29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

1. mál, fjárlög 1927

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Við 2. umr. hækkuðu gjöldin um ca. 375 þús. kr., en hækkun teknanna leiddi af sjer, að tekjuhallinn varð ekki nema 21303 kr. Ef allar þær brtt., sem nú liggja fyrir, yrðu samþyktar, mundi öll hækkunin verða ca. 660 þús. kr., og er ekki hægt að segja, að það beri vott um varfærni háttv. þm. En nú reynir á varfærni hv. deildar, þegar til atkv. kemur. Við þennan kafla eru fáar brtt frá fjvn., og eru þær alls til hækkunar ca 22200 kr. Við 11. og 12. gr. 16 þús. og við 13. gr. 6200 kr. Frá einstökum þm. nema hækkunartill. 163200 kr.

Jeg skal þá víkja stuttlega að brtt. fjvn., en ætla að leiða hjá mjer till. einstakra hv. þm. þangað til þeir hafa talað fyrir þeim.

Fyrsta brtt. nefndarinnar er undir II. lið á þskj. 297, við 5. gr., og þarf jeg ekkert um hana að segja. Þó að ein till. fjvn. komi mjer nokkuð við, treysti jeg háttv. frsm. síðari kaflans, háttv. þm. Str. (TrÞ), til að tala fyrir henni.

Næsta brtt. nefndarinnar er á sama þskj., V. við 11. gr. A. 6, um skrifstofukostnað bæjarfógeta og sýslumanna, og leggur nefndin til, að liðurinn hækki úr 84 þús. upp í 92 þús. kr. Nefndin hefir kynt sjer þetta mál, og komu nokkrir sýslumenn og bæjarfógetar á fund hennar og tjáðu henni, að óhjákvæmilegt væri að fá nokkra hækkun í þessu skyni. Þeir fóru fram á, að liðurinn yrði hækkaður upp í 100 þús., en aðalkrafa þeirra var sú, að framvegis yrðu reikningar þeirra um skrifstofukostnað teknir til greina og samþyktir af stórnarráðinu. Nefndin bar sig saman við hæstv. dómsmálaráðherra um þetta og komst að þeirri niðurstöðu að leggja til, að liðurinn yrði hækkaður um 8 þús. kr. Nefndin gat ekki fallist á meiri lækkun; hún viðurkennir þó, að vitanlega vaxa störf þessara manna vegna ýmsra laga, sem þingið samþykkir, en hún áleit þó, að þessi hækkun væri sæmileg. Nefndin áleit, að ef horfið væri að því ráði að samþykkja, að allir slíkir reikningar skyldu viðurkendir, gæti það orðið til þess, að meiri vinna væri keypt út en þörf væri á og hlutaðeigandi embættismaður gæti á þann hátt látið ríkissjóð borga þau störf, sem hann sjálfur gat unnið. Það er því undirstaðan undir mati á skrifstofukostnaði að ganga út frá embættismanninum sem fullkomnum starfsmanni. Telur nefndin því mjög varhugavert að fara þessa leið. Þeir, sem gengist hafa fyrir þessu, hafa leitað álits sýslumanna og bæjarfógeta úti um land, og hafa þeir flestir tekið í sama strenginn, en þó skal jeg geta þess tveimur sýslumönnum til lofs, að þeir telja enga þörf á að auka skrifstofufje sitt frá því, sem nú er. Þessir 2 sýslumenn eru þeir sýslumaður Skaftfellinga og sýslumaður Árnessýslu, háttv. 1. þm. Árn., og skal jeg ennfremur geta þess, að skrifstofukostnaður í Árnessýslu hefir lækkað síðan hann tók við embætti og hann telur hann nú sæmilegan.

Næsta brtt. nefndarinnar er við 12. gr. 11 (utanferðir hjeraðslækna), um að fyrir 2000 komi 3000 kr. Við 2. umr. var samþyktur styrkur til eins læknis í þessu skyni, og gat jeg þess þá, að með því fje, sem nú er veitt í fjárlögum til þessa., væri ekki hægt að styrkja þá lækna, sem nú eru ytra. Eftir upplýsingum frá landlækni er sá styrkur nú upplofaður, en landlæknir telur nauðsynlegt að gera þeim læknum, sem nú eru ytra, einhverja úrlausn.

Næsta brtt. nefndarinnar er við 12. gr. 17.c, um að hækka styrkinn til sjúkrahúsa úr 15 þús. upp í 20 þús. kr. Landlæknir hafði lagt til, að þessi styrkur yrði hækkaður mikið meira, eða helst upp í 30 þús., og telur hann, að með úthlutun þess styrks, sem nú er lögákveðinn eftir fjölda legudaga, þá nemi hann ekki meiru en 1/3–½ af því, sem heimilt er eftir athugasemdinni, og er það alt of lítið á móti því, sem hjeruðin leggja fram.

