10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

1. mál, fjárlög 1927

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg skal út af ummælum hv. þm. Str. (TrÞ) geta þess, að í gær vildi jeg sem minst tefja tímann, þar sem jeg hjelt, að þessum kafla fjárlaganna yrði lokið í gærkvöldi. Jeg hefi þegar sagt hv. 2. þm. Reykv. (JBald), sem bar fram kurteislegar fyrirspurnir, að jeg mundi svara honum við síðari kafla fjárlaganna. En úr því að svo fór, að ekki lauk fyrri kaflanum í gær, ætla jeg nú að gefa mjer tíma til að segja ofurlítið fjárlögunum viðkomandi, sem hv. 1. þm. Árn. (MT) gaf tilefni til. Það er viðvíkjandi ummælum hans um, að jeg hefði spáð kreppuári 1927, en ekki gefið ávísun á annað til að bæta úr því en tímann.

Jeg skal taka það fram fyrirfram í sambandi við þetta, að jeg get ekki komist hjá að minnast á gengismál, og er jeg þó ragur við það nú, því að jeg hefði kosið að halda vinskap við hv. þm. Str. (TrÞ), sem er frsm. fjvn., og vil því forðast alt, sem leitt getur til misklíðar okkar í milli, eins og nú stendur.

Jeg hefi látið í ljós þá skoðun mína, að árið 1927 verði kreppuár, og einkum tekjurýrt ár fyrir ríkissjóð. Jeg finn ástæðu til að gera nokkra grein fyrir því, á hverju jeg byggi þetta.

Árin 1924 og 1925 hafa að ýmsu leyti hagað sjer líkt og uppgangsárin 1919 og 1920. Það kom fjörkippur í atvinnuvegina árið 1919, þegar meðal annars losnaði um viðskiftin við umheiminn. Þetta hjelst fram eftir árinu 1920, en þá skall á mikið verðfall og harðari fjárkreppa en menn eiga að venjast. En á undan kreppunni voru gengnir nokkrir greinilegir fyrirboðar. Það fyrsta, sem jeg held að hafi gefið bendingu um breytinguna, var markaðurinn fyrir íslenska síld. Jeg hygg, að árið 1919 hafi hann svikið alveg. Næstum samtímis sveik markaðurinn fyrir íslenskan saltfisk, af því að eftirspurnin var ekki nægileg. Þá barst fregn frá Bandaríkjunum um að byrjað væri hrun verðbrjefa í kauphöllinni. Þetta var sumarið 1920, og menn vita, hvernig það endaði. Af þessu leiddi kreppu, sem var hörðust fyrsta árið, en stóð yfir í 3 ár, 1921, 1922 og 1923, og það var fyrst eftir þessi 3 ár, að markaður fyrir fiskinn var búinn að ná sjer svo, að möguleikar voru fyrir verðhækkun.

Það, sem fyrst hefir brugðist nú, er síldarmarkaðurinn. Það kom í ljós snemma í haust, að illa gekk að selja nokkurn hluta síldarinnar; því miður þann hluta hennar, sem lá í íslenskum höndum. Síðan brást fiskmarkaðurinn.

Eftirspurnin hvarf af hinum venjulegu ástæðum, og nú er svo komið, að verðið á öllum okkar útflutningsfiski er fallið langt niður fyrir það verð, sem var á honum 1924 og 1925, og meira að segja, langt niður fyrir meðalverð. Þegar jeg tala um verðfall, meina jeg verðfall í gulli eða sterlingspundum, án tillits til þess, hvort við skiftum þeim sterlingspundum, sem við fáum, í fleiri eða færri íslenskar krónur.

Jeg skal þá, til þess að skýra þetta með tölum, taka verð stórfiskjar. Fyrir ári síðan var stórfiskur seldur á 8½–9 £ skp. Eftirspurnin var þá fjörug fyrst fram eftir árinu, og mátti þá selja fyrstu framleiðsluna eftir hendinni jafnóðum og fiskurinn þornaði í húsum og á reitum. Eftir því sem talið var meðalverð á stórfiski fyrir stríð í gulli og eftir þeim breytingum, sem orðið hafa á kaupmætti gullsins síðan, þá ætti meðalverðið að vera nú um 7½ £ skp.

En hvað er verðið í dag?

Að svo miklu leyti, sem varan er seljanleg, þá fæst ekki meira en 5½ £ fyrir skp.

Þetta er kreppa í viðskiftalífi þjóðarinnar, þegar önnur eins vara og stórfiskur fellur á einu ári úr 9 niður í 5 £ á skp. Og svona skörp sveifla hefir víðtæk áhrif í þjóðfjelaginu og hlýtur sjerstaklega að koma niður á tekjum ríkissjóðs. Þessi áhrif koma ekki aðeins í ljós á því ári, sem sveiflan skellur á, heldur gætir þeirra ekki síður árið eftir, þegar tekjuskattar eiga að greiðast af tekjum umliðins árs. Og um gjöld af aðfluttri vöru er nú svo farið, að lækkun þeirra kemur að mestu fram árið eftir, og það af þeirri einföldu ástæðu, að kanpmáttur einstaklinganna miðast við afkomuna næsta ár á undan.

