29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

1. mál, fjárlög 1927

Jón Kjartansson:

Jeg á hjer eina brtt. og er hún nr. V. á þskj. 230. Fer hún fram á að hækka tillagið til sjúkraskýla og læknisbústaða úr 23 þús. upp í 30 þús. kr. Nemur þannig hækkunin 7 þús. kr. frá tillögum nefndarinnar. Ástæðurnar eru þær, að nú liggur fyrir þinginu beiðni frá tveim læknishjeruðum um viðbótarstyrk til sjúkraskýla. Þessi hjeruð eru Borgarfjörður og Mýrdalshjerað. Hafa þau bæði fengið styrk áður, Borgarfjörður á þinginu 1924, en Mýrdalshjerað á þinginu í fyrra. Lágu fyrir fjvn. þá áætlanir um byggingar þessar, og voru þær gerðar af húsameistara ríkísins. En þær stóðust ekki og fóru báðar byggingarnar fram úr áætlun, Borgarfjarðarsjúkraskýlið um 6 þús., en sjúkraskýlið í Mýrdalnum um 15 þús. kr. Hafa legið fyrir nefndinni skýrslur um ástæðurnar fyrir þessum kostnaðarauka, svo jeg hirði ekki að rekja það hjer.

Fara nú hjeruð þessi fram á viðbótarstyrk, Borgarfjörður 2 þús. kr., en Mýrdalshjerað 5–6 þús. kr. Er það 1/3 hluti af upphæð þeirri, er fram yfir er áætlun.

Háttv. frsm. fjvn. (ÞórJ) skýrði frá því, að landlæknir legði á móti að veita þessa styrki nú, þar sem byggingunum væri enn ekki lokið að fullu. Það er alveg satt, að þeim er enn ekki lokið. En jeg fer ekki fram á, að þingið taki að neinu leyti fram fyrir hendurnar á landlækni, án þess að honum sje gefinn kostur á að athuga málið og sannfærast um rjettmæti þess. Jeg fer aðeins fram á, að styrkir í þessu skyni verði teknir upp í fjárlögin 1927. Geri jeg ráð fyrir, að næsta sumar verði báðum byggingunum lokið. Einnig hefir landlæknir í hyggju að skoða sjúkraskýlið í Vík á sumri komanda, og er jeg ekki í efa um það, að hann leggi samþykki sitt á bygginguna, því til hennar er mjög vandað að öllu leyti. Enda hefir velmetinn læknir hjeðan úr höfuðstaðnum, Ólafur Jónsson, dvalið austur í Mýrdal nú um skeið og skoðað sjúkraskýlið og gefið því hin bestu meðmæli.

Að öllu þessu athuguðu, vona jeg, að háttv. fjvn. leyfi, að þessi viðbót komist í fjárlögin 1927 og ljetti þannig byrði af hjeraðinu. Að öðrum kosti mundi það frestast um eitt ár og styrkurinn ekki koma fyr en 1928, en það yrði miklu erfiðara fyrir hjeraðið. Vænti jeg svo, að hv. deild taki þessari till. vel og samþykki hana.

Jeg á ekki aðra brtt. við þennan kafla fjárlaganna. En jeg get ekki sest svo niður, að jeg ekki þakki háttv. fjvn. fyrir það, hvernig hún hefir tekið undir tillögu landssímastjóra um símalagningu um Skaftafellssýslu frá Hornafirði til Víkur. Landssímastjóri hefir lagt til, að símalína þessi verði lögð á árunum 1929–30, en fje verði til hennar veitt á árunum 1928, 1929 og 1930. Þar sem línan verður dýr, um 350 þús. kr., þótti rjett að skifta fjárframlaginu niður á þrjú ár, til þess að það skyldi ekki þurfa að draga úr framkvæmdum annarsstaðar á landinu.

Mál þetta er að vísu miklu stærra en svo, að það snerti eingöngu Skaftafellssýslur; það snertir einnig mörg önnur hjeruð. Íbúar Skaftafellssýslna munu þó sjerstaklega fagna komu þessarar nýju símalínu. Engar sýslur á landinu eru eins einangraðar eins og Skaftafellssýslur, vegna hafnleysanna og hinna mörgu og miklu torfærna, sem eru á landi. Erfiðleikarnir, sem þessi hjeruð eiga við að stríða, eru meiri en nokkursstaðar annarsstaðar hjer á landi. Felst þó ekki í þessu nein ásökun til hv. Alþingis um það, að hafa ekki skilið nauðsynjamál Skaftfellinga. Fyr og síðar hefir hv. Alþingi skilið örðugleika Skaftfellinga mjög vel og reynt að bæta úr þeim eftir mætti.

Jeg get þakkað hæstv. atvrh., hvernig hann tók í þetta mál. Þó þótti mjer miður, að hann skyldi hafa búist við, að símalína þessi mundi enn eiga að bíða nokkuð lengur, þar sem nú væri loftskeytastöð á Síðu og í ráði hefði verið, að önnur yrði reist í Öræfum í sumar. Jeg bjóst altaf við því, að loftskeytastöðvarnar yrðu þröskuldur á vegi símalínunnar milli Hornafjarðar og Víkur. En hvað lítið gagn almenningi er að loftskeytastöðvum móts við símann, geta menn best sannfært sig um með því að athuga tekjur þeirra og bera þær saman við tekjurnar af símanum. Jeg er samdóma hv. atvrh. um það, að ef engin mótmæli koma fram gegn tillögu landssímastjóra um lagning þessarar símalínu, þá beri skylda ti1 að taka fyrstu fjárveitinguna í þessu skyni í fjárlagafrv. fyrir árið 1928.

Vona jeg svo, að engin mótmæli komi fram, og skal því ekki tefja umr. meira, enda fara þær nú að styttast úr þessu.