15.03.1926
Efri deild: 28. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 928 í B-deild Alþingistíðinda. (428)

12. mál, kynbætur hesta

Ingibjörg H. Bjarnason:

Út af orðum hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) vil jeg gera þá aths., viðvíkjandi því, sem hann kallaði skemd á frv. um kosningar í málefnum sveita og bæja, að þegar verið er að tala um skyldur og rjettindi, þá vil jeg taka það fram enn, eins og jeg gerði þegar það frv. var til umræðu hjer í hv. deild, að jeg álít, að það eigi alls ekki að undanskilja konur frá því að taka þátt í opinberum störfum yfirleitt fremur en karlmenn. Hjer er um svo stórvægileg persónurjettindi að ræða, að þau má í engu skerða. En það er sannfæring mín, að sömu rjettindum eigi að fylgja sömu skyldur. Og mjer virðist það æðimiðaldalegur skilningur á þessu máli, að vilja takmarka þennan rjett. En þótt svo kunni einhverjum að sýnast, að ekki gæti fulls samræmis í viðhorfi mínu í þessu máli og hinu málinu, sem jeg mintist á, — kosningar í málefnum sveita og kaupstaða, — þá er þess að gæta, að hjer stendur alt öðruvísi á, þar sem ekki er um að ræða nema kosningu í eina sjerstaka nefnd, og því alveg ósambærilegt. Jeg sje ekkert á móti því að samþykkja brtt. vegna þess að það er sennilegt, að enginn hörgull verði á hæfum mönnum í slíkar nefndir, sem hafi meiri þekking í þessum málum en konur yfirleitt hafa. En hinsvegar sje jeg ekkert á móti því, ef konur telja sig hafa vit á þessu máli, að þær skipi þá einnig kynbótanefnd. Jeg er viss um það, að þær mundu ekki á nokkurn hátt telja sjer misboðið með því nje skorast undan því af tepruskap, eins og hv. 1. landsk. komst að orði. Jeg segi fyrir mig, að jeg blygðast mín ekkert fyrir að tala um þetta mál. — En að lokum vil jeg enn skírskota til orða hæstv. atvrh.. að þetta mál er alveg óskylt því máli, sem ýmsir hv. þdm. hafa verið að draga hjer inn í umræðurnar.