15.04.1926
Efri deild: 51. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

85. mál, ríkisborgararéttur

Forsætisráðherra (JM):

Jeg hefi ekki annað að segja en að þakka háttv. nefnd fyrir afgreiðslu þessa máls.

Brtt. á þskj. 326 eru allar orðabreytingar, og er ekkert sjerlegt við þær að athuga. Verð jeg að játa, að líklega þykir alment málið liðlegra með því orðalagi, sem nefndin vill hafa. Aðeins skal jeg taka það fram, að jeg er ekki viss um, að 2. brtt. sje til bóta, að í stað orðanna: „1. málsgr.“ komi: undanfarandi málsgr. Ekki skal jeg þó hafa á móti því. Heldur hefði þar samt átt að standa „fyrri málsgr.“, þar sem þær eru ekki nema tvær. Annars er þetta orð „undanfarandi“ óíslenskulegt orð. Og ef farið er út í klassiskt mál, hefði átt að standa þar „undanfarinni“ .

Jeg finn að öðru leyti enga ástæðu til þess að ræða frekar hjer um.