29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

1. mál, fjárlög 1927

Magnús Jónsson:

Þegar fjárlagafrv. var til umr. í fyrra, var jeg hjer um bil eða alveg eini þm., sem átti enga brtt. til hækkunar. Jeg segi þetta til þess, að hv. fjvn. og hv. þm. geti af því markað það, að jeg hefi enga löngun til þess að fara í leit eftir brtt. við fjárlagafrv. Og nú þegar jeg á 3 brtt. á þskj. 248, þá hefi jeg komið fram með þær af því að jeg tel brýna þörf á þeim og legg mikla áherslu á, að þeim verði vel tekið. Mjer finst ekki vera laust við það, að mentaskólinn sje að verða hálfgert olnbogabarn fjárveitingarvaldsins. Skólinn er haldinn í stóru húsi, sem er gamalt en traust, og hefir lítið verið gert við það annað en það, að það var málað vorið 1921, þegar konungurinn heimsótti okkur. En svo skamt er komið í því að hlynna að húsinu, að ennþá vantar miðstöð í það. Nú er ekkert það hús bygt, sem á að vera fullkomið, að jeg ekki tali um opinberar byggingar, að ekki sje talið sjálfsagt að hafa miðstöð í þeim. Þess vegna má það merkilegt heita, að skóli, sem hefir 12 kenslustofur, noti ofna, sem mikið verk er að leggja í og viðhalda eldi í og eru auk þess afarófullkomin hitunartæki og fylgir þeim eldhætta. Jeg man það, þegar jeg var í skóla, að þeir, sem næstir voru ofninum, ætluðu alveg að stikna, en hinir, sem næstir voru gluggunum, skulfu af kulda, enda eru þeir óþjettir og illa frá þeim gengið. Nú er farið fram á af lækni skólans, hr. Guðm. Björnssyni landlækni, og rektor skólans að fá fje til umbóta á skólanum. Jeg get látið í ljós undrun mína yfir því, að hæstv. landsstjórn skyldi ekki sjá sjer fært að koma miðstöðinni inn í fjárlagafrv. Svo mátti vonast eftir því af fjvn., að hún tæki þetta upp í brtt. sínar, því að hún kannast vel við þessi tæki, þar sem hún leggur til, að skólar eins og Blönduósskóli fái nú miðstöð. Hefði því mátt vænta þess, að hún mundi einnig hugsa mentaskólannm fyrir miðstöð. Að vísu hefir nefndin afsökun vegna þess, að af vanrækslu lá ekki fyrir henni nein áætlun um, hvað þetta kostaði. Get jeg því upplýst það, að kostnaðurinn er áætlaður 13 þús. kr. (TrÞ: Það lá ekkert fyrir okkur um þetta). Fyrst nefndin hafði ekki þessi gögn í höndum, þá vonast jeg eftir því, að hún taki þetta aftur til athugunar og leggi því liðsyrði, þegar hún hefir rannsakað þörfina, sem hjer er svo mikil, og vilji veita þessar umbeðnu 13 þús. kr.

Það liggur fyrir skýrsla, dagsett 13. mars, samin af Benedikt Þ. Gröndal verkfræðingi, sem er fagmaður í þessu og hefir rannsakað málið nákvæmlega. Hann getur þess, að leysa megi þessa spurningu með tvennum hætti. Í fyrsta lagi með því að setja vatnshitunartæki, sem kosta myndu 15600 kr. Er ætlast til þess, að hafðir sjeu 2 katlar, annar fyrir íbúðarherbergin, sem þarf að hita upp allan daginn, en hinn fyrir kenslustofurnar, sem upphitaðar eru aðeins takmarkaðan tíma. Ennfremur hefir hann gert aðra áætlun, að hafa gufuhitun fyrir stofurnar, en vatnshitun fyrir íbúðirnar. Það borgar sig betur að nota gufuhitun þar, sem aðeins er hitað upp stuttan tíma dagsins. Samkvæmt þessari áætlun kostar miðstöðin 13 þús. kr. Og með því að setja hana sparast 12 tonn af kolum yfir árið. Sje tonnið reiknað á 50 kr., sparast þannig 600 kr. Auk þess verður 300 kr. sparnaður á uppkveikju, svo að allur sparnaðurinn, sem af þessu leiðir, verður minst 900 kr. Svo hefir rektor getið þess, að ekki verði lengur hægt að standa á móti kröfum dyravarðar um aukaþóknun fyrir þá fyrirhöfn að leggja í alla þessa ofna, sem er mikið verk, þegar þarf að rogast með kol upp á háaloft skólans. Þess vegna hygg jeg, að þótt ekki sje talað um nema 900 kr. sparnað vegna miðstöðvarinnar, þá komi hún til með beinlínis að borga sig, þegar litið er á það, að borga verður dyraverði meira eins og nú standa sakir, sem þyrfti minst 500 kr. Þess vegna er hjer augljós sparnaður að því að setja miðstöðina.

