29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (575)

70. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Það er ekki nákvæmlega rjett hjá háttv. 2. þm. Eyf. (BSt), er hann segir, að þessi maður hafi ekki fengið svar frá allshn. í fyrra. Hann fjekk það svar, sem venja er að gefa, þegar ekki er fallist á málaumleitanir; það var lagt til, að þetta yrði ekki samþykt. Þessi maður hefir nú ekki farið sömu leið og sumir þeir, sem synjað var í fyrra, að leita til stjórnarinnar, en það er rjettasta leiðin í málum sem þessum. Jeg vil nú segja hv. 2. þm. Eyf. það, að ástæður, sem kunna að vera með því eða móti að veita ríkisborgararjett, eru þess eðlis, að það er viðkunnanlegra, að þær sjeu ræddar í nefndum. Það getur verið óviðkunnanlegt fyrir hlutaðeigandi menn, að þær sjeu dregnar inn í umræður í þinginu. Jeg skal taka það fram fyrir hönd nefndarinnar, að hún hefir óbundnar hendur með það, hvað gera skuli viðvíkjandi þessum manni. Hinsvegar var hv. 2. þm. Eyf. í allshn. í fyrra og vissi þá um afstöðu nefndarinnar, og meiri hlutinn er hinn sami og var í fyrra, og jeg býst við því, að afstaða nefndarinnar sje lík og hún var þá.