Það vantar heldur ekki, að borist hafi fregnir frá Bandaríkjunum, hliðstæðar því, sem gerðist árið 1920. Með stuttu millibili hefir verið símað tvisvar, að stórkostlegt verðfall og hrun væri í kauphöllinni í New-York. Og síðustu fregnir herma, að eftirspurn eftir innlendum vörum fari mjög minkandi. Er hjer ef til vill byrjuð víðtækari fjárkreppa í heiminum en nokkur gerir sjer í hugarlund.

En hvað hún standi lengi þessi kreppa, skal jeg ekkert fullyrða um. Jeg er enginn spámaður, en hinsvegar hefir reynslan verið sú, að á venjulegum tímum, þegar peningagildið var fast, taldist svo til, að sveiflan stæði yfir í 7–10 ár. Þ. e. m. ö. o. uppgangs- og krepputímabilið talið að standa í 7–10 ár samanlagt. Hitt er sennilegt, og dregið af ýmsum líkum um mörg lönd, sem búa við ógullvarinn gjaldeyri, að þar verði sveiflan hraðari. Og hjá okkur hefir reynslan verið sú, að seinasta sveiflan hefir ekki tekið nema 5 ár.: Kreppan 3 ár og uppgangstíminn 2 ár. Menn gætu nú vonað, að Krepputíminn stæði eitthvað skemur en 3 ár, en það er engin skynsamleg ástæða fyrir því að ætla, að hún standi svo stutt, að hennar gæti ekki í fullum mæli gagnvart tekjum ríkissjóðs árið 1927.

Það er þetta, sem jeg bið hv. þdm. að hafa í huga við afgreiðslu fjárlaganna. Útgjöldin í frv. nú eru 2½ miljón kr. hærri en þau voru áætluð í fjárl. fyrir árið 1925.

Jeg ætla ekki að fara út í gengismálið, en get þó ekki látið vera að segja það, að mjer finst stundum, að þeir menn, sem tala hæst um gengi peninga okkar, gleymi því, að það hefir fleira gerst en að ísl. krónan hækkaði. Verðfalli stærstu útflutningsvöru okkar úr 9 í 5½ £ á skp. verður ekki gengið framhjá, ef lýsa á með rjettu högum þjóðarinnar á þessum tímum, en það verðfall er genginu óviðkomandi.

Jeg lofaði því í gær, eftir að hv. 1. þm. Árn. (MT) hafði flutt sína löngu ræðu, sem öll var utan við það mál, sem þá var til umr., að minnast ekki á járnbrautarmálið fremur en gengismálið, á meðan verið væri að ræða um fjárlagafrv. og þær brtt., sem fyrir liggja. Jeg vil líka fara varlega og vænti að eiga vingott við hv. frsm. fyrri hl. (ÞórJ), þegar greiða á atkvæði um brtt. þær, sent fyrir liggja, og til þess að spilla ekki því góða samkomulagi, ætla jeg ekki að fara inn á járnbrautarmálið nú, svo neinu nemi. En af því að hann hreyfði þessu máli, vona jeg, að mjer mætti leyfast að fara örfáum orðum um það, og er það þá sjerstaklega eitt atriði, sem gefur tilefni til þess.

Hv. frsm. (ÞórJ) vitnaði í það, að ungur búnaðarskólastjóri og eldheitur járnbrautarmaður hefði farið til útlanda, en væri nú eftir heimkomu sína horfinn frá fyrri skoðunum sínum og væri á móti því, að við komum upp járnbraut. Já, það er vitanlega lítið við þessu að segja. Það er misjafnt, hvað menn eru greiðir að hafa skoðanaskifti í þeim málum, er þeir hafa hugsað um, og fer eftir því, hve vel þeir hafa vandað rök fyrir sinni fyrri skoðun. Þessi hv. skólastjóri hefir að sjálfsögðu haft sína fyrri skoðun rökstudda, og kemur þá til athugunar, hvað veldur því, að hann skiftir skoðun, og með hvaða rökum hann styðji það.

