10.04.1926
Efri deild: 47. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

12. mál, kynbætur hesta

Eggert Pálsson:

Sem formaður landbn. lýsi jeg því yfir, að hún hefir athugað þetta frv. eftir að því var breytt í Nd. og orðið sammála um að ráða deildinni til að samþykkja frv. með þessum breytingum. Jeg kannast við, að nefndin hefir ekki látið prenta framhaldsnál., enda held jeg, að deildin hefði lítið grætt á því að fá þessa yfirlýsingu á prenti. Annað mál er það, ef nefndin hefði viljað koma fram með brtt. við frv., þá gat verið ástæða til fyrir hana að leggja fram framhaldsnál. samhliða þeim brtt. Annars get jeg tekið í sama streng og hæstv. atvrh. (MG), ef meiningin er að koma með brtt. þess efnis að nema burtu athugasemdina við 2. gr., að konum sje rjett að skorast undan kosningu, þá hafi sú brtt. naumast rjett á sjer. Jeg lít svo á, að slík brtt. stríði á móti þingsköpunum. Eins og málið horfir við nú, sje jeg enga ástæðu til að vísa því til landbn. Við höfum þegar lýst því yfir tveir úr nefndinni, að við værum samþykkir breytingunum, sem hv. Nd. hefir gert á frv. Hvað vinst þá við að vísa því til nefndarinnar að nýju?