05.05.1926
Efri deild: 67. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í D-deild Alþingistíðinda. (3162)

100. mál, málshöfðun gegn Sigurði Þórðarsyni

Flm. (Jónas Jónsson):

Hæstv. forsrh. (JJ) hefir nú í dag flutt hjer í hv. deild allítarlegt erindi um meðferð sakamanna, sem jeg verð að segja um, að fremur hefði átt heima í tímaritsgrein heldur en í þingræðu, eins og mun verða athuguð á sínum tíma.

En fyrst ætla jeg að víkja að því, þar sem hann var að tala um ósamræmi milli ritdóms hv. flm. Str. (TrÞ), er birtist í Tímanum 9. jan., og till. þeirrar, er jeg hefi borið fram og er nú hjer til umr.

Í þessum ritdómi tekur ritstjórinn það fram, að þó að höf. „Nýja sáttmála“ sje íhaldsmaður, þá fari hann ekki í neina launkofa með það, sem hann telur vera ókosti í stjórnarfari þeirra manna, er mestu ráða í flokki hans, og ritstjórinn bætir við, að sumt af því, sem Sigurður Þórðarson færi Íhaldsflokknum og stjórn hans til saka, sje það sama og blað hans, „Tíminn“, hafi oft og margsinnis tekið fram, að væri vítavert í stjórnarframkvæmdum flokksins. En ritstjórinn víkur að ýmsu fleiru, sem Sigurði Þórðarsyni hafði skotist yfir að taka upp í bók sína, og nefnir þar til Krossanesmálið fræga, fjáraukalögin miklu, sem fræg eru orðin að endemum, og kvennaskólafrv., sællar minningar, er var hjer á ferðinni í fyrra og nú er risið upp að nýju, með þeim viðauka, er hæstv. mentamálaráðh. (JM) mátti hvorki sjá nje heyra nefndan í fyrra.

Annars virðist hæstv. forsrh. (JM) hafa gleymt niðurlagi „Nýja sáttmála“ og ekki athugað það, sem ritstjórinn segir um hann, því að í ritdóminum stendur skýrum orðum, að látið verði bíða að rita um niðurlagskafla bókarinnar þar til tækifæri gefist. Og tækifærið, sem bíða átti eftir, var það, að láta stjórnarblöðin hlaupa á sig, eins og líka tókst og hv. 1. landsk. (SE) hefir rjettilega bent á. Fyrir ritstjóranum vakti ekkert annað en að bíða eftir framhleypni stjórnarblaðanna og að sjá þann vanda, sem slík gagnrýning skapaði stjórninni.

Hefði jeg verið í vafa um undirbúning þessa máls frá minni hendi, þá hefi jeg að minsta kosti nú sannfærst um rjettmæti till., eftir að hafa hlustað á ræðu hæstv. forsrh. (JM). Hann er ekki ræðumaður, eins og kunnugt er, enda tekist þetta bágast, því svo klaufalega hefir hann talað í dag, að undrum sætir. Það var eins og kenna mætti í ræðu hans einskonar innra klofning? Í sálu hans, en af því leiðir, að rökin veiða máttlaus og efni ræðunnar svo sundurleitt, að erfitt er að henda reiður á því.

Þar að auki ruglast hann svo í ríminu, að hann getur ekki greint rjett frá röngu. Hann segir t. d., að jeg hafi ekki skrifað gagnrýni á bókinni fyr en eftir það, að höf. hennar hafði ráðist að mjer með óbotnandi skömmum. Með því vill hann gefa í skyn, að persónuleg óvild mín til Sigurðar Þórðarsonar hafi ráðið penna mínum, er jeg reit um bókina. Sannleikurinn er sá, að Sigurður Þórðarson ræðst á mig fyrir þá „kritik“, sem jeg skrifaði um bók hans, eftir að stjórnarblöðin höfðu hlaupið á sig og mælt með því, að landið afsalaði sjer rjetti í hendur erlends valds.

Afstaða mín til þessa rits er sú, að þar sem nafn mitt er hvergi nefnt í bókinni, þá get jeg ekki tekið fremur til mín það, sem þar er sagt, heldur en aðrir þm., og hefi því enga ástæðu til að halda, að höf. hennar sje ver til mín en þm. yfir höfuð. En höf. nefnir þá sjerstaklega hæstv. forsrh. (JM) og hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) og fer þeim orðum um báða, að stillingu þarf til að liggja undir þeim ásökunum, sem að þeim er beint. Það er fyrst eftir að jeg birti „kritik“ mína, að þessi maður ræðst að mjer, og kann sjer þá ekkert hóf um orðbragð, svo ætla má, að hann sje yfir sig reiður, eða þá geggjaður, nema hvorttveggja sje.

Og svo dirfist hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) að leggja mikið upp úr orðum þessa gamla manns, sem svo er yfir sig reiður, að hann hefir enga stjórn á sjer. (JóhJóh: Jeg sagði ekkert um það). En alt, sem í ritinu stendur til áfellingar hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), er rökstutt og er ritað rólega og með köldu blóði. Þess vegna er ekki annað hægt en taka mark á því að einhverju leyti.

Annars verð jeg að segja það, að eigi jeg að fylgja þessum lausalopa af sundurtættu röksemdaþroti í ræðu hæstv. forsrh. (JM), þá verð jeg að gera mig sekan í því að verða nærri því eins óáheyrilegur ræðumaður eins og hann. (Forsrh. JM: Þm. er altaf jafnóáheyrilegur).

Það er auðsjeð, þó að hæstv. ráðh. (JM) þekki dálítið til laga og hafi lesið eitthvað af íslenskum bókum, þá er hann ekki betur að sjer í pólitík en svo, að hann heldur, að stjórnarafbrot fyrnist eins og skuldir. Nei, stjórnarráðskvisturinn fyrnist ekki, og ef trúa má almannadómnum, þá mun Guðjónsmálið ekki fyrnast heldur.

