28.04.1926
Efri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (894)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Jónas Jónsson:

Jeg ætla ekki að fara ítarlega út í þetta mál við þessa umræðu. En jeg vil benda háttv. deildarmönnum á það, að þótt jeg greiði ekki atkv. á móti því, að málið fari til 2. umr., þá tel jeg þetta samt mjög varhugavert, sem hjer er farið fram á.

Fyrir tveim árum var samþ. frv. líkt þessu eftir allharða viðureign í þinginu, þar sem ákveðnum mönnum var veitt heimild til þess að stofna banka. Endirinn varð sá, að ekkert varð úr þessu og hrakspárnar rættust. Nú er fitjað upp á þessu sama af nýju, boðin svipuð kjör án þess að nokkur viti, hvort nokkrir vilji stofna þennan banka eða ekki. Það eru sumir altaf að tala um það, að dýrmætum tíma þingsins sje varið í óþarfa umræður. En einmitt þeir menn, sem hæst hafa talað um það, eru langmest sekir í því að halda fram málum, sem annaðhvort eru óþörf eða horfa fremur til ógagns.

Jeg tel það alveg óverjandi að búa til lög, sem enginn veit hver á að nota. Þetta eru þó aðeins formgallar; efnisgallarnir eru meiri, og læt jeg það bíða að tala um þá til 2. umr.