12.03.1926
Neðri deild: 29. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (982)

55. mál, framlag til kæliskápakaupa o. fl.

Klemens Jónsson:

Það var eitt atriði í ræðu hæstv. fjrh., sem ekki má standa ómótmælt. Hæstv. ráðherra hjelt því fram, að hv. þm. Str. (TrÞ) hefði lýst því yfir, að allur Framsóknarflokkurinn væri óskiftur með byggingu strandferðaskips. Þetta er ekki rjett. Hv. þm. Str. lýsti því yfir, að allur flokkurinn myndi eigi að síður verða með byggingu kæliskips, þó þessi till. yrði ekki samþykt. Út af þessu dró hæstv. fjrh. þá ályktun, að Framsóknarflokkurinn sýndi ekki nægilega gætni í fjármálum, hvað sem útlitinu liði. En þessum ummælum verð jeg að mótmæla. Mál þetta var rætt í samgmn., þar sem jeg á sæti, og var jeg þar á móti því einmitt af fjárhagslegum ástæðum. Taldi óvíst, að fjárhagur ríkissjóðs þyldi sem stæði þau útgjöld, sem því væru samfara. Og af sömu ástæðum þori jeg ekki að vera með till. þessari. Að þessu leyti er jeg því sammála hæstv. fjrh., en jeg verð alveg að mótmæla því, að Framsóknarflokkurinn gíni yfir hverri flugu, sem til útgjalda horfir, því að í þeim flokki eru engu síður gætnir fjármálamenn en í Íhaldsflokknum, eins og reynslan hefir sýnt.