20.04.1926
Neðri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Pjetur Þórðarson:

Jeg hefi skrifað undir nál. á þskj. 185 með fyrirvara. Um eitt stórt atriði var jeg ekki sammála öðrum nefndarmönnum meiri hl., en að jeg tel mig með þessu nál., er af því, að jeg er ekki að öðru leyti en þessu sammála minni hlutanum. Þetta atriði, sem fyrirvarinn er um, er ákvæði 1. gr. um lágmark aldurs manna til kosningarrjettar og kjörgengis. Um þetta atriði er jeg sammála minni hlutanum. Jeg hefi við ítarlega yfirvegun komist að þeirri niðurstöðu, að 21 árs gamall maður nú sje búinn að ná eins miklum siðferðislegum og andlegum þroska og 25 ára gamall maður fyrir 10–15 árum. Það er vitanlega síaukin menning og fræðsla, sem gerir þetta að verkum, að 21 árs gamlir menn eru eins þroskaðir og sjálfstæðir nú og 25 ára gamlir menn voru fyrir nokkrum árum. Auk þessa kemur þetta aldurstakmark alveg heim við önnur rjettindi, sem menn eru búnir að fá 21 árs.

Hæstv. atvrh. (MG) hafði sig mjög í frammi til að andmæla þessu og komst, eins og oft vill verða fyrir þeim, sem hafa rangt fyrir sjer, út í andstæðar öfgar. Um aldurstakmarkið sagði hann, að hví mætti þá ekki alveg eins miða við einhvern lægri aldur en 21 árs. En nú er það vitanlegt, að menn eru ekki alment sjálfráðir athafna sinna eða fullráða fyr en þeir eru 21 árs, enda verður að hafa eitthvert vist takmark, og er því eðlilegast að láta þessi rjettindi fylgjast með öðrum borgaralegum rjettindum. Hinsvegar er jeg viss um, að ungir menn til sveita eru mjög óánægðir með að hafa ekki kosningarrjett fyr en þeir eru 25 ára. Þeir eru farnir að standa fyrir búi og taka þátt í fjelagsmálum og eru sjálfstæðir menn að öllu öðru leyti en þessu. Mjer finst því sjálfsagt og eðlilegt, að nú sje stigið það spor, sem vantar á það, að þessum mönnum sjeu veitt fullkomin borgaraleg rjettindi í þjóðfjelaginu, þegar þeir eru 21 árs. Ef á það er litið, hvað mannsæfin er stutt, er síst of snemt fyrir menn að fara að bera ábyrgð á slíkum almennum fjelagsmálum, þegar þeir hafa náð þessum aldri. Mjer finst ólíklegt, að háttv. deildarmenn geti ekki felt sig við að færa þetta aldurstakmark í frv. niður. Jeg sje ekki, hvað getur verið því til fyrirstöðu að veita mönnum þessi rjettindi um leið og þeir fá önnur borgaraleg rjettindi.

Í sambandi við þetta vil jeg minna á, að jeg gat ekki orðið samferða hv. 2. þm. Reykv. (JBald) um breyting á 6. atriði l. greinar frv. sem skilyrði fyrir kosningarrjetti. Mjer finst mjög óeðlilegt að veita mönnum kosningarrjett og kjörgengi jafnhliða því, sem þeir eru að þiggja sveitarstyrk, ekki vegna þess, að það geti ekki oft staðið svo á, að það sje sanngjarnt að veita mönnum kosningarrjett, þó að þeir hafi orðið að þiggja af sveit og standi í skuld fyrir. Jeg gæti vel felt mig við, að sett væru einhver skilyrði fyrir því, til dæmis það, að menn stæðu ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk síðustu 10 árin. Verði menn að þiggja af sveit fyrir elli sakir, er það, að minsta kosti til sveita, fólk, sem ekki gæti hagnýtt sjer þessi rjettindi og hefði enga löngun til þess.

Jeg ætla ekki að lengja umr. með því að tala um önnur atriði frv., enda þótt jeg sje ekki að öllu leyti ánægður með það. Jeg vænti þess, að menn geti litið með sanngirni á það atriði 1. gr., að mönnum sje veittur kosningarrjettur, þegar þeir eru 21 árs. Það eru, eins og hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hefir þegar gert grein fyrir, svo margar og sjálfstæðar ástæður, sem mæla með því. Jeg fyrir mitt leyti legg svo mikla áherslu á þetta atriði, að jeg efast um, hvort nokkurs sje um vert að samþykkja 1. gr. frv., ef það er felt í burtu.