29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

1. mál, fjárlög 1927

Árni Jónsson:

Jeg get verið stuttorður, enda umr. þegar orðnar ærið langar. Jeg á hjer eina ofurlitla brtt. við þennan kafla, og er þó ekki aðalflm. Það er lítilfjörlegur utanfararstyrkur til Evu Hjálmarsdóttur, til að leita sjer lækninga. Jeg get eftir atvikum verið þakklátur hv. frsm. fjvn. (ÞórJ), þótt hann fallist ekki á hærri till., (1500 kr., því að óbundin atkv. verða í nefndinni um 1000 kr. Það er óþarft fyrir mig að fara mörgum orðum um tilefnið til þessarar málaleitunar. Háttv. samþm. minn og meðflm. (HStef) hefir lýst því svo átakanlega. En jeg vil undirstrika, að hjer getur ekki orðið um hættulegt fordæmi að ræða, af þeirri einföldu ástæðu, að við eigum því láni að fagna að geta veitt flestum okkar sjúklingum góða sjúkrahúsvist innanlands. Það verður því aðeins í óvenjulegum tilfellum, sem þarf að leita út fyrir landsteinana, þegar þörf er á sjerstakri tegund sjúkrahúsa, sem ekki eru hjer á landi. En sjúkdómi þessarar stúlku er þannig farið, að engin von er um bata hjer á landi, en allmikil erlendis. — Þessi stúlka er á besta aldri og talin mjög vel gefin, og er því sárara fyrir hana og aðstandendur hennar að eiga að horfa fram á æfilangt heilsuleysi. Skyldmenni hennar hafa lagt mikið á sig til að leita henni bata, en árangurslaust. Menn kunna kannske að halda, að þessi stúlka sje einhver umskiftingur. En því fer mjög fjarri. Jeg minnist þess, að fyrir nokkrum árum birtust oft kvæði eftir hana í austanblöðunum, og báru þau vitni um óvenjulegan þroska. — Þetta er engin upphæð fyrir ríkissjóð, en svo að segja um lífið að tefla fyrir stúlkuna. Jeg ætla að vona, að menn taki mjer ekki illa upp, þótt jeg minnist á þetta, en mjer hefir virst svo stundum, eftir mína stuttu veru á hinu háa Alþingi, að þegar fer að líða á umr. í fjárlögunum, verði sparnaðarandinn mannúðarandanum yfirsterkari.

Þá vil jeg leyfa mjer að minnast örfáum orðum á aðra brtt. Hún er frá hv. 3. þm. Reykv. (JakM), um styrk til Skúla Guðjónssonar. Þeir hv. flm. (JakM) og hv. þm. N.-Þ. (BSv) hafa nú talað allrækilega fyrir þessari till, en þó langaði mig til að bæta fám orðum við. Þessi maður, Skúli Guðjónsson læknir, hefir undanfarin ár verið studdur til náms í heilsufræði í Þýskalandi og Danmörku. Hefir hann stundað nám sitt af hinu mesta kappi og áhuga. Er hann nú forstöðumaður fyrir efnarannsóknarstofu, sem smjörlíkisverksmiðja Ottós Mönsteds á. Fæst hann þar við rannsóknir á bætiefnum í smjörlíki. En hann hefir lagt alveg sjerstaka stund á bætiefnarannsóknir, og liggur nú þegar töluvert eftir hann á því sviði. Jeg hygg því, að afarmikil þörf sje hjer heima fyrir slíkan mann, bæði vegna heilsufræðinnar og bætiefnarannsóknanna. Hann hefir t. d. komið fram með töluvert merkilega tilgátu um fjöruskjögur í sauðfje. Hann heldur fram, að það muni stafa af bætiefnaskorti í fóðrinu, og eins telur hann líklegt, að horfellir stafi meira af bætiefnaskorti en af skorti á fóðri. Það er afaráríðandi, að þetta sje rannsakað til hlítar, því að það getur haft mjög mikla þýðingu fyrir landbúnað Íslendinga.

Hæstv. forsrh. (JM) tók vel í þessa till., að mjer skildist, og gat þess, að maðurinn væri bæði duglegur og áhugasamur. Þessi ummæli vil jeg undirstrika, þar sem jeg hefi þekt Skúla lengi, frá því á námsárunum. Hefi jeg altaf dáðst að hinum mikla áhuga hans. Nú hefir hann stundað þessi vísindi árum saman og er orðinn allra manna lærðastur. Hv. frsm. fjvn. vitnaði í Læknafjelagið, að það teldi ekki þörf á þessum manni hingað. Alþingi hefir ekki litið svo á á undanförnum árum. Því að hvaða vit er í að styrkja manninn árum saman til náms, ef hann á ekki að setjast hjer að á eftir? Það er ekki þar með sagt, að það sje nein gustuk að „hjálpa“ honum, sakir þess, að honum standa allir vegir opnir erlendis. En við eigum að grípa gæsina meðan hún gefst; Skúli er nú fáanlegur til að koma heim, og vona jeg, að mönnum skiljist, að hann getur ekki beðið lengur með að taka sjer fast lífsstarf. Hann hefir talið sig bundinn til að bjóða okkur þjónustu sína, sakir þess styrks, sem hann hefir notið. En vilji Alþingi ekki taka á móti honum, er hann vitanlega laus allra mála.

Það verksvið, sem bíður hans hjer, er alveg óþrjótandi, og þekking og áhugi hans er einnig óþrotlegur. Það hefir verið haft á móti þessari fjárveitingu af sparnaðarástæðum. En jeg held, að ef málið er rannsakað betur, þá höfum við ekki ráð á að slá þessu boði frá okkur.