11.03.1926
Neðri deild: 28. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

13. mál, löggiltir endurskoðendur

Jón Baldvinsson:

Það er lítið, sem jeg hefi að segja um þetta mál. Jeg hefi skrifað undir nál. allshn. með fyrirvara. En af því að það var svo lítið, sem á milli bar, þá vildi jeg ekki gefa út sjerstakt nál. Enda tók hv. nefnd eina till. mína til greina. Sje jeg ekki þörf á lagasetningu um þetta vegna dómara sjerstaklega, því að þeir eiga rjett til að kveðja dómkvadda menn til að endurskoða reikninga, þegar svo ber undir. En það getur orðið kostnaðarauki fyrir viðkomandi fjelög, ef lánsstofnanirnar gerðu að skilyrði, að löggiltir endurskoðendur endurskoðuðu alla reikninga. En þetta var annars svo smávægilegt, að mjer þótti ekki ástæða vera til þess að setja mig upp á móti frv. af þessum ástæðum, þótt jeg annars teldi ekki þörf á þessum ákvæðum.