20.04.1926
Efri deild: 55. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í D-deild Alþingistíðinda. (3382)

44. mál, útibú frá Stykkishólmi frá Landsbankanum

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg hefi ekki getað fundið, að stjórnin hafi gert annað til framkvæmda í þessu máli en það, að 2. sept. 1919 afgreiddi atvinnu- og samgöngumálaráðuneytið, sem bankamálin heyrðu þá undir, þingsályktunina frá því ári til Landsbankans. Það er ekki hægt að sjá, að svar hafi komið frá bankanum um þetta, en á þinginu 1919 hafði stjórn Landsbankans látið fjhn. Nd. í tje umsögn um málið, eins og hv. fyrirspyrjandi (HSteins) gat um, og ljet hún þar svo um mælt, að útibú mundi geta mætavel þrifist í Stykkishólmi, og lofaði jafnframt, ef till. yrði samþ., að gera sitt til að koma útibúinu á stofn, þegar ástæður leyfðu. Þegar fyrirspurnin kom fram, skrifaði jeg bankastjórninni og inti hana eftir svari við brjefi stjórnarinnar frá 2. sept. 1919. Þessu brjefi mínu hefir bankastjórnin nú svarað, og vísar hún þar aðeins til fyrra álits síns, að hún telji það ókleift að stofna útibúið, eins og sakir standa, en telur sjálfsagt að taka málið til athugunar, ef kringumstæður leyfa.

Jeg verð að játa það, að jeg hafði ekki orðið var við þessa þál. frá 1919 fyr en fyrirspurnin kom fram, og hefi þess vegna ekkert gert til framkvæmda þessu máli. Enda held jeg, að mjer sje óhætt að fullyrða, að kringumstæðurnar hafi ekki leyft það í minni stjórnartíð, að Landsbankinn setti upp ný útibú, en jeg get sagt það, að stjórnin hefir allan vilja á því að stuðla að framkvæmdum í þessu máli svo fljótt sem ástæður leyfa.