29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

1. mál, fjárlög 1927

Jón Baldvinsson:

Í III. brtt. á þskj. 297 förum við þrír þdm. fram á það, að tekin verði upp fjárveiting í fjárlög 1927 til þess að gera registur um Stjórnartíðindin frá 1916–1926. Jeg veit, að hver einasti þm. finnur til þeirra örðugleika, sem á því eru að finna þau lög, sem menn vilja leita að, því að svo mörg lög hafa verið gefin út á þessu tímabili, að það er næstum ógerningur að finna það, sem leitað er að. Þessi till. var flutt hjer á síðasta þingi og fyrir misskilning náði hún ekki samþykki. Hún var tekin aftur við 2. umr., og ætlaði fjvn. að athuga hana, en það fórst einhvernveginn fyrir. Nú er farið fram á sömu fjárveiting, 2500 kr., en árinu 1926 bætt við, svo verkið er meira, sem vinna á fyrir sama fje. Þó þetta heyri í raun rjettri undir stjórnarráðið, þá ætti að fela skrifstofustjóra Alþingis að hafa umsjón með þessu verki, því hann mun allra manna færastur um það. Því það er mjög mikið vandaverk að semja slíkt registur svo að vel sje.

Jeg mun svo ekki eyða tíma í það að tala um fleiri brtt. en þessa einu, en leyfa mjer aftur á móti að nota þá heimild, sem þm. hafa við 3. umr., að beina nokkrum orðum til hæstv. stjórnar viðvíkjandi atriðum, sem beinlínis snerta hag ríkisins yfirleitt.

Mjer fanst hæstv. fjrh. (JÞ) í síðustu ræðu sinni taka heldur harðvítuglega á móti ýmsum útgjaldatillögum, en þó sjerstaklega þeim, sem miða til verklegra framkvæmda. Þetta kom mjer dálítið óvart, því að jeg var á þingmálafundi með hæstv. ráðherra nú ekki alls fyrir löngu. Heyrði jeg hann þá halda því fram, að það væri þingsins að skera úr, hvort það vildi ljetta af þessum háu sköttum eða láta þá standa og nota þá til verklegra framkvæmda. Mun hann þá hafa haft hugmynd um, að því verkefni bráðabirgðaskattanna væri lokið, að borga lausu skuldirnar. Hæstv. ráðherra má því ekki gera hvorttveggja í senn, að setja sig á móti lækkun skattanna og samtímis setja sig á móti því, að ráðist verði í verklegar framkvæmdir.

Þá vil jeg beina fáum fyrirspurnum til stjórnarinnar. Eins og kunnugt er, stendur Íslandsbanki að miklu leyti undir yfirstjórn ríkisins, síðan Alþingi og stjórnin hlupu undir bagga með honum, því eftir lögunum frá 1921 eiga tveir bankastjórar bankans að vera skipaðir af íslensku stjórninni, sem að mínu áliti þýðir, að bankinn sje meira en áður undir yfirstjórn landsins. Nú vil jeg spyrja hæstv. stjórn, af hvaða ástæðum Íslandsbanki hefir ekki lækkað vextina eins og Landsbankinn. Hann hefir nefnilega ½% hærri vexti á ýmsum lánum en Landsbankinn, og þetta getur munað allmiklu á báða bóga. Þegar líka þess er gætt, að munurinn er mestur á 1. veðrjettarlánum og víxlum.

Þetta er þeim mun undarlegra, þegar kvartað er undan erfiðri afkomu atvinnuveganna, því að þessir háu vextir koma þó mest niður á þeim. Jeg sje því ekki annað en stjórnin, og þá sjerstaklega hæstv. fjrh., verði að svara fyrir þetta og upplýsa fullkomlega, af hverju Íslandsbanka er leyft að halda uppi óeðlilega háum vöxtum í landinu.

Það má nú kannske segja, að Íslandsbanki sje „privat“-stofnun, en Landsbankinn ekki, og því sje þar töluverður aðstöðumunur. En eins og tekið hefir verið fram áður, hefir hann notið mikilla hlunninda hjá ríkinu, hefir t. d. meiri seðla í umferð en Landsbankinn, og auk þess margskonar hlunnindi, og er því engin ástæða til, að hann þurfi að hafa vextina hærri.

Þessir háu vextir eiga líka sinn þátt í því að gera landsmönnnm erfiðara með að þola gengishækkunina. En það hefir mjer þó skilist, að væri skoðun hæstv. stjórnar að keppa að því marki að koma peningunum í það gengi, sem þeir voru í áður en stríðið skall á. Út frá því sjónarmiði ætti stjórnin því að vera á móti þessum óeðlilega háu vöxtum bankans, auk þess, sem þeir halda dýrtíð uppi í landinu og eru allþungur skattur á viðskiftamönnum bankans.

