29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

1. mál, fjárlög 1927

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Fyrir hönd fjvn. hefi jeg ekki miklu að svara. Nefndin hefir fengið þakklæti hjá sumum, en meinlaus olnbogaskot hjá öðrum.

Jeg mun því snúa mjer að hinum einstöku tillögum og taka þær eftir þeirri röð, sem þær liggja fyrir.

Er þá fyrst brtt. fjhn. við 2. gr. frv., um að fella niður skólagjöldin. Tillaga þessi var tekin aftur við 2. umr., af því hún virtist illa þokkuð. Um hana hefi jeg ekki annað að segja en það, sem jeg tók fram þá. Nefndinni virðist þetta ekki heppileg leið, meðfram af því, að aðrir skólar myndu verða óánægðir, þar sem gjöldin eru notuð til þess að ná inn fje, sem annars yrði að fá úr ríkissjóði. Hún leggur því á móti þessari tillögu.

Þá er næst till. frá háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) o. fl., um 2500 kr. til samningar á efnisyfirliti yfir Stjórnartíðindin. Nú hefir hæstv. forsrh. (JM) lýst yfir því, að hægt muni að taka fje til þessa verks af fje því, sem ætlað er til útgáfu tíðindanna. Hljóta flm. því að geta tekið tillöguna aftur.

Þá er brtt. IV., frá hv. 3. þm. Reykv. (JakM), um það að hækka skrifstofukostnað sýslumanna og bæjarfógeta. Hæstv. forsrh. hefir þegar svarað þeim ástæðum, sem bornar voru fram fyrir þessu, og sýnt fram á, að reikningar eru mjög misjafnir frá sýslumönnum, enda er það eðlilegt, því að það eru mismunandi mikil störf, sem sýslumenn leggja á sig. En það má ekki bera skrifstofukostnað sýslumanna saman við skrifstofukostnað lögreglustjóra í Reykjavík, eins og hv. 3. þm. Reykv. gerði. Fjvn. hefir fallist á, að hækka beri nokkuð tillag til skrifstofukostnaðar sýslumanna og bæjarfógeta, þótt hún vilji ekki fara eins langt í því og þessi hv. þm. (JakM), og hefir borið fram sjerstaka brtt. um það.

Þá er næst brtt. frá hv. 3. þm. Reykv. um að veita Skúla Guðjónssyni lækni nýtt embætti. Fjvn. hefir fengið umsögn landlæknis um þetta, og sagði hann, að það gæti verið gott að vísu að hafa lækni við hlið sjer, sem senda mætti á öllum tímum í þau læknishjeruð, sem lækni vantaði í án þess að hann með því vildi viðurkenna þörf á manni þessum vegna heilbrigðiseftirlits. Hinsvegar er nefndinni kunnugt, að þessi hlutaðeigandi maður vill alls ekki taka að sjer þetta sendilæknisstarf. Nefndin verður því að vera algerlega á móti því að stofna þetta nýja embætti.

Þá er næsta brtt. frá hv. þm. N.-M. (HStef og ÁJ) um styrk til Evu Hjálmarsdóttur til að leita sjer lækninga í Danmörku á heilsuhæli fyrir krampaveikt fólk. Það hefir verið tekið fram, að fordæmi sje fyrir því að veita slíkan styrk sem þennan, en það má þó segja, að þar er alllangt gengið. Fjvn. hefir þó ekki viljað ganga á móti till. og eru um hana óbundin atkv. Hjer er um litla fjárhæð að ræða, en á hinn bóginn talið líklegt, að hægt sje að lækna þennan sjúkdóm erlendis. Landlæknir er því og meðmæltur, að þessi styrkur verði veittur, þar sem stúlkan getur ekki fengið lækningu hjer á landi.

Þá talaði hæstv. fjrh. (JÞ) nokkuð um brtt. fjvn. undir staflið IX, og sjerstaklega um síðari breytinguna, að feld verði niður orðin „og að því tilskildu .... innanhjeraðssjúklinga.“

Fjvn. hafði ekki fengið fullnægjandi upplýsingar um þetta efni fyr en hjer undir umr. um fjárlagafrv., að því leyti sem þetta hefir nú verið úrskurðað af stjórnarráðinu. Háttv. deild sker úr um afdrif till. En jeg skal geta þess, að hinn almenni styrkur er miklu minni en sjúkrahúsum þyki nægilegt, og það gæti farið svo, að þau neyddust til að hækka allan legukostnað, og kæmu þá meiri baggar á ríkissjóð en ella, eins og jeg hefi áður tekið fram.

Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) talaði nokkuð um brtt. fjvn. um styrk til sjúkrahússins á Ísafirði. Hann varð að játa, að ástæður nefndarinnar fyrir till. væru hárrjettar, og veit jeg því ekki, hvernig jeg á að skilja hv. þm. (SjgurjJ), þar sem hann er á móti till. — hvort á að skilja hann svo, að vegna þess að till. sje rjett, þá eigi hún ekki fram að ganga! Þá var hv. sami þm. að tala um það, að sjúkrahúsið hefði orðið að greiða 2/3 af verðtolli byggingarefnis og innanhúsmuna. Þetta vissi fjvn., og þetta hafa önnur sjúkrahús gert, sem reist hafa verið á sama tíma, svo að þetta er ekki annað en tylliástæða til þess að fá hærri styrk en fjvn. leggur til.

Þá kem jeg að brtt. X, frá hv. þm. Mýr. (PÞ), um að veita alt að 5000 kr. til byggingar sjúkraskýlis í Borgarnesi. Fyrir hönd fjvn. hefi jeg ekki neitt um þetta að segja nema það, að það er ekki venjulegt að veita fje þannig, nema því aðeins, að fyrir liggi uppdráttur og kostnaðaráætlun og vissa sje fyrir því, að viðkomandi hjerað vilji og geti lagt fram fje að sínum hluta. En hjer liggur ekkert fyrir um þetta, og fjvn. er því algerlega á móti brtt.

Þá er brtt. við 12. gr. 17 frá hv. þm. Barð. (HK). Hjer er að ræða um berklaveikan sjúkling, sem hv. þm. sagði, að ekki gæti fengið inntöku í sjúkrahús vegna þrengsla. En svo er um fleiri, og mætti því lengi gera kröfur í þessa átt. Og nefndinni hafa borist ýmsar slíkar beiðnir, er hún hefir ekki getað sint, en hún telur, að þessi till. eigi þó einna mestan rjett á sjer.

Þá er brtt. við sömu grein frá hv. þm. Ak. (BL) og hv. 2. þm. Eyf. ( BSt ) um styrk til Jóns Kristjánssonar veitingamanns á Akureyri, til þess að bæta honum tjón af sóttvörnum. Brtt. þessi var tekin aftur við 2. umr. og hefir því ekki verið rædd fyr. Það er rjett hjá hv. flm., að finnast munu fordæmi fyrir þessu, en fjvn. verður að vera þeirrar skoðunar, að ríkið geti ekki hlaupið hjer undir bagga, því að þetta geti átt miklu víðar við. Verður fjvn. því að mæla á móti því, að þessi brtt. nái fram að ganga. Enda hafði fjvn. í því tilfelli, er svipaður styrkur var veittur, algerlega mótmælt honum, svo hún hefir hjer ekki skapað fordæmi:

Þá eru tvær brtt. frá háttv. þm. Dal. (BJ), sem þeir hafa mælt með hv. 3. þm. Reykv. (JakM) og hv. þm. N.-Þ. (BSv). Hjer er um allmikil fjárframlög að ræða, og leggur fjvn. á móti báðum þessum till. Málið er þar að auki alveg óundirbúið og vegamálastjóri hefir ekki lagt með því, og fjvn. veit ekki til, að neitt hafi verið rannsakað, hvað þessi mannvirki muni kosta. Jeg efast ekki um, að nauðsyn sje á þessum vegabótum, en svo er víðar á voru landi. Og þar sem ekki hefir verið leitast við að fá umsögn vegamálastjóra um þessi atriði, þá getur fjvn. með góðri samvisku verið á móti brtt.

Þá koma 2 brtt. frá hv. þm. N.-Þ. Um brúna á Brunná hefir nefndin leitað álits vegamálastjóra, og það er undarlegt, eftir ummælum hv. flm., að vegamálastjóri leggur á móti því, að þessi brú verði tekin. Það er að vísu rjett, að brúin yrði á þjóðvegi, en samt sem áður telur vegamálastjóri ekki rjett að láta hana ganga fyrir öðru. Hv. þm. (BSv) talaði um það, að Norður-Þingeyingar hefðu gert litlar kröfur til fjárframlaga, en jeg man ekki betur en að þeir hafi fengið fje til brúar á Hölkná og eitthvað meira. Um hækkunartill. hv. sama þm. til sýsluvega er það að segja, að nefndin hefir áður hækkað þennan lið og vill ekki hækka hann meira að svo stöddu.