Þá vitnaði hæstv. forsrh. (JM) í það, sem jeg hafði áður tekið fram, að Englendingar gerðu strangar kröfur til embættismanna sinna, en gat þess þó, að einhver maður, sem sagt var um, að vakið hefði hneyksli með framkomu sinni, hefði orðið ráðherra. Jeg hefi nú bent á, að þetta er ekki rjett; en jeg held, að hæstv. ráðherra (JM) hafi flaskað á þessu tvennu, að í Englandi er tekið hart á því, ef embættismenn sannanlega gera sig seka um hneykslanlegt athæfi; en það er ekki tekið hart á því, þó að hálfbrjálaður maður hreyti úr sjer stóryrðum og ósönnum dylgjum um þm. eða aðra opinbera starfsmenn.

Jeg mintist í ræðu minni á tvo dómstóla: dóm almennings og „juridiskan“. Það er auðsjeð á öllu, að hæstv. ráðh. (JM) er illa við það, því að hann hopar undan í flæmingi og segir, að árásin á sig og hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) sje þess eðlis, að ekki þurfi nema annan þessara dómstóla til að dæma þar um. Og það er almenningsálitið, sem hann ætlar að leita til. Hann reyndi að bera það fyrir sig, að hann væri viss um, að almenningsálitið mundi telja það lítilfjörlegar sakir, sem á hann væru bornar, en það eru undanbrögð, til þess að smeygja fram af sjer að ræða málið eins og það liggur fyrir. Þetta kom ljóst fram a. m. k. hvað Alþingi snertir, því að þar hjelt hann fram þeirri fáheyrðu fjarstæðu, að það gæti ekki náð neinni átt, að Alþingi færi í mál, hvað gífurlegar ásakanir sem á það væru bornar. En það kallar hann rógsmál, þegar blaðamaður einn nefndi þrjá þm., sem versluðu við kjósendur sína, sjálfum sjer til stórmikils hagnaðar, og fullyrti, að almannadómurinn hefði gengið á móti blaðinu. En hæstv. forsrh. (JM) getur ekki haldið þessu fram í alvöru. Hann veit sig fara þar með blekkingar; því hvernig fór, þegar málið kom undir dóm almennings? Einhver gáfaðasti maðurinn í hópi síldarkaupmannanna og gamall þingskörungur varð að draga sig til baka við landskjör, eða kanske hann hafi þokað fyrir hæstv. forsrh. (JM), sem sagt var um að hefði úr fáum þingsætum að velja. Annaðhvort hefir það verið af því, að þessi gamli, þjóðkunni þm. treysti ekki almenningsálitinu, eða þá að hæstv. ráðh. (JM) hefir þótt æskilegra að vera ekki að flagga með honum á listanum.

En gleggra er þó hitt dæmið, að annar þm. í hópi þremenninganna, sem við síldarverslunina voru riðnir, og í mörg ár hafði verið kosinn í sama kjördæminu, fellur þar, og það fyrir ritstjóra þess blaðs, sem „kritiseraði“ síldarbraskið. Allir vita, að hjer átti þó í hlut gáfaður læknir, gagnkunnugur í kjördæminu og vel látinn. Ástæðan fyrir því, að svona fór, var sú, að almannadómurinn hafði dæmt ritstjóranum í vil. Aðstöðumunur, ritstjóranum í óhag, var þó mikill, þar sem hann hafði aldrei í kjördæmið komið, var öllum ókunnur, en hinn hverjum einasta kjósenda kunnur. Ritstjórinn vann því mál sitt fyrir almannadómi, þótt hann tapaði því fyrir hinum „juridiska“ dómstóli.

Hæstv. forsrh. (JM) sagði eitthvað á þá leið, að þótt freklega væri að orði kveðið um hann í pjesanum, hefði hann þó ekki svarað því, af því að hann væri ekki vanur að standa í illdeilum út af því, sem um hann væri sagt í opinberu lífi. Eftir þeirri „logik“, sem fram kom í ræðu hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), að ef maður er sagður vera lygari, þá verður maður lygari — eftir því ætti þá öll sú „kritik“, sem dunið hefir yfir höfuð hæstv. ráðh. (JM), bæði fyr og síðar, að vera rjett, af því að hann hefir aldrei sjeð ástæðu til að bera hönd fyrir höfuð sjer eða fara í mál.

En nú er þess að minnast, að hæstv. ráðh. (JM) hefir ekki staðið varnarlaus. Um það leyti, sem hann var ungur þm., stofnaði hann stórt blað, sem lifir enn, og var í ritnefnd þess um tíma, en nánustu flokksbræður stóðu að því. Og af þessu blaði var hann varinn, og það má benda á, að jafnvel enn skýtur blaðið skildi fyrir hann, og er það þó ópólitískt, sem kallað er. Að minsta kosti sást það í sumar, þegar birt var grein um þjóðjarðasölu í Húnaþingi og fundið var að við hæstv. ráðh., að þá tók blaðið vörnina upp fyrir hann af gömlum vana. Sem stendur held jeg, að hæstv. ráðh. (JM) styðjist meira eða minna við 7 eða 8 blöð, og stærst af þeim er „Morgunblaðið“, svo hann getur tæplega talið sig standa varnarlausan uppi.

Hæstv. forsrh. (JM) segir, að stundum hafi verið bornar á sig þyngri sakir en gert er í „Nýja sáttmála“. Það getur vel verið, en það liggur ekki fyrir, heldur hitt, hvað hann vilji segja sjálfur gagnvart þessum alvarlegu, og að flestra dómi nægilega þungu ásökunum. Hann segir það ósatt, að hjer sje verið að tefja alla rjettarrannsókn. Þetta getur vel verið. Höf. „Nýja sáttmála“ álítur það rjett, og hann gerir sitt til þess að rökstyðja það. Hæstv. ráðh. neitar því, en gerir þó ekkert til þess að færa rök fyrir máli sínu. Hjer verður því að rannsakast frá rótum bæði Guðjónsmálið og stjórnarráðskvisturinn. Almenningur hefir engin tök á að athuga þessi mál. Ef hæstv. ráðh. er alvara um að fá sannaða sína sýknu, er engin önnur leið en að láta dómstólana gera það.

