29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

1. mál, fjárlög 1927

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg á hjer eina brtt. á þskj. 230, ásamt þeim hæstv. atvrh. (MG) og háttv. þm. Borgf. (PO), um að styrkur sá, sem Þórður Flóventsson fær, verði hækkaður úr 1500 kr. upp í 2000 kr. Háttv. deildarmönnum mun kunnugt um starf og áhuga þessa manns. Hann hefir ferðast um flestar sýslur þessa lands og leiðbeint mönnum með laxa- og silungaklak. Áhugi hans fyrir starfinu er og hefir verið mikill, enda blandast engum hugur um, sem til þekkja, að mikill árangur hefir orðið af starfsemi hans, og hann getur orðið ennþá meiri, ef menn almennt fá þekkingu og skilning á þessu mikilvæga máli. En honum er ekki unt að halda áfram þessari starfsemi, ef hann fær ekki aukinn styrk. Jeg fyrir mitt leyti er viss um, að því fje væri vel varið og það myndi gefa margfalda vexti.

Annars þurfa hv. deildarmenn ekki að óttast, að styrkur þessi standi mjög lengi því að maður þessi er þegar orðinn töluvert við aldur, og vænti jeg því, að þeir taki þessari tillögu vel.