12.05.1926
Efri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Jónas Jónsson:

Mjer skildist hv. frsm. meiri hl. (JJós) vitna til milliþinganefndarinnar í bankamálum til stuðnings þessu frv., og skil jeg vel, að hv. þm. gerði það, því að það gerðu blöðin líka, en það er samt alveg rangt, þó að þar sje hænufjöður til í hænuna. Það sem er villandi viðvíkjandi umsögn milliþinganefndarinnar, er það, að hún gerir ráð fyrir, að í framtíðinni komi hjer nýir bankar, en nefndin gerir ráð fyrir, að það komi almenn bankalöggjöf áður en fleiri bankar verða stofnaðir, og það hefir verið skýrt tekið fram í háttv. Nd., meðal annars af hv. þm. V.Ísf. (ÁÁ). Ef hjer kæmi nú nýr banki, gætu liðið mörg ár þangað til bönkum fjölgaði aftur, og þá dálítið einkennilegt, ef á næstu þingum væri verið að bisa við að gera ný sjerleyfislög viðvíkjandi bönkum, en þá hefði verið stofnað það af bönkum, sem kæmi á næstu árum. Jeg vil gefa þessa skýringu á orðum nefndarinnar, af því að hún hefir einmitt gert ráð fyrir, að samin yrði bankalöggjöf á næstu árum, og það er „teoretisk“ fjarstæða, að fjölgun banka eigi að koma á undan bankalöggjöfinni. Án þess að jeg vilji tala um starf nefndarinnar, get jeg sagt það, að 3–4 af nefndarmönnum álitun rangt að stofna nýja banka nú á svo lausum grundvelli, án þess að ákveðið sje, hvað það væri, sem löggjöfin krefðist af þeim. En það er tvent, sem gerir, að jeg er á móti þessu frv.: annað er það, að hjer er aðeins löggjöf fyrir einn banka, en það hefi jeg skýrt áður; hitt er, að jeg er á móti bankastofnunarheimild, sem gefin er út í bláinn. Það hafa ekki komið neinar skýringar frá hæstv. stjórn eða háttv. nefndum, sem hafi gert það líklegt, að hjer væri um neinn aðilja að ræða, sem vildi nota þessa heimild. Við sem ekki höfum mikla trú á þeim norska banka árið 1923, þrátt fyrir það, að nokkrir Íslendingar voru til greindir, sem fengu leyfið og hefði mátt gera ráð fyrir, að gætu útvegað fjeð, vissum, að þar var bygt á sandi. En hjer er aðeins verið að gefa út almenna heimild, sem enginn veit, hvort nokkur maður vill nota, eða þá hvort þeir, sem vildu nota hana, væru æskilegir gestir. Jeg vil einnig taka það fram, að viðvíkjandi sjálfstæði þjóðarinnar getur það verið ákaflega hættulegur misskilningur, hættulegri en nokkuð annað, að gera ljettúðugur með það, hvaða fjármagn kemst inn í landið. Fyrir stríð sýndu Þjóðverjar ákaflega mikla fyrirhyggju í því að koma fyrir fjármunum í öðrum löndum, til þess að ná þar pólitískum og fjelagslegum yfirráðum; og þegar það er athugað, hve mikil áhrif banki með miklu fjármagni getur haft í fátæku landi, þá trúi jeg því ekki, að hæstv. fjrh. vilji heimta það, að deildin samþykki þetta frv., sem gæti verið til þess að veita útlendu fjármagni hættulegt vald í landinu. Sá banki gæti þá orðið eins og Grímsey var á tíma Ólafs Haraldssonar. Nú þarf að vísu ekki að óttast það, að langskip komi hingað með her manns, sem geti lifað á eggjunum þar, en útlendur banki, ef til kæmi, með miklu fjármagni, og honum yrði vitaskuld stjórnað af þeim, sem ættu fjármagnið, gæti orðið til mikillar hættu fyrir fjármálafrelsi landsins, og svo annað frelsi þess. En þessu væri ekki svo háttað, ef um vissa menn væri að ræða, því að það er t. d. alt annað að samþykkja þetta frv. eða Íslandsbankafrv. um 1900; þar voru menn, sem Íslendingar þektu töluvert, auk þess frændur okkar, og að minsta kosti menn, sem við höfðum verið bundnir pólitískum böndum við, og það var hægt að átta sig á því, hverskonar fyrirtæki þessi menn vildu stofna. En um þetta frv. veit maður ekkert og stjórnin veit líklega heldur ekkert. Og nú vil jeg spyrja hæstv. fjrh., hvernig hann ætlar að nota þessa heimild, hvort hann ætlar að bjóða hana út eins og lotteríseðlar eru boðnir út í öllum löndum, eða hvort hann ætlar að reyna að fá einhvern gyðing til að koma hingað, eða hvort þetta eigi aðeins að vera pappíslög, sem hann vill fá.

