23.04.1926
Neðri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Halldór Stefánsson:

Jeg ætla í fjarveru hv. aðalflm. till. á þskj. 330 að segja nokkur orð um þær. Í nál. fjhn. er getið um ágreining þann, sem varð um d.-lið 1. gr. frv. af hálfu tveggja nefndarmanna. En svo hefir þriðji maðurinn bæst við, fallist á till. okkar og er nú meðflm. okkar að henni.

Það er þá fyrst a.-liðurinn, sem jeg ætla að víkja að, enda hefir mest verið um hann talað. Það eru aðallega tvær ástæður, sem liggja til grundvallar fyrir þessum brtt. okkar. Það er þá fyrst, að eins og ákveðið er í frv., að misrjetti getur átt sjer stað gagnvart þeim, sem leggja fje í þetta fyrirtæki, eftir því, hvort um er að ræða mikið hlutafje og lítinn gróða eða lítið hlutafje og mikinn gróða. Þannig verður að greiða jafnmikið af jafnmiklum gróða, hvort sem hlutafjeð er mikið eða lítið, hvort sem það er 2 miljónir eða 6 miljónir. Þetta fanst okkur ekki rjettlátur mælikvarði fyrir arðgreiðslu í ríkissjóð, og var þetta önnur ástæðan til þeirra breytinga, sem við komum fram með. Ef gróðinn væri t. d. ekki nema 100 þús. kr., mætti telja það fremur lítinn gróða af 2 miljónum, og enn minni af 6 miljónum, og á bankinn þá að greiða samt jafnmikið eftir stjfrv. Hitt atriðið, sem liggur til grundvallar fyrir brtt. okkar, er það, að okkur þótti ríkissjóði ætlað of lítið af gróða bankans. Með gjaldstiga okkar tel jeg bankanum ekkert ofþyngt, því að þegar að því kemur, að ríkissjóður fer að fá nokkuð í arð af gróða bankans, þá er bankinn orðinn vel trygður. Búið að draga frá af óskiftum arði hæfilega fjárhæð til afskriftar af húsi og munum, beint áfallið tap, 10% til varasjóðs og 5% af hlutafjenu til hluthafaarðs. Jeg skal setja fram dæmi, þessu til skýringar. Gerum ráð fyrir, að hlutafjeð sje 3 milj. og hreinn gróði 300 þús. Eftir frv. á ríkissjóður þá að fá 60 þús., en bankinn 240 þús., eða rjett 8%. Eftir brtt. okkar á ríkissjóður að fá 75 þús., en bankinn 225 þús. Þessar 225 þús. kr. væri, að mjer skilst, alt að 7½%, svo að hlutafjeð fengi samt nær 12½%, þó gengið væri að okkar till.

Gerum svo ráð fyrir, að hlutafjeð sje 3 milj., en gróðinn þrefalt minni, eða 100 þús. kr. Eftir brtt. okkar ætti ríkissjóður þá að fá 12 þús., en hlutafjeð 88 þús. kr. Jeg get engan veginn sjeð, að með þessu sje nærri gengið hlutafjenu.

Jeg hefi þá með þessu svarað hæstv. fjrh. Hann lagði svo mikið upp úr þessu, að hann taldi sama, hvort frv. væri felt eða gengið að brtt. okkar. Jeg veit ekki, hvað erlent hlutafje getur gert sig ánægt með í viðskiftum við okkur, ef þetta þykir of nærri því gengið. Jeg sem meirihlutamaður í nefndinni hefi gengið inn á, að þörf væri fyrir aukið starfsfje í landinu. En mjer dettur í hug, ef gera á svo mikið úr þessu atriði, hvort greitt er lítilsháttar meira eða minna, en þó ekki nema auðvirðilegur hluti af gróða bankans, að rjett væri að átta sig á því sem fyrst, hvað langt er farandi í því að leggja þjóðina undir okur erlends fjármagns. Um b.- og c.-liðinn þarf jeg ekki að tala. Jeg býst við, að þær brtt. valdi ekki ágreiningi.