12.02.1926
Neðri deild: 5. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

14. mál, áveita á Flóann

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg skal ekki gera þetta að deiluefni nú á þessu stigi málsins. Hæstv. atvrh. segir, að hjer sje ekki um annað en áframhald að ræða. En jeg álít, að ekki hafi verið rjett farið með málið hingað til. Verkfræðilega hliðin ein hefir verið athuguð, en hin vanrækt, sem kalla mætti búfræðilegu hliðina og sem undir öllum kringumstæðum heyrir undir Búnaðarfjelag Íslands. Hæstv. atvrh. sagðist hafa skilið mig svo, að jeg áliti Skeiðaáveituna ekki heyra undir Búnaðarfjelag Íslands, en það hafði jeg ekki sagt. Jeg nefndi Skeiðaáveituna af þeirri ástæðu, að jeg vildi ekki, að í þessu máli yrði farið eins að og þar var gert. Það var fyrst snúið sjer til Búnaðarfjelags Íslands viðvíkjandi Skeiðaáveitunni, þegar búið var að vinna verkið og alt var komið í kaldakol nálega. — Það var komið alt of seint með það mál undir Búnaðarfjelad Íslands, en jeg skal ekki fara frekar út í þau atriði að sinni.

Hæstv. atvrh. drap á, að í ráði væri að fá hingað danskan mann til þess að segja fyrir um stofnun mjólkurbúa og alt fyrirkomulag þeirra, og hann var ekki í neinum efa um, að þarna þyrftu að komast upp fleiri mjólkurbú og ekki þyrfti neins annars við. En jeg efa mjög, að það sje það eina, sem gera þurfi til þess að „renta“ það fje, sem komið er í þetta fyrirtæki. Nei! Það eitt er vissulega ekki nóg; það er margt annað, sem gera þarf, ef fyrirtækið á að „bera sig“. En þetta alt mun koma skýrar í ljós, þegar búið verður að rannsaka þetta alt til hlítar, og vil jeg því ekki vekja deilur um þessi atriði nú, en jeg vona, að háttv. þingnefnd, sem um þetta frv. fær að fjalla, skilji, hvað fyrir mjer vakir. — Jeg vil láta búa sem best í hendurnar á íbúum þessara áveitusvæða, til þess að þeir fái sem besta aðstöðu til þess að geta búið að þessum framkvæmdum og gert þær arðberandi.