Þá er annað atriði, sem jeg vildi víkja til hæstv. stjórnar, og það er, hvort hún hafi nokkuð gert í því að breyta enska láninu í hagkvæmara lán. Það er sem sje kunnugt, að danska ríkið tók líka mjög óhagstætt lán 1920, en hefir nú breytt því í miklu hagkvæmara lán, sem ljettir vaxtabyrðina á danska ríkinu um mörg hundruð þúsund kr. á ári. Jeg vil því spyrja hæstv. stjórn, hvort hún hafi nokkuð gert í þessu og hvort hún ætli sjer að gera nokkuð í því.

Það væri mjög mikilsvert atriði, ef stjórnin gæti breytt þessu dýra láni í annað hagkvæmara, því að eftir því, sem jeg hefi komist næst, þá eru vextirnir af því nálega 9%. Það eru gífurlega háir vextir, og væri hægt að lækka þá, gætu bankarnir ekki lengar haft þá fyrir ástæðu til að halda vöxtunum uppi.

Að það megi takast að fá hagkvæmara lán, er jeg í nær engum vafa um, því að nú er miklu auðveldara að fá stór peningalán en var 1921.

Þá er þriðja fyrirspurnin, sem jeg vildi beina til hæstv. stjórnar, og hún er sú, með hvaða verði gullforði Íslandsbanka hafi verið keyptur síðastliðið haust. Um þetta er vitanlega ákvæði í lögum, en jeg hefi heyrt, að það sje ágreiningur um, hvernig beri að skilja það. Þætti mjer því vænt um, ef hæstv. stjórn vildi upplýsa þetta.

Þá er eitt atriði enn, sem jeg vildi spyrja hæstv. fjrh. um, og það er um framkvæmd á tolllagabreytingu síðasta þings viðvíkjandi tóbakstollinum. Mig langar til að heyra, hvernig 2. gr. þeirra laga hefir verið framkvæmd. Hvernig framkvæmd hafi verið álíming tollmerkja og hver kostnaður hafi orðið við það.

Að sjálfsögðu heimta jeg ekki af hæstv. ráðherra, að hann skýri frá, hver kostnaður hefir orðið af þessu um alt land. En hvað hann hafi orðið hjer í Reykjavík, ætti hann að geta farið nærri um. Þetta vænti jeg, að hæstv. fjrh. upplýsi, því að í fyrra var það mikið deiluefni, og hjeldu sumir því fram, að þetta væri óframkvæmanlegt og ótrygt. En þar sem nú er fengin töluverð reynsla fyrir þessu, ætti stjórnin að geta leitt þingið í allan sannleika um, hvernig þetta hafi tekist.

Þá er eitt atriði enn, sem jeg vil víkja til hæstv. fjrh., þó að það komi fjárlögunum ekki beinlínis við. Það er út af umræðum þeim, sem fram fóru hjer í gær. Hann þóttist hafa ástæðu til að halda að samband væri milli ullartollsins í Bandaríkjunum og steinolíueinkasölunnar hjer, en vildi ekki skýra það í gær, hvernig þetta samband væri, enda þótt á hann væri skorað. Jeg vil nú enn skora á hæstv. fjrh. að skýra þetta fyrir þinginu og á hvaða rökum þessi ummæli hans eru bygð, og ef tilhæfa er í þessu, þá vil jeg fá skýrt, hvernig sambandi milli þessara mála sje varið og hvernig samband gat orðið milli þeirra, og ennfremur hverjir hafi stuðlað að því, til þess að menn geti metið, hvort áðurnefnd ummæli hæstv. ráðh. (JÞ) sjeu á rökum bygð eða ekki. En ef hann hefir verið hjer með eintómar dylgjur, þá tel jeg það með öllu óforsvaranlegt.

Þá skal jeg snúa máli mínu til hæstv. atvrh. (MG). Það er aðeins einföld spurning, sem jeg vil leggja fyrir hann, og hún er viðvíkjandi framkvæmd laganna um útvarp, sem samþykt voru í fyrra. Það, sem mig langar til að spyrja hann um, er, með hvaða lagaheimild hann heimilar leyfishöfum að leggja skatt á tæki. Jeg skil lögin frá í fyrra svo, að slík heimild hafi enga stoð í þeim. Sömuleiðis finst mjer umræðurnar um lögin bera vott um, að stjórnin hafi ekki átt að fá heimild til að taka þennan skatt. Eins og kunnugt er, var einkasalan feld úr frv. í fyrra, en nú hefir verið sett í reglugerð, að þeir, er tæki selja, þurfi til þess söluleyfi, sem jeg tel hæpið, að hafi stoð í lögum. Jeg held því, að hæstv. atvrh. hafi gengið hjer feti lengra en lög heimila, og vildi því óska, að hann skýrði með hvaða lagaheimild hann hefir gert þetta.

Annars vænti jeg, að hæstv. stjórn taki fyrirspurnir mínar til athugunar og svari þeim við fyrsta tækifæri, því að flestar þeirra eru þess eðlis, að það er mjög fljótgert að afla þeirra upplýsinga, sem þarf til þess að svara þeim.