Þá gerði hæstv. ráðh. (JM) sig sekan í einni höfuðkórvillu, er hann gerði orð „Nýja sáttmála“ að mínum orðum. Jeg gerði hv. þdm. það ljóst í gær, að jeg hefði ekki komið fram með þessa till. í þessu formi, ef því hefði ekki verið haldið fram í stjórnarblöðunum, að það væri sjálfsögð skylda að fara í mál út af meiðyrðum. Ráðherrann má því kenna blöðum sínum um þetta, bæði þeim, sem hann viðurkennir opinberlega, og svo hinum, sem hann viðurkennir óbeinlínis, með því að stjórnmálaritstjóri þess er einn af stuðningsmönnum stjórnarinnar hjer á Alþingi. Það er næsta furðulegt, að hæstv. ráðh. skuli leyfa sjer að segja, að jeg geri orð pjesans að mínum orðum, þótt jeg vitni til þeirra í sambandi við þessa till. Jeg hefi einmitt getið þess, að jeg gæti ekki gert hjer upp á milli. Annar ásakar, hinn reynir að verjast. Úr þessu verður ekki skorið, nema af dómstóli. Blöð stjórnarinnar heimta málssókn fyrir það, sem enginn maður lætur sjer detta í hug að skoða nema sem óvitahjal. En hvað á þá að segja um hinar þungu ásakanir, sem bornar eru á Alþingi, hæstv. forsrh. og hv. þm. Seyðf., og reynt að rökstyðja? Út af hinum gífurlegu ummælum um Alþingi áleit hæstv. forsrh. það minkun fyrir þingið að höfða mál. Það er þá sennilega af því, að hann álítur höf. „Nýja sáttmála“ svo ómerkan mann, að hann sje ekki þess verður.

Um sýslumannaskiftin í Árnessýslu hefi jeg ekki sagt annað en það, sem í bókinni stendur. Ef það er rangt hermt, þá er það eitt af því, sem kæmi í ljós við rannsókn, að hæstv. forsrh. sje saklaus í því efni, og er þá betur farið en heima setið. Eitt var það, sem hann reyndi ekki að verja. Hann var dómsmálaráðherra allan þennan tíma, sem sýslumannaskiftin áttu sjer stað En hvers vegna voru þessi sífeldu skifti? Hann sagði, að það hefðu ekki nema 4 menn gegnt embættinu. En jeg hygg nú, að Árnesingar telji þá fleiri, ef sá maður er talinn með, sem barði lögregluþjóninn hjer í Reykjavík. — Í þingtíðindunum frá 1919 liggur fyrir játning hæstv. forsrh. um það, að um 3 mánaða skeið hafi meðferð embættisins ekki verið forsvaranleg. Hjer liggur því fyrir sektarjátning. En hvers vegna var Árnessýsla nokkum tíma höfð í óforsvaranlegu ástandi? Fyrir því færði hann enga vörn. Alveg hið sama er að segja um fordæmið, að flytja embættismann burt úr embætti sínu og setja hinn setta á eigin ábyrgð. Einkarjettinn á þessu á Jón Magnússon, segir höf. sáttmálans. Ef þetta er rangt, þá er hægt að afsanna það með dómi.

Jeg skal ekkert um það segja, hvort það er rjett, að hæstv. forsrh. hafi látið undirmann sinn leggja stjórnina fyrir fætur sjer, og í því sambandi hafi hann gefið ranga skýrslu. En þetta er sagt í bókinni. Ef það er rangt, þá mundi dómur verða höfundi til dómsáfellis, en hæstv. forsrh. til dýrðar.

Sjóðþurðir eru tíðar, stendur í bókinni. Það er ekkert sagt um það, hver skaðast. Stundum er það ríkissjóður, en stundum aðrar stofnanir. Ein kom t. d. fyrir í Íslandsbanka ekki alls fyrir löngu. Það er sagt, að stjórnin hreyfi ekki við þeim mönnum, sem uppvísir verða. Ef þetta er rangt, þá er hjer líka tækifæri til þess að hreinsa sig með dómi.

Hæstv. forsrh. sagði, að það væri ekki til neins að fara út í morðmálið, jeg mundi ekki skilja það. Jeg hefi nú rakið feril þess eftir bókinni og lýst niðurstöðu höfundarins. En hún er ærið þungorð í garð stjórnarinnar. Henni fylgja forsendur, sem eru þess eðlis, að jeg geri ráð fyrir því, að dómur almennings verði ekki einlitur. — Hæstv. ráðh. talað: um skilningsleysi mitt á lögum, en jeg get fullvissað hann um það, að jeg get ekki hugsað mjer meira ólán en að vera lögfræðingur, eftir þeim kynnum, sem jeg hefi haft af þeirri stjett yfirleitt. Að vísu þekki jeg gáfaða og mentaða menn í þeirri stjett. En kynni mín af hæstv. ráðh. benda til þess, að lagaþekkingin sje aldrei til nokkurs gagns. Í einu af alvarlegasta máli þingsins, sem kom til hans kasta sem lögfræðings, varð hann að leita til fjhn. með það og spyrja hana ráða. Þetta sýnir, að lítið var gagn að sjerþekkingu hans, fram yfir almenna mentun. Jeg býst nú samt við, að hann sje sæmilega góður lögfræðingur, en jeg hefi ekki mikla aðdáun á þeirri þekkingu hans, því að jeg veit, að hún er öll á kostnað annara yfirburða. Hann vantar alla aðra mentun og víðsýni.

Þá kem jeg að merkilegu atriði, lögregluþjóninum í Reykjavík. Hæstv. ráðh, ber ekki á móti því, að það sje rjett hermt. Lögregluþjónninn er í einkennisbúningi og kemur eftir beiðni á vettvang. Þá er ráðist á hann með ærumeiðingum og illyrðum; hann er kallaður þjófur og lygari, honum hótað tugthúsi, hrækt framan í hann, hann er ámintur um að stela ekki og rekinn á dyr. Alt þetta viðurkennir hæstv. ráðh. En samt kemst hann að þeirri afareinkennilegu niðurstöðu, að þessar mótgerðir sjeu einkamál milli lögregluþjónsins og hins. fyrv. sýslumanns Árnesinga, sem framdi brotið. Jeg býst við því, að margur muni eiga erfitt með að skilja það, ef hæstv. ráðh. og hv. þm. Seyðf. væri sýndur slíkur mótgerningur sem ráðherra og dómara, að þá væri ekki farið í sakamál út af slíkum árásum.