Eftir því, sem hv. frsm. fórust orð, voru það aðallega tvær ástæður, sem þessi skólastjóri kvaðst byggja á þá skoðun sína, að Íslendingar ættu ekki að taka upp járnbrautir. Fyrri ástæðan var sú, að sem stendur væru Frakkar að taka stórlán til þess að breyta járnbrautum sínum í rafmagnsbrautir, og er það í sjálfu sjer ekkert undarlegt, því það er þó oftast talin að vera framför á því sviði, þegar ríkin eða fjelög einstakra manna sjá sjer fært að breyta kolabrautum í rafmagnsbrautir. Hin ástæðan var litlu betri; hún var sem sje sú, að skólastjórinn hafði heyrt um eitt járnbrautarfjelag, að það ætti í basli og fjárhagsvandræðum, og með því átti þá að vera sýnt og sannað, að járnbraut mundi aldrei bera sig hjer.

Þessar ástæður eru þá þann veg, að hvorki skólastjórinn eða hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) geta vænst þess, að þær breyti skoðun þeirra manna, sem annars trúa á rjettmæti járnbrauta, og ekki síst vegna þess, að þeir vita, að á öllum Norðurlöndum er hvergi reynt að komast af með bílveg eingöngu, þar sem eins mikil flutningaþörf er og á sjer stað milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, og það enda þótt hægt sje að nota veginn árið um kring, sem hjer kæmi ekki til greina. Því hvað góður og fullkominn, sem bílvegurinn væri, mætti þó ekki gera ráð fyrir, að hann yrði fær alla leið austur yfir fjall nema kannske rúmlega hálft árið, og stundum ekki það.

Út frá slíkum forsendum sýnist mjer, að draga megi þá ályktun, að þessi seinni skoðun skólastjórans muni ekki á það góðum rökum bygð, að hann geti ekki auðveldlega breytt um skoðun enn.

En úr því hv. frsm. fór að segja þessa sögn, langar mig að rifja upp aðra. Það var einu sinni þingmaður, sem hafði góða trú á áveitum. Hann var barn sinnar aldar og trúði því, sem hann og aðrir höfðu sjeð og þreifað á: að óbrigðulasti og grasgefnasti reiturinn, sem hann vissi deili á, var Safamýri, og alt það grasflæmi hafði komið upp úr ófrjóu landi fyrir fáum mannsöldrum. Hann vissi líka, að mannshöndin hafði ekki verið þar að verki og hjálpað ræktuninni á veg. Náttúran sjálf hafði sent vatnsföll og jökulleðju yfir svæðið og frjóvgað það svo, að þessi akur brást aldrei hverju sem viðraði — jafnvel grasleysissumarið 1882, þegar bestu tún brugðust og varla vottaði fyrir gróðri á óræktaðri jörð, stóð Safamýri í fullum blóma og vafin grasi.

En svo kom að því, að þessi þm., sem jeg kannast við að var barn sinnar aldar, las ritgerð eftir mann, sem hann hjelt að væri lærðari en hann sjálfur, og í þessari ritgerð stóð meðal annars það, að jökulvötn flyttu ekki með sjer köfnunarefni. Og þetta hafði þau áhrif á þm., að hann misti algerlega trúna á áveitur þær, sem jökulvatn rynni um. En þetta er ekki nóg fyrir okkur hina, sem höfum aldrei búist við því, að jökulvatn flytti með sjer köfnunarefni sem neinu nemur, en sjáum samt dæmi þess, að grasvöxtur bregst aldrei þar, sem jökulárnar flæða yfir. Og við skiftum ekki um skoðun, þótt við lesum svona ritgerð. Við vitum, að þrátt fyrir allan lærdóm mannsins, hefir hann ekki rannsakað, af hverju það stafar, að graslitlar þjóttumýrar hafa breyst í sjálfsveitusvæði eins og Safamýri, sem aldrei bregst.

Þá ætla jeg að víkja örlítið að því, sem fyrir liggur í fjárlagafrv. Jeg hefi hent á það áður, að frv. eins og það kom frá stjórninni fer fram á, að meiri og hærri upphæðir verði veittar til verklegra framkvæmda en nokkru sinni áður.

Mjer skildist á orðum hv. þm. Ak. (BL), að hann væri þeirrar skoðunar, að óvarlega sje farið hjá stjórninni að gera frv. svo úr garði. Stjórnin hafi gengið fulllangt í fjárveitingum til verklegra framkvæmda og ekki skilið eftir nóg svigrúm handa hv. þm., svo þeir geti fengið sínar óskir uppfyltar.

Þessu verð jeg að mótmæla. Stjórnin varð að álíta rjett að taka upp í frv. svo mikið fje til verklegra framkvæmda, sem fjárhagurinn framast þyldi, og vildi í því efni fara meira eftir tillögum óhlutdrægra framkvæmdarstjóra ríkisins og annara trúnaðarmanna heldur en eftir till. einstakra hv. þm.

Í því sambandi vil jeg benda á það, að frv. er þann veg samið, að þeir, sem vilja bera fram forsvaranlegar hækkunartill., verða að koma með á móti tilsvarandi lækkunartill. á öðrum liðum. M. ö. o., þeir verða að fella niður þá liði, sem þeir álíta, að megi bíða, en setja annað í staðinn, sem að þeirra dómi þolir enga bið.