Þá held jeg, að að minsta kosti einir tveir ræðumenn hafi talað um, að hjer væri þörf á nýju fjármagni. Getur vel verið, að sumir líti þannig á, en ýmislegt er nú samt, sem bendir í þá átt, að ekki sje þörf á fjármagni, sem væri notað í venjulega aukningu á mestu áhættufyrirtækjum landsins. Jeg held, að jeg fari ekki með rangt mál, þó að jeg segi, að hæstv. fjrh. hafi látið sjer þau orð um munn fara, að hann líti ekki á það með óblandinni gleði, hve togaraflotinn hefir aukist mikið á þessum árum. Og jeg veit, að þessi skoðun er uppi hjá ýmsum mönnum, einkum þeim, sem standa að hinum eldri togarafjelögum; og eitt af því, sem menn óttast í þessu efni, ef verðfall verður á fiski, er, að þá komi reglulegur barnadauði upp á meðal þessara fyrirtækja, því að þó á meðal þeirra sjeu nokkur traust fjelög, þá hafa önnur þotið upp, sem þá þurfa að fá nýtt fjármagn, sjúk fyrirtæki, sem þá myndu reyna að bjarga sjer. Fyrir þeim standa nýir menn, sem ekki hafa mikla reynslu við að styðjast, og sem byrja þá ef til vill á nýrri aukningu, ef vel gengur eitt árið. Jeg játa, að það væri ákaflega gott að fá hingað fjármagn af vissu tægi; það vantar t. d. tilfinnanlega fjármagn til fasteignaveðslána, bæði til húsabygginga og ræktunar, og það er enginn vafi á því, að ef það fólk, sem er hjer í Reykjavík, á að lifa áfram, er mesta þörf á, að bygt sje meira hjer en gert hefir verið, og sama mun vera í öllum öðrum kaupstöðum landsins, t. d. Vestmannaeyjum og Hafnarfirði, sem talað hefir verið um, að hefðu mikla lánsþörf. Þá er og mikil þörf á lánum til ræktunar, en sem nýr banki af þessu tægi bætir ekki úr, því að það eru ekki miklar líkur til, að banki eins og þessi, sem hjer er talað um, kærði sig nokkuð um að lána fasteignaveðslán. Til þess þarf nefnilega vissa tegund af fjármagni, sem ekki leitar til braskbanka í þessu afskekta landi, þar sem heita má, að gjaldmiðill þess svífi í lausu lofti. Ennfremur er mjög vafasamt, hvort rjett er að fá braskfjármagn inn í landið, þar sem hjer er nú kreppa í aðsigi, áður en eldri atvinnufyrirtæki hafa fest rætur. Jeg álít þess vegna, svo framarlega sem hæstv. fjrh. getur ekki gefið einhverjar nýjar skýringar eða einhver ný gögn í þessu máli, sem þingið hefir ekki sjeð, þá sje ekki aðeins óþarft, heldur hreint og beint hættulegt að samþykkja þetta frv., svo framarlega sem hæstv. ráðh. vill nota það til annars en að auka lagafjöldann.