Þá þótti hæstv. ráðh. það lýsa mikilli vanþekkingu hjá mjer, að jeg skyldi láta mjer detta í hug, að við þessu lægi þyngri hegning en 200 króna sekt. En ef það er leyfilegt að fremja slík ofbeldisverk án þyngri viðurlaga, þá finst mjer það bera vitni um sljóa dómsmálastjórn. Ef þetta er rjett, þá finst mjer, að hæstv. ráðh. ætti að bera fram stjfrv., er skapaði meiri rjettarvernd fyrir lögregluna, þegar hún er að embættisverkum.

Þá sagði hæstv. ráðh. út af Guðjónsmálinu, að sá lögfræðingur og stjettarbróðir hans að námi, sem skrifaði „Nýja sáttmála“, hefði litla þekkingu og reynslu í dómsmálum. Það væri lítið á því að græða, sem hann segði um slíkt. Þá kemur það upp úr kafinu, að það er ekki aðeins við, þeir ólöglærðu, sem ekki berum skyn á þetta, heldur líka gömlu lögfræðingarnir. Þetta á líklega að skilja svo, að það sje engum trúandi í slíkum efnum nema hæstv. ráðh. og hv. þm. Seyðf.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það væri ekkert að byggja á ummælunum um Guðjónsmálið. Þau væru tómt bæjarslúður. En þetta er nú ekki rjett. Prófin í því eru til sýnis, og það má því segja hæstv. ráðh. til lofs, að þegar hann fjekk skjölin í sínar hendur, þá sá hann, að hjer var ekki alt með feldu, og fyrirskipaði nýja rannsókn. Á þessu sjest, að hann var ekki að öllu leyti ánægður með bæjarfógetann í Reykjavík. Það eru tvö dæmi þess, að hann virðist

ekki hafa treyst á gerðir hans. Annað er morðmálið, sem hann rak í hann aftur, en hitt er Kveldúlfsmálið, sem hann áfrýjaði, þrátt fyrir óþægindi þau, sem það hafði í för með sjer fyrir hann, þegar togarinn var dæmdur í hæstarjetti. Hæstv. ráðh. fanst það undarlegt, að jeg skyldi kalla Kveldúlfsdóminn merkilegan dóm. En hann er merkilegur, þótt ekki væri fyrir annað en hvað hæstv. ráðh. varð að líða fyrir hann. Í grein, sem jeg skrifaði um þetta mál í fyrra, tók jeg svari hans, eins og jeg geri altaf þegar ráðh. hallast að rjettu máli og er vanþakkað það, sem að vísu er ekki oft, en kemur þó fyrir. En úr því að hann fór á annað borð að minnast á þennan dóm, þá hefði hann átt að geta um það, hvort það er satt, sem gengur manna á milli, að ungur maður hafi kveðið hann upp, sá hinn sami, sem rannsakaði morðmálið, núverandi ritstjóri „Storms“. En hann var þá ritstjóri að blaði, sem að nokkru leyti er gefið út af þeim manni, sem átti skipið, sem dæma átti. Mjer finst það merkilegt, ef hann hefir gert undirdóminn í þessu máli.

Þá hjelt hæstv. ráðh. nokkurskonar fræðslufyrirlestur, en það var langskársti hluti ræðu hans, þótt hann væri málinu algerlega óviðkomandi. Inn í þetta blandaði hann vissum atriðum, sem mjer hefði fundist viðkunnanlegast af honum að minnast sem minst á. Hann gat um fundinn við Þjórsárbrú. En þar hafði hann um sig nokkurskonar lífvörð drukkinna manna, sem lágu þar flatir í móunum og gáfu til kynna ánægju sína á málstað hæstv. ráðh. með allskonar ópum og óhljóðum. Jeg held, að hæstv. ráðh. hljóti að eiga betri endurminningar í fórum sínum en stuðning þessara aumingja.

Hæstv. ráðh. talaði mikið um, hvað jeg væri fáfróður. Jeg hefi nú áður lýst aðdáun minni á lagaviti hans og hans nóta. En ræða hans um hegningarmálin er best vitni þess, hvað má með rjettu setja út á forustumenn rjettlætis og laga hjer á landi.

Hann sagði að erlendis hefðu komið fram nýir straumar í hegningarmálunum. En jeg verð að segja, að fram að þessu hefir okkar hegningarlöggjöf orðið fyrir litlum áhrifum af þessum nýju straumum Það hefir lítið verið skrifað um þá hjer. En á hverjum bitnar það? Á hæstv. ráðh. Hann er gamall lögfræðingur og hefir stundum haft góðan tíma. Ef hann veit um þessa nýju strauma, þá á hann að láta ljós sitt skína. En frá honum hefir ekki komið ein einasta fræðandi ritgerð. Hafi hann vitað eitthvað, þá hefir hann rækilega haldið þeirri visku heima. En honum er kanske ósýnt um að skrifa um það, sem hann veit. Þá gat hann gert annað. Hann hefir verið ráðherra síðan 1917, að undanteknum tveim árum. Hann hefir því oft orðið að leggja vilja sinn fyrir þingið. Það, sem hann gat ekki gert í þessu efni sem fræðimaður, gat hann gert sem löggjafi. En það hefir hann ekki heldur gert. Þessi þekking hans virðist helst hafa komið fram í náðunum. Hann hefir náðað Júlíönu og þrjá þjófa. Það kynni líka að vera, að meðferð hans á stjórnarráðskvistinum og lögregluþjóninum heyrði undir þessa nýju strauma. En jeg get ímyndað mjer, að þeir ágætu menn, sem stóðu að þessum straumum suður í löndum, yrðu ekki mjög hrifnir af meðferð hans á stjórnarráðskvistinum eða teldu hann í sínum anda. Jeg held, að það hafi verið í fyrra, að jeg mintist á þessa nýju strauma í lögfræðiefnum, sem hæstv. ráðh. gat um áðan, og mintist á Lombroso, frægasta manninn innan hegningarfræðinnar. En jeg man ekki betur en hann gerði lítið úr þessu þá, teldi það umdeildar skoðanir. Jeg varð ekki var við annað þá en þetta væri alt óljóst og í þoku fyrir hæstv. ráðh., eins og líka kemur fram í athafnaleysi hans á þessu sviði. Hvað hefir hann gert? Ekki neitt. Ef hæstv. ráðh. væri búinn að koma hjer upp heimili fyrir dæmda menn, þar sem þeir gætu unnið úti við undir svipuðum kringumstæðum og sumstaðar annarsstaðar, þá gæti hann talað breitt um þetta. En hann hefir hvorki gert það nje annað í anda þessara nýju strauma. Hann segir, að jeg haldi fram hörðum hegningum. Jeg hefi ekki sagt orð um það. Jeg held, af kynnum þeim, sem jeg hefi af þekkingu hæstv. ráðh., að jeg viti meira um þessa nýju strauma en hann. Hann spyr: Er íslenska þjóðin nógu þroskuð til þess að þola mildar hegningar? Hann er dómsmálaráðherra. Það er hans að svara þessu. Jeg held, að eðlilegra hefði verið, er það kom í ljós, að ekki var vel farið með peninga í sambandi við stjórnarráðskvistinn, að þeir menn, sem að því stóðu, væru skoðaðir sem sjúklingar, og hefði átt að fara með þá sem slíka. Annars ætla jeg síðar að koma að kvistmálinu og hleyp yfir það nú.

