06.05.1926
Efri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Sigurður Eggerz:

Jeg hefi ekki miklu að svara. Hv. þm. reynast rakalitlir í baráttunni gegn jafnrjetti kvenna og karla. Hæstv. atvrh. vjek að því, að jeg hefði ekki viljað láta kvenþjóðina hafa sína sjerskóla. Jeg veit ekki betur en að hún hafi kvennaskólann. Jeg mótmæli því orðum hæstv. atvrh. (Atvrh. MG: Jeg sagði, að hv. 1. landsk. vildi ekki hafa kvennaskólann kostaðan af ríkinu). Konur hafa sjerskóla; það var aðeins deilt um það „princip“, hvort skólinn ætti að vera einkaskóli eða ríkisskóli. Jeg vil ekki fara hjer út í þær umr. En jeg vil taka það fram, að enginn hefir gefið hv. 4. landsk. (IHB) betri traustsyfirlýsingu en jeg, enginn viðurkent betur en jeg starf hennar við einkaskólann, kvennaskólann í Reykjavík, og talið hann hafa verið prýðilega rekinn. (Atvrh. MG: Ætli hann yrði ver rekinn sem ríkisskóli?). Það getur vel verið, að hann yrði ver rekinn sem ríkisskóli. Það eru til dæmi um það, að fyrirtæki hafa verið rekin ódýrar sem einkafyrirtæki en sem ríkisfyrirtæki. En í þessu máli ætlar hæstv. ráðh. sjer að vera einkar hollur kvenþjóðinni. Þetta eru svona smádúsur, sem hann stingur upp í hana, en ekki er víst, hvernig henni bragðast af þeim.

Hv. 1. þm. Rang. (EP) færði sem dæmi sextuga karlmenn, sem mættu skorast undan kosningu. Af hverju? Af því að kraftarnir eru farnir að bila. Það getur vel verið. En ef í þessu er fólgin einhver „analogi“, þá telur hv. þm. kvenþjóðina svo lítilfjörlega, að hann lítur svo á, sem hún sje biluð að kröftum. Þarna kemur misrjettið látakanlegast fram.

Ef það er rjett, sem hæstv. atvrh. heldur fram, að þetta sje smáatriði, þá fer svo í hv. Nd., að hún lítur á frv. sem rjettarbót og sleppir aukaatriðunum.

Það kom fram eitt atriði í ræðu hv. þm. A.-Húnv., sem jeg vil leggja áherslu á. Var það skarplega og viturlega athugað af honum, að ef konur hafi rjett til að skorast undan kosningu, þá verði afleiðingin sú, að þær vilji ekki taka við kosningu. Þetta er einkar kænlegt til þess að koma í veg fyrir, að þær taki að sjer opinberar stöður.