29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

1. mál, fjárlög 1927

Jakob Möller:

Jeg á 2 brtt. við þennan kafla, og eru þær svo vaxnar, að segja mætti, að það væri að slettast upp á verksvið annara, er einstakir þm. hreyfðu slíku, en jeg hefi þó leyft mjer að gera það, til þess að umr. geti orðið um þessi mál í hv. deild. Fyrri till. er um að hækka liðinn til skrifstofukostnaðar bæjarfógeta og sýslumanna úr 84 þús. upp í 100 þús. kr. Fjvn. hefir lagt til að hækka liðinn aðeins um 8 þús., eða upp í 92 þús., en þessir embættismenn hafa lagt fram gögn fyrir því, að krafa þeirra um 16 þús. kr. hækkun, eða upp í 100 þús. kr., er fullkomlega rjettmæt. Eins og kunnugt er, var launakjörum þessara embættismanna breytt með launalögunum 1919, og voru þá af teknar aukatekjur, svo sem innheimtugjald af tollum o. fl. Þetta var gert til að spara ríkissjóði fje. Það var álitið, að sumir þessara embættismanna hefðu þá óhæfilega há laun, samanborið við aðra, og þetta átti nú að jafna. Hinsvegar var það jafnframt ákveðið, að kostnaður allur við starfrækslu embættanna skyldi greiddur úr ríkissjóði sjerstaklega. — Í 11. gr. launalaganna frá 1915, 5. málsgr., segir svo:

„Kostnaður við starfrækslu embætta þeirra, er um ræðir í þessari grein hjer að framan, greiðist sjerstaklega úr ríkissjóði.“

Þessi grein segir það alveg skýrum orðum, að allur kostnaður við rekstur embættanna, hver sem hann verði, skuli greiddur úr ríkissjóði, og það verður að líta svo á, að með þessu sje gefið fyrirheit um það, að reikningar þessara embættismanna yfir slíkan kostnað skuli viðurkendir og greiddir. Það er að vísu svo fyrirmælt, að dómsmálaráðherra ákveði upphæð þessa kostnaðar „fyrirfram fyrir hver 5 ár í senn“, og er það nokkuð undarlegt, þar sem það virðist ómögulegt að sjá það fyrir, hvaða breytingar kunna að verða á ókomnum 5 árum. En það virðist auðsætt, að dómsmálaráðherra hljóti þá að minsta kosti að ákveða þennan kostnað í hvert sinn samkvæmt síðustu kostnaðarreikningum embættismannanna. Og þegar ákveða á þessa upphæð í fjárlögum, verður að gera ráð fyrir, að farið yrði eftir því, hver kostnaðurinn hefir orðið næsta ár á undan, eftir reikningum sýslumanna þar um. Nú skilst mjer, að þeir hafi lagt fram reikninga og gögn, sem sýni það ljóslega, að upphæðin þurfi að hækka enn meira en jeg hefi farið fram á, eða úr 84 þús. upp í 116 þús., og væri þó ekki of mikið í lagt. — Úr flokki þessara embættismanna hafa skilist tveir, sem sje bæjarfógetinn og lögreglustjórinn í Reykjavík, sem fá allan skrifstofukostnað greiddan eftir reikningi; en samkvæmt lögum eiga þessir menn að búa við sömu kjör og hinir. En auk þess að þessir tveir menn eru einir látnir njóta rjettlætis, er, að minsta kosti að því er annan þeirra snertir, gengið skrefi lengra. Lögreglustjóri fær sem sje innheimtulaun, 2%, af öllum verðtolli, auk þess að hann fær greiddan fullan skrifstofukostnað eftir reikningi. Og þessi innheimtulaun munu á síðasta ári hafa numið um 26 þús. kr., og eru það laglegar aukatekjur. Fyrir innheimtu ríkissjóðstekna í Reykjavík mun nú vera greitt alt að helmingi meira en fyrir alla innheimtuna úti um land. Þetta virðist þó eiga að vera þveröfugt, því að það er auðvitað kostnaðarsamara að innheimta hvað sem er úti um land en hjer í Reykjavík. Það kostar jafnmikið að innheimta smærri upphæðirnar eins og þær stærri. Og þó að tekjur ríkissjóðs sjeu miklu meiri í Reykjavík en í öðrum lögsagnarumdæmum, er ekki þar fyrir ástæða til að greiða meira fyrir að innheimta þær, því að það kostar ekki meira að skrifa háar tölur og innheimta heldur en þær smærri. — Yfir höfuð nær það ekki nokkurri átt, að þessir embættismenn úti um land fái ekki skrifstofukostnað sinn greiddan eins og þeir eiga kröfu til samkv. lögum. Jeg get ekki skilið í því, hvernig stendur á því, að þessari fjárveitingu skuli vera haldið svo mjög niðri af hv. nefnd og hæstv. stjórn.