Þegar hæstv. ráðh. (JM) mintist á till., sagði hann, að það væri broslegt, að Alþingi færi í mál út af því, sem misjafnt er sagt um það. Þetta er nú hans skoðun. En því eru blöð hans altaf að tala um, að einstakir menn eigi að höfða mál út af ummælum, sem ekki er reynt að rökstyðja? Þá hafði hann það eftir lögfræðingi, að þingið mundi ekki geta farið í mál. Þetta er afar eftirtektarvert atriði. Hæstv. ráðh. er fyrst og fremst dómsmálaráðh. og auk þess lögfræðingur og gamall dómari. En er hann á sem þingmaður að greiða atkv. um það, hvort þingið eigi að höfða mál, þá minnist hann ekki á sinn skilning á því máli, heldur kveðst hann hafa heyrt það úti í bæ, að þingið geti ekki farið í mál. Þetta verður ekki skilið á annan hátt en hæstv. ráðh. sje það ljóst, að þingið geti farið í mál, eins og aðrar „korporationir“. En ef því væri nú svo varið, að þingið gæti ekki höfðað mál, þá er hjer enn ný ásökun á hæstv. dómsmálaráðh. og hæstv. forseta Sþ., að þeir skuli ekki vera búnir að skapa rjettarvernd fyrir þingið, að þingið skuli ekki vera jafnrjetthátt og fjelag auðvirðilegra síldarspekúlanta. Jeg held, að hæstv. ráðh. hafi ætlað sjer að komast í kringum þetta. Hann hefir ekki viljað segja fjarstæðuna sjálfur, heldur kveðst hann hafa heyrt þetta úti í bæ. Þetta minnir á eitt þjóðskáldið, sem finnur kvæði sín sjórekin, þegar þau eru svo auðvirðileg, að hann vill ekki setja nafn sitt undir þau. Jeg vil nú nota tækifærið til að benda á, hverjar afleiðingar það getur haft, að hæstv. ráðh. hefir lýst þingið rjettlaust. Í sveitunum er reynslan sú, að þegar túnin eru ógirt, þá gerast gripirnir ásæknir. Jeg gæti trúað, að eftir þetta færi að tíðkast hin breiðu spjótin. Það hefir verið sagt, að þingmenn lifi af starfi sínu, versli með atkv. sitt, lifi af prósentunum af hrossakaupunum og fleiru þessháttar. En hæstv. ráðh. hefir frjett það úti í bæ, að þingið hafi enga rjettarvernd gegn slíkum ummælum. Þetta er ekki álitlegt. Því hefir verið haldið fram af málaflm., að það mætti segja alt ilt um samvinnufjelögin. Þau hefðu enga rjettarvernd. Og það virðist vera, að dómarar sumir líti líkt á það mál. Nú vil jeg beina því til hæstv. ráðh., hvort ekki sjeu tiltök að tryggja samvinnufjelögin og Alþingi gegn slíkum ásökunum sem þessum.

Hæstv. ráðh. (JM) sagði, að Alþingi ætti að vera hafið yfir að skifta sjer af svona ásökunum. Það gæti látið almenna dómstólinn nægja. En í þessum orðum liggur þungur áfellisdómur um persónugildi þess manns, sem gífuryrðin notaði. En þá er það því óskiljanlegra, að stjórnin skuli hafa látið blöð sín hæla honum og hjálpa þannig til að villa almenningi sýn.

Þá kem jeg að því, sem hæstv. ráðh. (JM) gerði heldur vel, og miklu betur en hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), sem og vænta mátti, því að þar er dómgreindin og skilningurinn í enn aumara ástandi. Hann kveðst ekki beinlínis vera á þeirri skoðun, að höfundur „Nýja sáttmála“ sje truflaður á geðsmununum. En jeg hafði gert mun á honum í því efni eftir fyrra og síðara skrifi hans. En hæstv. ráðh. segir, að höfundurinn sje gamall maður og haldinn af ákaflega mikilli bölsýni. Hann segir ennfremur, að bölsýnin magnist með aldrinum og sje hjer á mjög háu stigi. Nú er bölsýni viss tegund sálarlegrar veiklunar. Hæstv. ráðh. er því hjer kominn að sömu niðurstöðu og jeg. Jeg hefi sagt, að hjá höfundi pjesans kæmi fram óvenjulegt sálarlegt viðhorf, sem gerði það að verkum, að nú orðið væri ekki hægt að taka fullkomlega mark á honum. Að sumu leyti ber pjesinn merki þessarar veiklunar. En sumir kaflar hans eru þó bygðir mjög rökfast, og þá sjerstaklega kaflinn um Guðjónsmálið. Þar leiðir höf. mörg rök fram og byggir á þeim niðurstöðuna. En svo líða nokkrar vikur. Þá fara stjórnarblöðin að tala um hina sterku föðurlandsást, sem lýsi sjer hjá höfundi pjesans, líklega þá helst í því, er hann skorar á erlendar þjóðir að taka landið. En þegar jeg svo skýri frá árásunum á sjálfstæði landsins í rjettu ljósi, þá stekkur höf. upp á nef sjer og skrifar grein í eitt stjórnarblaðið, en sú grein ber öll einkenni geðbilunar. Þar er vísvitandi ósönnum ásökunum slöngvað út, en engin rök færð fyrir þeim. Það er eins og ef ekkert hefði verið tekið fram um Guðjónsmálið í „Nýja sáttmála“, en því haldið fram svona út í loftið, að hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) væri fúlmenni sem dómari. Jeg hygg, að það hefði ekki verið álitið vel heilbrigt. En hvernig á nú að skilja þessa breytingu, að maður, sem hugsar stundum kalt og rólega og á það til að færa allgóð rök fyrir máli sínu, fer alt í einu að hegða sjer algerlega gagnstætt þessu. Hefir ekki eitthvað komið fyrir hann, sem veldur þessari truflun á geðsmunum hans? Skýringar okkar standa hlið við hlið. Hæstv. ráðh. segir, að hann sje haldinn af bölsýni, sem magnist með aldrinum og sje hjer á mjög háu stigi. Þetta er mjög nálægt þeirri skoðun, sem jeg hjelt fram um hann. Eftir að jeg hafði bent á, hver hætta þjóðinni stafaði af undirlægjuskap hans, hefir bölsýnin og veiklunin magnast.

