðilegri og menningarlegri framför hins íslenska þjóðfjelags“.

Hver skyldi nú trúa, að þessi ummæli stæðu í stjórnarblaðinu? En þau standa þar. Fyrir hvað á þessi bók að hafa getið sjer landsfrægð? Fyrir ummælin um þjóðina, þar sem henni er líkt við kláðakind? Fyrir ummælin um þingið, sem spillingin er talin stafa frá? Fyrir árásirnar á fullveldið?

Eða er það fyrir skilninginn á atvinnulífi vora? Höf. segir, að ekkert þurfi að gera fyrir sjávarútveginn. — Eða er það trúin á framtíð tugthúsanna og vantrúin á skólunum? Aldrei hefi jeg sjeð meira afturhald á einum stað en það, sem er í þessari vesölu bók. Stafar landsfrægðin af því? Hvernig getur stjórnarblað lofað svona rithöfund fyrir aðra eins skaðræðiskenningu og hann flytur? Úr stjórnarherbúðunum hefði þessi bók fyrst og fremst átt að mæta nístandi kulda.

Þegar bókin nú verður þýdd á erlendar tungur og jafnframt þess getið, að stjórnarblaðið skipi höfundi ritsins í fremstu röð íslenskra stjórnmálamanna, þá verður auðvitað tekið mark á bókinni. Hún er búin að fá á sig opinberan stimpil. En hvaða mynd festist í hugum erlendra manna, sem lesa þessa bók með stjórnarstimpilinn? Hve „skrumlaus, fagurgalalaus og alvöruþrungin“ er ekki tilfinning Sigurðar Þórðarsonar og „Varðar“ fyrir sóma Íslands!

En hver er nú afstaða stjórnarinnar til þessa bæklings? Mjög eðlilegt er, að afstaða stjórnarblaðsins sje skoðuð sem afstaða stjórnarinnar. Jeg trúi nú samt ekki því, að afstaða núv. forsrh. sje sama og afstaða stjórnarblaðsins. Jeg vil sýna hæstv. forsrh. þá sanngirni að taka þetta fram. En auðvitað er enn engin afneitun á kenningum „Nýja sáttmála“ komin fram af stjórnarinnar hálfu. En þessi afneitun verður að koma fram. Vegna afstöðu vorrar út á við er það nauðsynlegt, að af hálfu stjórnarinnar komi fram skýlaus afneitun á þessari kenningu, og þá ennfremur afneitun á stjórnarblaðinu „Verði“.

Jeg hefi nú gert hreint fyrir mínum dyrum og lýst afstöðu minni til þessa máls.

Jeg mun ekki á neinn hátt víkja að hinum persónulegu árásum, sem í þessari bók eru á mig og þá aðra, sem harðast hafa verið úti í sjálfstæðisbaráttunni. Jeg hefi í blaðagrein vikið að þessum árásum og sýnt fram á þar, að þær eru alveg af sama tæi og árásir þær eru, sem í andstöðublöðunum dynja á þeim, sem við stjórnmál fást. — Jeg hefi um dagana fengið of mikið af slíkum árásum til að kippa mjer upp við þær. Jeg hefi sagt það einu sinni áður og mun segja það hjer enn: Þegar blaðaskammir dynja á mjer, þá hefir mjer að jafnaði virst, að jeg væri á rjettri braut, en þegar um hefir kyrst, hefi jeg farið að hugsa um, hvort jeg væri ekki að gera eitthvað vitlaust.

Jeg vil að lokum endurtaka þau tilmæli mín til hæstv. forsrh. (JM), að hann á algerlega ótvíræðan hátt afneiti kenningum Sigurðar Þórðarsonar í „Nýja sáttmála“, svo að það megi verða öllum ljóst, bæði með vorri þjóð og erlendum mönnum, að stjórnarblaðið sje í algerðri andstöðu við stjórnina í þessu máli. En enginn skuggi af vafa má vera yfir því atriði.