Jeg vil þar að auki leyfa mjer að benda á það, að jeg álít, að þing og stjórn fari inn á hættulega braut með því að neyða þessa embættismenn til þess að greiða svo og svo mikið af launum sínum til að greiða skrifstofukostnað embættanna.

Þá á jeg aðra brtt., sem fer fram á það, að stofna nýja stöðu eða embætti. Jeg get búist við því, að sú till. verði ef til vill ekki vinsæl, þegar af þeirri ástæðu. En það stendur alveg sjerstaklega á með þetta. Þingið hefir undanfarið veitt Skúla lækni Guðjónssyni styrk til þess að kynna sjer heilbrigðismál erlendis, og vitanlega hefir það gert það með það fyrir augum, að hann mundi að loknu námi hverfa heim aftur og láta þá þjóð, sem hefir styrkt hann, njóta starfskrafta sinna. Mjer er kunnugt um það, enda munu margir háttv. þm. vita það, að hann hefir notað vel tímann og er nú mjög vel að sjer og duglegur maður. Hinsvegar er okkar heilbrigðismálum svo komið, að okkur er hin mesta þörf á að fá nýjan og duglegan mann til að starfa fyrir þau. Einn þátturinn í námi Skúla hefir verið að fást við bætiefnarannsóknir, að rannsaka það, hvaða fæðutegundir væru ríkastar af þessum efnum, og samanburður á þeim, og er þetta mjög merkileg og um leið „praktisk“ vísindagrein. Hjer á landi vita menn alment tæplega, hvað þetta er, en í öðrum löndum er mikil áhersla lögð á þetta.

Það er mjög líklegt, að slíkar rannsóknir hjer gætu haft mikil áhrif á það að bæta markað fyrir sumar íslenskar fæðutegundir, sem við flytjum út. Það eru t. d. miklar líkur til þess, að íslenskt smjör sje bætiefnaríkara en annað smjör, og ef það sýndi sig við slíkar rannsóknir, gæti það orðið til þess að koma því í hærra verð en nú er á erlendum markaði.

Það mun mörgum háttv. þm. kunnugt, að þessi maður hefir leitt rök að því, að einn sjúkdómur á sauðfje, sem talinn hefir verið ólæknandi hingað til, stafi aðeins af bætiefnaskorti í fóðrinu, og ef svo er, er augljóst, að vel megi lækna þennan sjúkdóm eða komast hjá honum. Af þessu, sem jeg nú hefi greint, geta menn sjeð, hve starfsemi slíks manns sem þessa getur verið þýðingarmikil fyrir þjóðfjelagið í heild sinni. Jeg veit, að það er óvinsælt verk að stofna nýjar stöður, en jeg álít, að hjer sje um nauðsynjamál að ræða. Hæstv. stjórn er vel kunnugt um þennan mann, og væri æskilegt að heyra, hvernig hún lítur á þetta mál.

Þá eru 2 brtt. á sama þskj., sem jeg ætla að gera grein fyrir fyrir hv. þm. Dal. (BJ). Fyrri till. er um að veita 15 þús. kr. til þess að leggja akveg frá Fellsenda um Bröttubrekku til Norðurárdals. Það sjá allir, hve mikilsvert það er að fá þannig akveg alla leið frá Borgarnesi og vestur í Dali, til þess að gera þessu stóra hjeraði kleift að koma afurðum sínum á markað. Skipaferðir eru mjög stopular þangað vestur, og er því mikil nauðsyn á, að bætt sje úr samgönguvandræðum þessa hjeraðs. Nú er akveganna tími og yfir höfuð mikið veitt til þess að koma sveitunum í betra samband við markaðsstaði, og er því í fullu samræmi við þá stefnu að veita þetta fje til Dalasýslu í þessu skyni.

Þá er önnur brtt. um að setja kláf á Krosssund milli Langeyja við Skarðströnd í Dalasýslu. Þetta er mjög nauðsynlegt. Þarna er töluverður ferðamannastraumur, en á vissum tímum árs getur orðið mjög örðugt yfirferðar vegna íss, svo að ómögulegt er að koma við bátferjum. Er þetta og mjög ilt þeim, sem í eyjunum búa, þar sem þeir komast ekki til lands eftir lækni eða til að reka önnur erindi. Það má ekki bera því við, að ekki liggi á þessu, því að úr svona farartálma, þarf að bæta sem fyrst. Hinsvegar er hjer aðeins um lítilfjörleg fjárútlát að ræða, því að fullyrða má, að þessi samgöngubót kosti ekki yfir 4000 kr. Jeg vænti þess, að hv. deild taki vel í þetta og virði mjer til vorkunnar, þótt jeg hafi ekki talað eins vel fyrir þessu eins og hv. flm. hefði gert sjálfur.