Þá hefi jeg lítillega farið yfir það, sem hæstv. forsrh. (JM) sagði um fyrsta lið till. minnar. Hann þykist viss um, að það sje þinginu til skammar að fara í mál út af gífuryrðum, sem hafa verið höfð um það, en hitt hefir hann frjett einhversstaðar úti í bæ, að þingið muni ekki geta gert það.

Þá kem jeg að næsta lið, að skora á dómsmálaráðh. að höfða mál. Viðvíkjandi þessum lið og næsta lið á eftir færði hæstv. forsrh. þá mótbáru, að þetta væri á móti lögunum. En jeg held, að hann hafi ekki skilið till. rjett, Orðalag till. er þannig, að það er skorað á dómsmálaráðh. að höfða mál, en honum er ekki skipað að gera það. Ef honum væri skipað, þá er um að ræða brot á lögunum. En hjer er um að ræða ráðleggingu, sem hann er ekki skyldur til að hlýða, en getur farið með eftir því sem innri maður hans býður. Jeg gat þess í gær, að jeg mundi taka mikið tillit til þess, sem hlutaðeigendur segðu um form þessarar till. Jeg er fús á að laga formið eftir kringumstæðunum. Jeg hefi að nokkru leyti gert það með brtt. minni, en það getur vel verið, að jeg sjái ástæðu til þess að taka till. hæstv. forsrh. til greina, svo hann álíti sjer á engan hátt misboðið með forminu. En nú vil jeg benda hæstv. forsrh. á eitt atriði í þessu máli. Það hafa gerst atvik hjá nágrannaþjóð vorri, Dönum, sem eru hliðstæð því, sem hjer hefir gerst. Stjettarbróðir hæstv. forsrh. í Danmörku komst árið 1924 í svipaða aðstöðu gagnvart undirmanni sínum þeirri sem hæstv. forsrh. hefir nú gagnvart hv. þm. Seyðf. Einn frægasti dómari Dana hafði það hlutverk á stríðsárunum að halda í hemilinn á bröskurum, sem ætluðu sjer að nota hlutleysi Danmerkur til þess að græða á því, án tillits til þess, þótt þjóðinni væri stefnt í voða með því. Þessi dómari hjelt slíkum mönnum stranglega í skefjum, hafði gamla lagið, dæmdi þá í gífurlegar sektir, og eiga Danir honum mikið að þakka og viðurkenna það. Eftir stríðið skrifaði einn af þeim mönnum, sem höfðu orðið fyrir barðinu á dómara þessum, um hann bækling, ekki ósvipaðan því, sem „Nýi sáttmáli“ segir um bæjarfógetann í Reykjavík. Dómarinn vissi, að hann var saklaus, og almenningur í Danmörku vissi það líka, og dómarinn var of stoltur til þess að fara í mál. Niðurstaðan varð sú, að dómsmálaráðherrann skipaði honum að fara í mál, ekki af því, að hann teldi dómarann sekan, heldur af því, að hann taldi rjett að láta hann hreinsa sig með dómi. En dómarinn sinti að vísu ekki þessari fyrirskipun. Af því að jeg veit, að hæstv. ráðh. er mikill aðdáandi danskrar menningar, þá bendi jeg honum á þetta, svo honum vaxi lítillæti í sambandi við þetta mál. Jeg hugsa, að þar sem dómsmálaráðherrann í Danmörku hefir gert svona kröfu til þessa ágæta dómara, undirmanns síns, þá sje það engin goðgá, þótt hæstv. forsrh. færði slíkt hið sama í tal við bæjarfógetann í Rvík.

Jeg skal ekki fara neitt út í sögu þess hvernig embættismenn hjer hafa verið leystir frá skyldunni um að hreinsa sig af áburði með dómi. Áður höfðu þeir rjett til þess að fara í mál á landsins kostnað. Breytingin bannar þeim auðvitað eigi að fara í mál á eigin kostnað. Gamla lagið var að mörgu leyti óheppilegt, ef í raun og veru sá, sem gagnrýndi, hefir haft á rjettu að standa, og lögin skapa þá herfilegu aðstöðu, að ríkið á ekki aðeins að kosta mál, sem hafið er, þegar embættismaðurinn er saklaus, heldur gæti það líka orðið að kosta mál, þar sem hann er sekur. Út af þessu dró svo hæstv. ráðh. (JM) þá algerlega skökku ályktun, að þó embættismaðurinn geti ekki heimtað gjafsókn á Sigurð Þórðarson, þá geti hann vel farið í mál, og það er hægt að benda honum á það, svo að það á engan hátt komi í bága við formið, og sýna hæstv. ráðh. (JM) það og öðrum, sem líkt stendur á fyrir, hvað þeir eiga að gera. Hæstv. ráðh. las upp skýringar, sem, að því er mjer skildist, fylgdu lögum frá 1907, þar sem sagt er, að það sje nú sem fyr áríðandi, að embættismenn landsins hafi óflekkað mannorð. Það er alls ekki gefið í skyn þar, að þeir megi ekki fara í mál, eins og aðrir menn, ef það koma fyrir þær kringumstæður, að sakleysi þeirra verður ekki sannað fyrir almenningsdómstóli, svo að þeir verða að nota til þess þá „júridisku“ dómstóla.

