13.04.1926
Efri deild: 49. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

12. mál, kynbætur hesta

Sigurður Eggerz:

Háttv. landbn. virtist óánægð yfir aðfinslum mínum við nál. En sannleikurinn var sá, að aðfinslur mínar voru almenns eðlis og vöktu eftirtekt á því, að hinn vandaði undirbúningur málanna, sem stundum sýndi sig í ítarlegum nál., er nú meira og meira að hverfa úr sögunni.

Það var ekki um að ræða neitt samkomulag milli mín og hv. þm. A.-Húnv. í þessu máli. Við gátum báðir beðið um, að málið yrði tekið af dagskrá, hvor frá sinni afstöðu. Sá einasti, sem jeg hefði getað búist við, að væri með mjer, er hv. 5. landsk. þm. (GunnÓ), því að hann er kosinn á sama lista og jeg. En svo er nú ekki, og stend jeg því einn uppi í flokki hjer í þessari háttv. deild.

Út af því, sem hæstv. atvrh. (MG) sagði í gær um kvennaskólann, vil jeg spyrja hann. hvort það sje víst, að kvenfólkið vilji heldur ríkisskóla en einkaskóla. Þarna er hæstv. atvrh. að villa mönnum sýn. Það getur að vísu verið, að hæstv. atvrh. trúi svo mjög á ríkisrekstur, að hann geti ekki hugsað sjer einkarekstur, en þá erum við ekki sammála. En jeg vil benda á, að þetta er ekkert smámál, sem hjer er um að ræða. Það er stórt „princip“-mál. Það er gamla erfðakenningin, sem er að stinga upp höfðinu og reyna að draga kvenkjósendur til þess að brúka ekki sinn pólitíska rjett og halda þeim frá stjórnmálum.

Sumir hv. þm. þykjast óttast það mjög, að ef mál þetta kæmi fyrir sameinað þing, yrðu of langar umræður um það. Það er engin hætta á því; jeg býst við, að till. yrði samþykt og lítill ágreiningur um það. En hitt, að einhver greiði öðruvísi atkv. við 3. umr. en 2., hefir komið svo oft fyrir á þingi. Hver þm. á að greiða atkvæði eftir sannfæringu sinni.

Nú eru 5 mínútur liðnar, og vil jeg þakka hæstv. forseta fyrir að hafa gefið mjer tækifæri til að sýna fram á, að hjer er um stórt „princip“-mál að ræða. Jeg veit, að flestir kvenkjósendur munu óska að hafa hvorttveggja óskift: rjettindin og skyldurnar.