Þá eru brtt. frá hv. þm. Borgf. og frá háttv. þm. Mýr. og háttv. þm. A.-Sk. um hækkanir á styrk til bátaferða. Fjvn. hefir nokkuð kynt sjer þetta, og eru óbundin atkvæði um tillögurnar. Eftir því sem fram hefir komið, þá virðist mjer ekki vanþörf á, að hækkaður sje styrkur til bátaferða, enda vill hv. samgmn. hækka þann styrk úr 85 þús. kr. upp í 91 þús. kr. Þá hefir hv. samgmn. einnig borið fram till. um það, að veittar verði 18500 kr. til báta- og vjelakaupa. Um þennan lið hafa orðið mikil og óþörf ummæli hjer í hv. deild. Þegar um það er að ræða, að annaðhvort verði að kaupa vjel í Skaftfelling eða hækka styrkinn til hans, þá vill nefndin heldur hækka styrkinn. Þetta verður einnig að telja styrk til að halda uppi bátaferðum, og er það því formsatriði, sem of mikið hefir verið úr gert. Þegar hv. 2. þm. Rang. mintist á framkomu fjvn. um þetta atriði, þá nefndi hann símalagningu til Hvítárbakka. Taldi hann hana með öllu óhæfa, en veit þó, að hún er fram komin vegna fordæmis. Ætti það að sannfæra hann um, hve fordæmin eru skaðleg. — Sami hv. þm. (KlJ) ávítaði fjvn. fyrir, að hún hefði ekki sýnt samgmn. næga virðingu, með því að athuga hennar plögg. Það má vera, að það sje ekki óforsvaranleg krafa, að sýna beri samgmn. virðingu, og skal jeg leyfa öðrum að dæma um það.

Næst kemur þá till. frá hv. þm. N.-Ísf. um að leggja símalínu frá Ögri til Snæfjalla. Hv. þm. gat þess, að þessi lína hafi komið í símalögin 1913. (JAJ: 1912). Það skiftir ekki máli, hvort árið var. En þessi mikli dráttur sýnir, að það hlýtur að vera örðugt að setja þar upp síma. Til að bæta úr þessu hefir verið komið upp loftskeytastöð á Hesteyri. Það sýnir, að landssímastjóri álítur heppilegra að nota þarna loftskeytastöðvar. Það sannar einnig örðugleikana, að hjeraðið hefst ekki handa að fá þetta fyr en 1928, þó að hv. þm. vilji reyna að krækja í það 1927. Jeg held því, að það sje ekki að ástæðulausu, að fjvn. legst á móti þessu, þar sem það er órannsakað, hvort ekki má fara aðrar leiðir til að bæta úr brýnustu þörfinni.

Þá eru þrjár brtt. frá hv. 2. þm. Árn. (JörB). Þær komu seinna inn en svo, að þær gætu verið á sama þskj. og allur fjöldinn, og eru því prentaðar sjer á þskj. Sú fyrsta fer fram á, að hækkaður sje styrkurinn til Halldór Arnórssonar enn um 600 kr. Fjvn. hafði við 2. umr. hækkað hann um sömu upphæð, og fann þá ekki ástæðu til að fara lengra. Það eru auðvitað alveg sömu rök færð fyrir þessari hækkun eins og við 2. umr., að maðurinn þurfi að borga háa húsaleigu og dýr áhöld, og að hann fari ekki fram á meira en hann nauðsynlega þurfi. En það vantar alveg að upplýsa hina hlið málsins: Hvað hefir maðurinn upp úr þessu? Það sjást hvergi nein skilríki um það. Það verður því ekki talið ástæðulaust, þótt fjvn. hliðri sjer hjá að fara lengra á móti óskum þessa manns. Önnur till. þessa hv. þm. (JörB) er um ferju á Hrosshyl. Mjer er þetta mál ekki vel kunnugt, en jeg held, að þessi ferja verði á sýsluvegi, og geri því ráð fyrir, að sýslusjóður kosti hana. Álít jeg því óviðfeldið, að ríkið fari að leggja nokkuð fram til þessarar ferju. En fyrir hönd nefndarinnar vil jeg segja það, að um hana eru óbundin atkv. Um þriðju till. hv. þm. eru einnig óbundin atkv. Hún er um hækkun á styrk til bifreiðaferða austur um fjall. Ætti þeim að vera ljúft að ljetta undir með flm. þessarar till., sem trúa því, að bifreiðar sjeu framtíðarflutningstækin hjer á landi.

