08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í D-deild Alþingistíðinda. (3270)

114. mál, aðstaða málfærslumanna við undirrétt

forseti (HSteins):

Áður en gengið verður til dagskrár fer fram atkvgr. um kröfu þá, er fram kom í fundarlok í gær, um að till. til þál. um aðstöðu málfærslumanna við undirrjett yrði tekin á dagskrá þessa fundar. Þar sem það er nú í fyrsta sinni hjer í deildinni í minni forsetatíð, að þessari óvenjulegu aðferð hefir verið beitt til að knýja mál á dagskrá, mætti ætla, að ekki sje nema um tvær ástæður að ræða. Önnur er sú, að hjer sje svo mikilsvert mál á ferðinni, að það ætti að sitja fyrir öðrum og þyldi enga bið, eða þá hitt, að jeg sem forseti hafi dregið málið óhæfilega lengi. En nú er það svo, að þessari till. var útbýtt 4. þ. m., síðastl. þriðjudag, tekin á dagskrá daginn eftir, og svo 7. þ. m. kemur þessi krafa fram. (JJ: Hve mikið er eftir af þinginu?). Það er a. m. k. svo langur tími, að engin ástæða er til að ætla, að þetta mál komist ekki að. Annars er það samkv. þingsköpum, að hv. deild sker úr, hve sanngjörn þessi krafa er, og skal jeg í þessu sambandi geta þess, að jeg hafði ætlað mjer, áður en þessi krafa kom fram, að taka málið á dagskrá á mánudaginn. (JJ: Þá get jeg fallið frá kröfunni). Já, það hafði jeg ætlað mjer, og hv. flm. (JJ) hefði auðvitað getað fengið að vita það, ef hann hefði minst á málið við mig.