Í samræmi við þetta er svo önnur brtt. nefndarinnar, um að fella niður aths. við þennan lið. Landlæknir tjáði nefndinni, að það væri almenn óánægja yfir þessari aths., sem leiddi af því, að hjeruðin þurfa að leggja sjálf svo mikið fje fram til sjúkraskýlanna, að þau vilja láta innanhjeraðssjúklinga fremur njóta þess fjár heldur en aðra. Jeg hygg, að tilgangur aths. um að láta sjúklinga, sem ríkið kostar, njóta sömu kjara og innanhjeraðsmenn, hafi átt að spara ríkissjóði fje. En þegar að er gáð, þá verður þetta öfugt, því eigi utanhjeraðsmenn að njóta sömu kjara og innanhjeraðsmenn, þá verður að hækka legukostnað þeirra alment, og um leið hækkar kostnaður ríkissjóðs. Því ætla má, að á hans vegum verði ætíð fleiri innanhjeraðsmenn en utanhjeraðs í hverju sjúkrahúsi: Nefndin vill því fella aths. þessa, svo sjúkrahúsin hafi um þetta óbundnar hendur eins og áður.

Jeg skal geta þess í sambandi við næsta lið, um styrk til sjúkraskýla, að eins og hv. þdm. muna, þá kom við 2. umr. till. um að hækka þann styrk í tilefni af því, að enn eru óuppgerðar sakir milli ríkisins og þeirra læknabústaða og sjúkraskýla, sem nú hafa verið í byggingu. Þá hefir landlæknir tjáð nefndinni, að af því fje, sem ætlast var til að yrði notað á árinu 1926 í þessu augnamiði, mundu um 14 þús. kr., sem ætlaðar voru til sjúkraskýla í Reykhólahjeraði og á Hofsósi, ekki verða notaðar, og mætti þá verja því fje á öðrum stöðum í sama augnamiði. Nefndin hafði ekkert á móti þessu, þótt ekki þætti henni sjálfsagt að fara þannig að. En verði það gert, þá leggur nefndin ákveðið með því, að ekki verði fremur en að undanförnu veitt nema sem svarar 1/3 af byggingarkostnaðinum, og ekki verði blandað þar fleiru inn í en venja hefir verið til og viðurkent, að telja beri með byggingarkostnaði.

12. brtt. nefndarinnar, við 17. gr., er viðvíkjandi sjúkrahúsinu á Ísafirði og miðar eingöngu til þess að færa til leiðrjettingar það, sem samþykt var við 2. umr., sem sje, að í stað 10 þús. kr. komi: 7724 kr. Það er nákvæmlega rjett útreiknuð sú upphæð, sem ríkinu ber að borga samkvæmt venju í slíkum tilfellum.

Viðvíkjandi 12. gr. 17.n skal jeg geta þess, að landlæknir tjáði nefndinni, að svo hefði reynst, að miklu meira væri af geitnasjúkl. heldur en skýrslur læknanna báru með sjer, er þeim var í fyrstu safnað. Taldi hann óheppilegt að binda fjárveitingu til lækningar þessum sjúklingum við ákveðna upphæð, þar sem oft gæti staðið svo á, að heppilegra væri að taka fleiri í einu, og óskaði, að þær 2500 kr., sem til þess eru veittar að lækna þessa veiki, yrðu skoðaðar sem áætlunarupphæð, svo hægt yrði að fara fram úr henni, ef það álitist heppilegt. Nefndin fjellst á þetta, og því tala jeg um það hjer.

Þá er brtt. við 13. gr. B. VI, til fjallvega. Þessi liður var hækkaður við 2. umr. samkvæmt till. nefndarinnar með tilliti til vegagerðar milli Reykjadals og Mývatnssveitar og yfir Kolugafjall. Nú hefir það komið í ljós síðan, að sú upphæð, 4 þús. kr., var ónóg, ef gera ætti þarna nokkuð til hlítar. Hefir nefndin leitað álits vegamálastjóra um þetta, og telur hann, að minna fje en 8 þús. kr. komi ekki að gagni. Nefndin hefir fallist á þetta og lagt til, að upphæðin verði hækkuð samkvæmt þessu. En eins og tekið hefir verið fram, þá hefir vegamálastjóri óbundnar hendur um það, hvernig þessu fje verður skift.

Þá er loks till. um nýja símalínu frá Svignaskarði að Hvítárbakka, vegna skólans þar. Við 2. umr. var samþykt samskonar fjárveiting, og ein hefir verið samþykt áður, og sá nefndin sjer því ekki fært að neita um þetta, enda þótt þessi upphæð sje hærri en hinar, vegna örðugra staðhátta.

Hvað snertir till. samgmn., þá mun jeg leiða hjá mjer að tala um þær, líkt og till. einstakra þm., þangað til flm. hafa talað um þær. Hefi jeg ekki eytt löngum tíma til framsögu minnar og vænti þess, að hv. þm. verði stuttorðir, svo umr. verði lokið sem fyrst, og helst í nótt.