Hitt álít jeg órjett og hættulegt, að það verði föst þingvenja, að hv. þm. geri eins og í fyrra, er ekki komu fram aðrar breytingar á fjárlögunum í þinginu en hækkanir á útgjöldum með tilsvarandi hækkun á tekjuáætlun. Sú hugsun á að ráða, að hækka og lækka útgjaldaliði frv. jöfnum höndum, en forðast hitt, að bera fram einhliða gjaldaukatill. á kostnað teknanna. Jeg verð að álíta það eðlilegra eins og frv. er samið, að hv. þm. leituðu eins mikið eftir, hvað mætti lækka eða fella niður í útgjöldunum eins og hitt, að miða allar till. sínar við aukin gjöld og nýjar hækkanir.

Það hafa komið fram till. um hækkun rekstrarkostnaðar sýslumannaembætta og flóabáta. Þegar stjórnin samdi frv. var krónan nýhækkuð, og jeg skal játa, að jeg var í vafa um, hvort ekki ætti að taka afleiðingarnar af þessari hækkun, hvert ekki ætti að lækka tilsvarandi rekstrarútgjöld opinberra stofnana, svo sem spítala, skóla o. fl. þ. h., því vænta má lækkandi útgjalda með lækkandi dýrtíð.

En þó að þetta væri ekki gert, að lækka þessi rekstrarútgjöld nú, verða menn að gera sjer ljóst, að sú lækkun verður að koma fram á næsta ári. Það á ekki að valda tjóni, þó að hún sje ekki tekin upp í þetta frv., en hún verður þá að koma fram í því fjárlagafrv., sem lagt verður fyrir þingið 1927.

Vegna þessa er það því varhugaverðara að bera fram till. um hækkun rekstrarkostnaðar nú. Þetta segi jeg þó ekki vegna sýslumannanna. Mjer er kunnugt um, að þeir hafa verið vanhaldnir að undanförnu, launin lág, en störfin aukin. En þegar farið er fram á meiri hækkun á rekstrarkostnaði flóabáta en hæstv. atvrh. (MG) vill vera láta, þá þykir mjer það ekki vera rjett. Rekstrarkostnaður flóabáta á að verða lægri 1927 en undanfarin ár, og það af þeim ástæðum, að margt, sem til rekstrarins er notað, hefir fallið í verði. Því er óþarft og óeðlilegt að hækka styrk fyrir sama rekstur flóabáta og verið hefir áður. Þess vegna legst jeg á sveif með hæstv. atvrh. og legg til, að hv. þdm. felli þessa till. um hækkun á styrk til flóabáta. Aftur á móti læt jeg liggja milli hluta, hvort veita á fje til þess að setja nýja vjel í skip eða þá til skipakaupa. Slíkt er alt annars eðlis, og má vel vera, að sje á fullum rökum bygt.

Jeg veit, að það er hart að mæla á móti fjárframlögum til símalagningar eins og þeirri, sem hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) flytur. En þó má ekki gleyma, að í frv. er fyrir óvenjumikil fjárveiting til síma — um 330 þús. kr. — sem ætlast er til, að komi að talsverðu gagni því hjeraði, sem þessi hv. þm. ber mest fyrir brjósti. Þessi nýja lína, sem á að leggja, kemur til að ljetta til stórra muna á þeirri línu, sem liggur nú frá Borðeyri og til Ísafjarðar, svo að greiðara verður um alla afgreiðslu heldur en áður. Jeg hefi líka veitt því eftirtekt, að forsvarsmenn þessara hjeraða hafa farið fram á aukinn símakostnað árið 1928, og mætti þá koma til álita, hvort ekki mundi hægt þá að fullnægja þessari beiðni hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), enda er þetta svo stór upphæð, að mjer finst ekki rjett, að hún nái samþykki nú á þessu þingi.

Í sambandi við það, sem sagt var um að Vestfjarðalínan væri ofhlaðin, þá vil jeg geta þess, að landssíminn er kominn inn á þá braut að auka þræði á línum og telja með rekstrarkostnaði. Er þetta mjög eðlilegt, enda mundi hvert einstakt fyrirtæki fara svo að, því með því er verið að gera sambandið greiðara og tryggara. Mundi þá, ef tregða yrði á símaafgreiðslunni í Ísafjarðarsýslu, ef til vill mega bæta við aukaþræði, án þess að fje til þess stæði í fjárlögum.

Um hinar smærri brtt. ætla jeg ekkert að segja. En þeirri áskorun vildi jeg leyfa mjer að beina til hv. þdm., að þeir sjeu hv. fjvn. samtaka um það að standa móti þeim hækkunartill., sem hún er einhuga um, að ekki fái fram að ganga.