Það er alveg óhætt að reiða sig á þessa skýrslu. Maðurinn, sem hana hefir gefið, er lærður mjög í sinni grein. Hún er ekkert fálm út í loftið, heldur bygð á miklum útreikningum, svo að hverjum meðalmanni sortnar fyrir augum við lesturinn við að heyra um allar þær kalóríur og allan lærdóm, sem í því skjali er. (TrÞ: Það er banatilræði við nefndina). Jeg hefi þá mjer til afsökunar, að jeg hefi prófað það á sjálfum mjer fyrst. Jeg vona nú, að nefndin taki þetta til athugunar eftir að þessi gögn eru komin til hennar. Hjer er aðeins um að ræða, hvort þetta skuli gert ári fyr eða seinna, því að miðstöðin hlýtur að koma fyr eða síðar.

Eftir tillögu rektors hefi jeg einnig farið fram á aðra fjárveitingu til mentaskólans, sem er 900 kr. til að kaupa skuggamyndavjel. Fjvn. hefir gert það að tillögu sinni, að kaupa slíka vjel handa Akureyrarskóla. En nú stendur svo á, að barnaskólinn á vjel og hefir verið hægt að fá hana að láni einstöku sinnum. En því verður framvegis ekki til að dreifa, því að barnaskólinn stendur allan daginn, en við það að fá vjelina að láni í mentaskólann hafa nemendur hans fengið nýtt blóð á tunguna. Fer jeg því fram á, að liðurinn til kensluáhalda hækki um 900 kr., sem ætlað er, að vjelin muni kosta, sem þó er slumpreikningur, því að jeg hygg, að hún muni kosta minst 1000 kr. (TrÞ : Vjelin á Akureyri á ekki að kosta nema 500 kr.). Þá sparast á liðnum, og getur það ekki skaðað.

Þá á jeg enn eina tillögu, og hún er um það að veita dr. Guðm. Finnhogasyni 2000 kr. styrk til að rita bók um eðliseinkenni Íslendinga. Þessi maður er nú ekki ókunnur hjer á Alþingi. Jeg held að ekki hafi verið um annan mann meira talað hjer en um dr. Guðm. Finnbogason. Hann er ekki aðeins þektur á Alþingi, hann er þektur um alt land; það má telja hann með okkar mestu menningarfrömuðum. Hann hefir skrifað mikið í blöð og tímarit og verið ritstjóri stærsta bókmentatímaritsins, sem kemur út hjer á landi. Hann hefir einnig skrifað margar bækur, og hafa þær verið mjög víðlesnar, eins og alt, sem hann hefir skrifað. Hann er því mjög vinsæll rithöfundur, og þekki jeg það sem ritstjóri tímarits, þar eð jeg hefi grenslast eftir því, að hvaða rithöfundum fólki geðjast best, og þá hefir dr. Guðmundur altaf verið með þeim efstu á hlaði. En það er eins og dr. Sig. Nordal sagði nýlega í „Vísi“, að dr. Guðmundur Finnbogason hefði ennþá ekki skapað það verk, sem væri samboðið gáfum hans og lærdómi. Í umsókn sinni til Alþingis segir hann, að laun sín síðustu árin hafi ekki hrokkið til framfæris sjer og sínum, og hafi hann þá leitað sjer ýmiskonar aukagetu, sem hann hafi getað fengið borgun fyrir. En rit það, sem hann hafi nú í hyggju að semja, geti ekki gefið neitt í aðra hönd, en þó vilji hann heldur helga því krafta sína en fást við önnur sundurleit efni, sem hann gæti fengið jafnóðum eitthvað fyrir. En þessari grein, sem hann langar til að skrifa um, hefir hann lengi haft áhuga fyrir og er byrjaður á að gera drög til þessa rits. Fyrir nokkrum árum, jeg man ekki hvaða ár það var, skrifaði hann fylgirit með Árbók háskólans, þar sem hann grípur niður á þessu efni. Jeg man, er jeg las þessa ritgerð þá, að jeg dáðist mest að því, hve hann hefði fundið hjer efni, sem átti afbragðsvel við gáfur hans og rannsóknaranda, þekkingu hans á bókmentum og áhuga hans á öllum hlutum milli himins og jarðar, ásamt því að vera sálarfræðingur.

Það, sem hjer er farið fram á, er ekki annað en það, að Alþingi vilji stuðla að því, að hann þurfi ekki að eltast við snapir, að hann geti safnað til þessa verks án tillits til þess, hvort hann fær eitthvað í pyngjuna fyrir jafnóðum. Hann gerði það fyrir tilmæli hæstv. stjórnar að afsala sjer embætti sínu við háskólann og taka annað miklu tímafrekara embætti, sem gerir honum erfiðara fyrir með öll aukastörf. Með þessu sýndi hann mikla lipurð, og ætti það ekki að draga úr vilja háttv. þingmanna að veita honum þetta.

Jeg ætla svo ekki að eyða hinum dýrmæta tíma þingsins meira, en fel þetta velvild háttv. þingmanna og nefndar.