Jeg hefi nú gengið í gegnum ræðu hæstv. ráðh. (JM), og verð að segja það, að þótt ræða hans væri býsna löng, þá var samt ekki það mikið í henni eins og búast hefði mátt við eftir lengdinni að dæma. Jeg ætla þess vegna að minna hæstv. ráðh. á fáein atriði, sem nefnd eru í bókinni viðvíkjandi stjórn hans, sem hann sýnist ekki taka sjer nærri. Það er sagt, að menn, sem klappi steininn til óþurftar landinu, fái fálkakross og landskjör, og það er einmitt sagt um hæstv. ráðh. (JM), að afglapasmiðir komist í ráðherrastöðu, ef verslunin gangi vel. Hæstv. ráðh. (JM) hefir myndað þrjú ráðuneyti um sína daga, og þá er hjer óbeinlínis sagt, að hann hafi keypt og verslað í öll þessi skifti, og það er sagt, að það eigi að gefa hinum mentaða heimi hlífðarlausa lýsingu á ástandinu hjer á landi. Það er talað um „Ásareið illra hvata“ hjá stjórnendum landsins. Það er sagt, að af stjórnendum landsins sje kæft alt velsæmi í landinu, sagt, að hæstv. ráðh. (JM) stýri eyðileggingu landsins niður á við. Það er sagt, að hæstv. ráðh. (JM) hafi fengið smiðnum, sem gerði kvistinn á stjórnarráðsbygginguna, 30 þús. kr. svo að segja í einu lagi, til eigin ráðstöfunar, og svo þegar hæstv. ráðh. er spurður um þetta, svarar hann því einu til, að þessi maður sje trúnaðarmaður sinn. Svo kemur það ennfremur í ljós, og er ekki mótmælt af hæstv. ráðh., þegar misfellurnar eru orðnar opinberar, að þá er það ekki hæstv. ráðh., sem finnur þær, þótt hann vinni sjálfur í húsinu daglega, heldur iðnaðarmaður úti í bæ. Það er svo ekki kveðinn neinn dómur upp í málinu, heldur sest hæstv. ráðh. sjálfur í dómarasætið, sem hann þó ekki hefir rjett til, og kveður upp þann úrskurð, að smiðurinn eigi að skila aftur 4000 kr. Úrskurðurinn bendir á það, að maðurinn sje sekur um að hafa dregið sjer fje, og það einkennilega er, að hæstv. forsrh. (JM) kveinkaði sjer við að tala um málið, reyndi ekki að útskýra það, sagði ekki heldur, með hvaða rjetti hann hefði komið þarna fram sem dómari, og svo ekki heldur, í hvaða úrskurði hann talar um þessa 4000 kr. „sekt“. í þessu kvistmáli stendur stjórnin enn þá algerlega varnarlaus, og líkurnar sýnast vera þær, eftir þeirri „kritik“, sem hún hefir fengið hjá endurskoðunarmönnum landsreikninganna, að þar sje um mjög miklar misfellur að ræða, og hvaða ástæða var þá til að láta ekki ganga venjulegan dóm í þessu máli?

Þá kem jeg að ræðu hv. 1. landsk. (SE). Hann tók ákaflega ljóst og sterkt eitt atriði, sem ekki var upplýst áður og stjórnin hafði ekki svarað enn. Hvað gat komið stjórnarblöðunum til þess að segja, að þessi hættulega bók bæri fagran vott um sterka ættjarðarást og óvenjulega kröfuharða þrá um meira siðferði? Það getur maður ekki skilið öðruvísi en sem greinilegt last um stjórnina, og hitt, að bókin beri „fagran vott um sterka ættjarðarást“, eru hrein öfugmæli, því að það hefir engin bók verið skrifuð á íslensku, sem erfðara væri að mæla svo um, því að það hefir aldrei, að minni vitund, verið skrifuð nein bók, þar sem landinu er beinlínis ráðlagt að fórna frelsi sínu.

Jeg ætla að gera það til ljettis fyrir hæstv. ráðh. (JM), sem ekki var við, að geta þess, að jeg hefi tekið til meðferðar, á meðan hann var burtu, stjórnarráðskvistinn, og vænti jeg skýringar á því, hvers vegna iðnaðarmaðurinn fann misfellurnar, hvers vegna dómarinn dæmdi aldrei í því máli, hvers vegna hæstv. forsrh. (JM) sjálfur gerðist dómari í málinu, og hvers vegna hann birti aldrei þann ólöglega dóm sinn. Ennfremur tek jeg undir þá ósk hv. 1. landsk. (SE), þegar hæstv. ráðh. svarar næst, að hann skýri frá því, hvernig hann samrýmir sína skoðun á „Nýja sáttmála“ við kröfur stuðningsmanna sinna um málaferli á hendur honum út af staðlausum reiðiyrðum, sem vitaskuld eru ekki annað en vitleysa. Ennfremur hvernig það getur með vitund hæstv. ráðh. átt sjer stað, að manni, sem vill fá okkur til að afsala sjálfstæði okkar, er í stjórnarblaði hælt fyrir sterka ættjarðarást.

Hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) hefði alveg eins getað komið með einhverja ljelega blaðagrein eins og að halda þessa stuttu ræðu, lesið upp grein úr Mbl. í vetur, sem þá þótti ákaflega lítilfjörleg, og mundi eins þykja nú, þótt hún væri flutt í þinginu. Hv. þm. (JóhJóh) segir, að „kritikin“ á sjer sje í tveimur atriðum, fyrst dylgjur um það, að hann stingi undir stól málum, og í öðru lagi „kritik“ á Guðjónsmálinu, en svo gleymir hv. þm. því, að það er þar ekki svo lítið af „kritik“, sem hann hefir ekki svarað, nefnilega um það, hvernig hann rekur hjeraðsdómarastarfið í Rvík. í „Nýja sáttmála“ er sagt, að dómarinn sje fjarska mikið í burtu frá dóminum, þrjá mánuði á Alþingi og annaðhvert ár í utanlandsferð, og hvorugt sje nauðsynlegt vegna embættis hans. Ennfremur er sagt, og hv. þm. Seyðf. hefir ekki mótmælt því, að hann hafi sjer til samstarfs ýmsa unga og óreynda menn, eins og í Guðjónsmálinu. Ekkert af þessu reyndi hv. þm. að afsaka, hvernig hann getur verið svona mikið í burtu, setið þrjá mánuði á Alþingi og haft svo viðvaninga til þess að dæma í málunum, úr því að hann hefir tekið að sjer þetta umsvifamikla embætti. Hv. þm. segir svo, að dylgjurnar í „Nýja sáttmála“ um það sjeu úr blaði í Rvík, og því, að óvætturinn liggi á leið dómsmála í Reykjavík, sje vísað til föðurhúsanna og að það hafi ekki verið sannað. En jeg vil benda hv. þm. á það, að ef hann telur ekki ástæðu til að fara í mál við Sigurð Þórðarson, þá er sannarlega ekki ástæða til þess fyrir mig, sem gamalmennið hefir reiðst við út af „kritik“ á innlimunarstarfi hans.