Þá hefi jeg farið yfir allar brtt. nema eina, frá hv. sjútvn. En það hefir heyrst, að hún verði tekin aftur; er það gott fyrir fjvn., því að hún hefir algerlega gleymt að kynna sjer hana.

Þá hefi jeg ekki margt að segja, nema örfá orð til hæstv. atvrh. (MG) og hv. 1. þm. Árn. (MT). — Hæstv. atvrh. byrjaði og endaði á því, að ófært væri að hækka 13. gr. meira en orðið væri. Kom það þó lítt fram í verkunum, því að hæstv. ráðherra mælti alleindregið fram með styrk til báta- og vjelakaupa. En jeg verð að segja, að það er einkennilegt, að hæstv. ráðh. skyldi ekki sjálfur koma þessu inn í fjárlögin, ef hann hefir vitað um þessar miklu þarfir. Jeg þykist annars ekki þurfa að raða þetta frekar; sagði í fyrri ræðu minni greinilega afstöðu fjvn.

Hv. 1. þm. Árn. (MT) talaði langt mál og merkilegt um atriði, sem ekki sáust á dagskránni, svo sem gengismál og járnbrautir. — Honum og öðrum járnbrautar-burgeisum — ef jeg mætti ljá það orð frá hv. sessunaut mínum (JBald: Velkomið.) — skal jeg gera það til hughressingar að fá þeim eitt atriði til „umþenkingar“, uns járnbrautin brunar næst inn í hv. deild. Það er samtal, sem jeg átti við einn merkan mann, skólastjórann að Hólum í Hjaltadal, sem nýkominn er úr utanför. Hann sagði mjer, að hann hefði verið í hópi járnbrautarmanna, þar til hann nú kom til útlanda. Hann segir, að öll lönd kúgist nú undir járnbrautunum og að þeim gangi illa samkepnin við bifreiðarnar. Hann segir og, að fjelag eitt í Danmörku hafi gert samning um að halda aðeins uppi ferðum til næstu áramóta, auðvitað með stórtapi. Jeg veit það einnig úr annari átt, að Frakkar hafa verið að leita fyrir sjer í Ameríku um stórlán, til að breyta kolajárnbrautunum í Suður-Frakklandi í rafmagnsbrautir. Þó hafa Frakkar kolin við hendina. Það var aðeins þetta, sem jeg vildi fá hv. og hæstv. járnbrautar-burgeisum til umþenkingar. (MT: Það er enginn snjór í Suður-Frakklandi).

Jeg hefi ekki ástæðu til að segja margt við hv. 1. þm. Árn. Hann talaði nokkuð á reiki um ýmsar framkvæmdir og um afstöðu fjvn. til brtt. hv. samgmn. Vitnaði hann í því sambandi í 32. gr. þingskapanna og hafði jafnvel við orð, að nefndin ætlaði að beita ákvæðum þingskapa um þær brtt., sem misklíð hefir orðið um, og fella þær með því að greiða öll atkv. á móti þeim með nafnakalli. Fjvn. hefir ekki komið sjer saman um neitt í þá átt, og vil jeg neita þessum ummælum sem ástæðulausum í garð nefndarinnar.

Jeg man ekki, hvort jeg hljóp yfir hv. þm. Ak. (BL). Það verður þá víst að hafa það og láta nægja aðeins að minnast hans. Hann talaði sem sje um það, hvílíkur sparnaðarmaður hann væri og hve lítið hann hafi hækkað útgjaldahlið fjárlaganna. — Það má vera, að það sje smátt fyrir þeim, sem alt þykir smátt, en mjer þykir nú 100 þús. kr. nokkur upphæð auk ýmislegs fleira, en það útvegaði hann til heilsuhælis Norðlendinga. Og það verð jeg að segja, að ef allir hefðu lagt slíkt lóð á skálina, er hætt við, að vogin væri farin að hallast nokkuð mikið.