05.05.1926
Efri deild: 67. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í D-deild Alþingistíðinda. (3165)

100. mál, málshöfðun gegn Sigurði Þórðarsyni

Forsætisráðherra (JM):

Mjer þykir ánægjulegt að fá loks að heyra hjá hv. flm. till. (JJ), hvað hann hefir meint með henni og öllum þessum löngu ræðum í 2 daga, öllum öðrum en honum sjálfum til leiðinda. Það er þá ekki annað en það, að hann vill fá úrskurð þingsins um, hvort það hafi ekki verið rjett af honum sjálfum að láta vera að fara í mál. Það sjest af niðurstöðu hans nú, að til þessa hefir verið stefnt. En mjer finst það til nokkuð mikils mælst af hv. flm. að taka svona langan tíma til svo einfaldrar spurningar.

Jeg hirði ekki að lengja umræðumar um þetta mál. Aðeins vil jeg geta þess, að mjer finst undarlegt að heyra hv. flm. predika það, að hann viti svo miklu meira en jeg um breytingar á hegningarlöggjöf og framkvæmd hennar. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að þessi hreyfing væri komin frá náttúruvísindunum. Sjer er nú hver fáviskan! Jeg hefi sannfærst um, að hv. flm. veit ekkert um þær hreyfingar, sem jeg var að tala um, ekki minstu vitund.

Að öðru leyti skal jeg ekki fara neitt frekar inn á málið. Jeg endurtek það, sem jeg sagði um þann kafla ritsins, sem snertir fullveldismálin, að þar er jeg að miklu leyti samdóma hv. 1. landsk. (SE). Dómurinn um bókina í blaðinu „Verði“ stendur fyrir reikning þess manns, sem undir hann hefir ritað. Jeg vona, að jeg þurfi ekki að taka aftur til máls. Jeg játa, að jeg hafði raunar enga ástæðu til að segja neitt, eftir að jeg hafði lokið minni fyrstu ræðu. Jeg færði þar góð rök gegn ræðu hv. flm. Að vísu var það sem að kasta perlum fyrir svín, en perlurnar eru jafngóðar fyrir því.