31.03.1926
Neðri deild: 45. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

10. mál, bryggjugerð í Borgarnesi o. fl.

Frsm. (Klemens Jónsson):

Hæstv. stjórn hefir borið fram frumvarp þetta um bryggjugerð í Borgarnesi. Var því vísað til samgmn., og hefir hún athugað það á nokkrum fundum, lagt fram nál. á þskj. 161 og leggur til, að það verði samþykt með þeirri breytingu, að nefndin leggur til að takmarka upphæð þá, sem lögð yrði fram til þessa fyrirtækis. Þetta mál var rannsakað af verkfræðingnum N. P. Kirk árið 1917. Gerði hann það að tilhlutun sýslumannsins í Borgarnesi og hefir gefið honum skýrslu um kostnaðinn. Jeg hefi nú þessa skýrslu í höndunum, dags. 11. apríl 1917. Er kostnaðurinn samkvæmt henni áætlaður á þennan hátt:

4 metra breiður vegur frá sláturhúsinu að

Brákarsundi.... kr. 6988

Garður yfir Brákarsund ..... — 22875

Vegur á Stóru-Brákarey til

bryggjunnar .............. — 6500

Trjebryggja, 40 metra löng, 4. m.

breið, með tjóðurhælum .... — 15500 Uppfylling bak við bryggjuna — 3000 Dýpkun á stokk, 350 m. löngum.

3 m. djúpum og 20 m. breiðum, ásamt „Svajebassin“ við bryggjuna 50 m. .......... — 60000

Eftirlit með verkinu ......... — 5137

Samtals kr. 120000

Þess er getið í brjefi þessu, að þetta sje „kalkulatoriskt Overslag“, eða bráðabirgðahandahófsáætlun, og þar sem hún er gerð 1917, miðar hún við þáverandi prísa, svo að ætla má, að nú yrði verkið eitthvað ódýrara, enda er þess getið í athugasemdum stjórnarinnar við frv., að það yrði eitthvað yfir 100 þús. kr. Verkfræðingurinn segir, að þetta sje bráðabirgðaáætlun hjá sjer, og fleira bendir á, að hjer hafi verið lauslega að farið. T. d. er gert ráð fyrir að byggja garð milli meginlandsins og Stóru-Brákareyjar, en það kemur varla til mála, því að mikill straumur er í firðinum, og liggur hann gegnum þetta sund, og er straumfallið svo mikið í sundinu milli eyjar og lands, að þegar „spekulants“-skip fóru hjer á árunum upp á Brákarpoll og lágu í sundinu, þá varð að símbinda þau þar í sundinu að framan og aftan. En það er hægt að búa þarna til steinboga. Þetta hefi jeg tekið fram til að sýna, að undirbúningur málsins er ekki mikill, en það er líka tekið skýrt fram í frv. og aths. við það, að ekki verði ráðist í framkvæmd verksins nema nákvæm rannsókn fari fram áður. Í 1. gr. frv. stendur, að það skuli gert að undangenginni rannsókn. Og í aths. við frv. er sagt, að enn sje órannsakað, hvort byrgja megi Brákarsund með garði, og eins hvort dýpkunin sje miklum erfiðleikum bundin, og að það verði vandlega rannsakað, áður en í verkið verður ráðist.

Eins og öll þau gögn, er að máli þessu lúta, bera með sjer, er málið nálega alveg óundirbúið, og hefði því legið beinast við að vísa því frá, en nefndin sá samt ekki ástæðu til að mæla á móti því, að það nái fram að ganga, því að hún viðurkennir það, sem stendur í aths. stjórnarinnar við frv., að nauðsynlegt sje að flýta sem mest akvegi milli Norður- og Suðurlands, og þar eð Borgarnes er miðstöð fyrir alla, sem fara milli þessara landshluta, þá vill nefndin veita stjórninni þessa heimild, með því skilyrði, að málið verði rannsakað nánar. Nefndinni þótti ennfremur ástæða til að binda þessa heimild því skilyrði, að ekki yrði farið fram úr 150 þús. kr. Geri jeg þó ráð fyrir, að ekki verði komist af með þessa upphæð, en þar sem verkið verður ekki unnið á stuttum tíma og stjórnin getur altaf fylgst með því, sem með þarf, geri jeg ráð fyrir því, að hún geti altaf farið til þingsins til að fá fje til að fullgera verkið.

Jeg fer svo ekki frekar inn á þetta, en legg til, fyrir hönd nefndarinnar, að frv. verði samþykt með þeirri brtt., að framlagið fari ekki fram úr 150 þús. kr.