Viðvíkjandi sjálfu Guðjónsmálinu, þá afsakar hv. þm. (JóhJóh) sig með því, að hann hafi þegar skýrt þetta með grein sinni í Mbl., og svo hafi fulltrúi sinn, sem er ritstjóri hjer í bænum, haldið fyrirlestur um það og skrifað um það í blað sitt. Jeg hefði nú búist við, að hv. þm. hefði ekki nefnt nema fyrri afsökunina. Þótt hún hafi verið hrakin aftur í sama blaði, þá var það þó viðleitni frá hans hendi, en þegar farið er að vitna í skrif í „Stormi“; til þess að sanna sakleysi hv. þm., þá þykir mjer nú skörin vera farin að færast upp í bekkinn. Mjer finst, að hv. þm. (JóhJóh) hefði átt að vera svo varkár að nefna það alls ekki, að hann hefði haft ritstjóra „Storms“ fyrir aðstoðardómara. Jeg vil benda á það, að ritstjóri „Storms“ er búinn að játa á sig svo herfileg afglöp, á meðan hann var undirmaður hv. þm. (JóhJóh), að þetta er mesta kjarkraun, sem jeg hefi heyrt um, að hv. þm. skuli telja sjer það til inntekta, að þessi maður í þessu blaði skuli hafa afsakað hann. Jeg verð að taka það upp aftur enn þá einu sinni, að Guðjónsmálið er þess eðlis, að það liggja fyrir í því miklu þyngri ásakanir, hvað sem annars má segja um „Nýja sáttmála“, heldur en varnirnar frá dómsmálastjórninni hafa getað útskýrt og afsakað, svo að hvað sem ámæli dómarans líður, þá er ekki hægt að neita því, að hjer er full ástæða til þess að láta skríða til skarar og athuga, hvað rjett er. Síðan vildi hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) halda því fram, að þetta væri svo ofboð lítið og saklaust, sem sagt væri um hann, að það gerði ekki mikið til, jafnvel þótt það væri satt. Hv. þm. virðist ekki hafa gætt að því, að þessi ásökun á hann er gerð að yfirlögðu ráði, reynt að sanna hana með málsskjölum, sem verið hafa í hans hendi. Hv. þm. hefir það á móti sjer, að hæstv. forsrh. (JM) hefir ekki tekið verk hans gilt, og eftir að málið var sent til hans, ljet hann líða 3 mánuði, og í seinni rannsókninni, sem hv. þm. framkvæmdi sjálfur, fann hann ekki, að neitt væri að, þar sem hann segir, að sinn heiður sje fullkomlega í lagi, hvað sem sagt sje um þetta, en þar er þó sá mikli efi. Segjum nú, að einhver maður kæmi til hv. þm. (JóhJóh) úti á götu og segði við hann, eða að það stæði um hann í „Stormi“, að hann væri lygari og óheflaður maður, þá gerði hann ekki neitt og afsakaði sitt aðgerðaleysi með því, að þetta væri staðlausu stafir, en þegar leidd hafa verið sterk rök að því, að hann starfi óheppilega sem embættismaður, að miklir formgallar sjeu á málinu frá hans hendi, þá er þar rökstudd ákæra á hv. þm., og það er því ekki nein afsökun fyrir hann, þó að hann haldi því fram, að hann vilji ekki fara í mál við gamlan mann, og að hann hafi engan rjett til þess gagnvart þjóðinni. En þjóðin hefir rjett til að fá að vita það, hvort dómarinn í Rvík lætur miður hæfa menn, t. d. ritstjóra „Storms“, framkvæma vandasömustu hluti, hvort dómarinn er mikið af árinu í burtu og hvort stjórnarráðið verður að senda honum dóma aftur. Þetta eru hlutir, sem alþjóð koma við og ekki er hægt fyrir hv. þm. (JóhJóh) að komast hjá að svara, nema hann geti leitt rök að því, að þegar bókin var skrifuð, hafi höfundurinn verið ómerkur orða sinna. En nú láta íhaldsblöðin eins og höf. pjesans sje sjerstakur föðurlandsvinur, og þá er honum enn þá skyldara að láta það sjást, hvernig hann stendur að vígi.

Jeg hefi þá hrundið algerlega þeim atriðum, sem hæstv. dómsmálaráðh. (JM) kom fram með, og ennfremur sýnt fram á það, hve lítilfjörleg ræða hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) er, og er þó enn þá ekki komin fram sú dirfska, sem hv. þm. eða flokksbræður hans hafa sýnt, en jeg endurtek það, að þeir hafa byrjað á þessum leik, þeir hafa talið höf. „Nýja sáttmála“ meðal mikilla föðurlandsvina, þeir hafa heimtað, að hann sje tekinn alvarlega, og nú verða þeir að ráða fram úr því, hvernig þeir vilja svara ákærum hans á starfsmenn þjóðfjelagsins, sem jeg benti á í gær. Það er ekki nema um tvo vegi að ræða: Að segja, að maðurinn sje veikur, og dæma ákærur hans eftir því, eða að viðurkenna það, að hann sje ekki veikur, og þá að taka mark á honum, og þá verða þessir tveir starfsmenn að taka afleiðingunum af kröfu blaðs flokksins og hefja mál á hann. En sje höf. pjesans aumingi og ekki mark á því tekið, sem hann hefir sagt, þá að láta öll þessi mál falla niður, og þá er fleipur stjórnarblaðanna staðlausu stafir.