12.03.1926
Efri deild: 26. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

12. mál, kynbætur hesta

Eggert Pálsson:

Hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) hefir mælt vel og skörulega fyrir brtt. sinni á þskj. 130, en hinsvegar hefir hann ekki sannfært mig um rjettmæti hennar. Í tilefni af því, sem hann sagði um, að hann hefði borið tillöguna undir landbn. Nd., þá vil jeg geta þess, að við bárum okkar brtt. undir þann mann, sem kom með frv., sem sje hv. 2. þm. Skagf. (JS), og hæstv. atvrh. (MG), og þeir álitu hana góða, en jeg skal játa, að hin var þá ekki fram komin, og kann jeg ekki um að segja, hvora þeir kysu heldur. Jeg held, að brtt. hv. 1. þm. Eyf. sje ekki nauðsynleg, af því að þegar svo er ástatt, að hreppsnefndin sjálf á kynbótahest, skilst mjer, að það tilfelli falli undir lögin frá 1891, og þá stendur þar skýrum stöfum, að í samþyktum sjeu ákvæði um, hvernig kostnaðinn skuli greiða. En þessi lög eru ekki gerð til að afnema lögin frá 1891, heldur þvert á móti þeim til uppfyllingar, og þess vegna má ekki blanda þeim málum saman. Jeg býst við, að einmitt þetta, að öllum kostnaðinum sje jafnað niður á folöld þau, sem fæðast í hreppnum á því ári, yrði hvöt til þess, að menn færu að koma sjer saman um samþyktir. En verði brtt. hv. 1. þm. Eyf. samþykt. virðist mjer alveg girt fyrir það, að menn komi sjer saman um nokkrar samþyktir. Jeg held því, að hún mundi gera ilt eitt.

Jeg skal ekki um segja, hvort hv. 1. þm. Eyf. hefir veitt því athygli, að lögin frá 1891 eru og verða í gildi fyrir þessu. Ef þau væru feld úr gildi með þessu, væru þessi lög helst til ófullkomin. Að minsta kosti þyrfti þá að gera í þeim ráð fyrir samþyktum og reglugerðum. (EÁ: Veit ekki nefndin það?). Jú, en jeg veit ekki, hvort hv. þm. (EÁ) hefir vitað það, þegar hann bjó til sína brtt. Ef menn hafa ekki komið sjer saman um neinar samþyktir, eiga þessi lög að koma fyrir viðaukalögin frá 1917, og útkoman verður þannig, að með því að leggja kostnaðinn á folöldin, verður það hvöt fyrir menn til þess að gera samþyktir. Hinsvegar er hægt að komast hjá því, að gjaldið verði hátt, með því að menn slái sjer saman, þar sem fátt er um hross, jafnvel fleiri hreppar en einn. En þegar búið er að skella kostnaðinum á sveitarsjóðinn, girðir það, að minni hyggju, fyrir slík samtök.