21.03.1927
Efri deild: 33. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Magnús Kristjánsson:

Jeg vil leyfa mjer að segja nokkur orð, áður en þetta mál fer endanlega út úr deildinni.

Jafnvel þó að orðið hafi nokkrar misfellur á meðferð þessa máls, leit jeg samt svo á þegar í upphafi, að ekki væri heppilegt að gera það að flokksmáli. Þarf margt að takast til greina bæði með og móti.

Jeg get verið sammála hv. 1. landsk. (JJ) um það, að æskilegast sje, að þeir, sem völdin hafa, landsstjórn og bankastjórnir, fari gætilega í lántökur. Jeg hefi áður gert grein fyrir því, á hverju sú skoðun mín byggist. En til álita kemur eðlismunur hinna ýmsu lána. Því verður ekki mótmælt, að hann er mikill. Við skulum líta á þetta reikningslán, sem sumum stendur stuggur af, því upphæðin er nokkuð há á pappírnum. En það er meira í orði en á borði, þótt óspart sje notað til þess að hafa áhrif á hugi kjósenda. Mjer finst í slíku falli sem þessu þurfi að skýra frá því rjett og nákvæmlega, hvers eðlis lán það sje, er ríkið stendur á bak við eða ábyrgist.

Jeg álít, að lán, sem ríkið tekur til nauðsynjafyrirtækja, verði þjóðinni til hagsældar, t. d. lán, sem varið er til verðbrjefakaupa, veðdeildar o. s. frv. Það er undarlegur hugsunarháttur að vilja gera mikið úr, hvað það sje hættulegt. Mjer er spurn: Hvaðan vænta menn framfara, ef ekki má taka lán, sem menn eru sammála um að verja til frambúðarfyrirtækja og nytsemda? Jeg hygg þau sjeu ekki mörg lánin, sem ekki er þannig varið. Að minsta kosti er jeg ekki svo ýkjasvartsýnn á því sviði.

Þá er að athuga bankalánin. Mjer skilst þau vera tvenskonar, þótt ekki sje gert ráð fyrir, að nein lán, sem bankarnir taki, verði beinlínis að eyðslufje. Þau geta verið bæði föst og laus, eða með öðrum orðum tekin til lengri eða skemri tíma. Ef við tökum hin eiginlegu lán Landsbankans, eru þau eins og kunnugt er: hans hluti af enska láninu og 4 milj. kr. lán síðar. Jeg álít þessar lántökur ekki hættulegar. Það er enginn vafi á, að bankinn er þess megnugur að standa straum af vöxtum og afborgunum. Ennfremur hafa þessi lán komið einhverjum að gagni, orðið nauðsynlegum fyrirtækjum að liði. Jeg sje því ekki ástæðu til að óttast þessi lán.

Þá koma lausu lánin. Um þau er mjer ekki eins fullkomlega kunnugt. En það er ekki upplýst, að laus lán Landsbankans fari fram úr 4–5 milj. króna. Og þegar þess er gætt, að jafnan er nokkurt handbært fje erlendis og á hverjum tíma eru fyrirliggjandi innanlands verðmæti í afurðum, sem hægt er að koma í verð með stuttum fyrirvara, og ef það er rjett, að nú sje fyrir hendi sem svarar 4 milj. kr., þá verður ekki annað sagt en hagur hans sje í besta lagi og viðskiftum hans við útlönd vel borgið.

Þá er þessi margumtalaða lánsheimild, sem hjer er um að ræða og skoðanir manna skiftast um. En skoðanamunurinn um það, hvort heppilegt eða æskilegt sje, að hún verði veitt, er ekki gerður að aðalatriði, heldur aðferð, sem mátt hefði vera á annan veg en orðið er. Jeg skal þá víkja að því, hvernig jeg lít á þessa lánsheimild. Jeg fæ ekki betur sjeð en að hún sje fyrst og fremst hættulaus og þar næst þarfleg. Það hefir verið fundið að, að hún væri óþarflega og ótilhlýðilega há. Það er sem sje opinbert leyndarmál, að upphæðin sje um 9 milj. kr. Það má vel vera, að hún sje óþarflega há. En eftir eðli lánsins, þar sem um reikningslán er að ræða, geng jeg út frá því, að heimildin yrði ekki notuð út í æsar og aldrei fram yfir það, er ýtrasta nauðsyn krefur. Gagnið af heimildinni álít jeg í því fólgið, er nú skal greina: Svo er háttað hjer á landi, að öll framleiðsla afurða, hvort heldur er til lands eða sjávar, tekur langan tíma frá fyrsta tilkostnaði og þar til þeim er endanlega komið í peninga. Ef nú engar tryggingarráðstafanir eru fyrir hendi og erlendum kaupsýslumönnum, er hafa nú eða í framtíðinni viðskifti við landsmenn, er það kunnugt, að fjárhagurinn sje svo þröngur, að bankarnir hafi ekki ráð á fje til þess að hjálpa atvinnurekendum til að greiða áfallinn kostnað, þá er hætta á, að þeir sjái sjer leik á borði að bjóða svo lágt verð fyrir afurðirnar, að smánarboð megi kalla. Þessi yfirvofandi hætta hefir ráðið mestu um afstöðu mína til málsins. Fyrir mjer er hún aðalástæðan.

Jeg álít jafnframt rjett að geta þess, þótt þess þurfi ekki með, því að hv. þm. eiga sjálfir að vera færir um að gera sjer grein fyrir afleiðingum bæði þessa máls og annara, að það er fjarri því, að verið sje að stofna bönkunum í hættu með þessu. Því að þeir hafa á flestum tímum næga trygging í verðmætum, þar sem þeir eiga ráð á óseldri vöru, sem nemur að verðgildi að minsta kosti tvöfaldri þeirri upphæð, sem hjer er farið fram á. Það er því ekki að neinu leyti varhugavert.

Jeg vildi gjarnan komast hjá að vera mjög langorður, en fæ þó ekki komist hjá að minnast örfáum orðum á samband Íslandsbanka og ríkisins.

Þegar enska lántakan var í undirbúningi, leit jeg svo á, að æskilegast væri að komast hjá henni og lengra væri gengið en nauðsynlegt var. En með því að lánið var tekið og fjell mest í skaut Íslandsbanka, er sambandið milli hans og ríkisins orðið svo náið, að ekki verður hjá því komist, að ríkisstjórn og löggjafarvald hafi talsvert mikinn íhlutunarrjett um starfsemi hans. Eins og allir vita, er ákvæðið um stjórnskipuðu bankastjórana sett með hliðsjón af þessu. Það var mönnum ljóst, að til mála gæti komið, að ríkið yrði að taka stofnunina í sínar hendur.

Eins og öllum er kunnugt, hefir hagur bankans mjög þrengst, eins og ekki er óeðlilegt, þar eð fje hans hefir mjög gengið til þurðar upp á síðkastið, af því að innlánsfjeð hefir gengið í aðrar áttir en áður.

En þegar alls er gætt, álít jeg, að ekki sje auðhlaupið að því að láta þessa stofnun sigla sinn eiginn sjó úr því sem komið er og láta hana afskiftalausa, er á reynir. Jeg hygg, að menn hljóti að mega treysta því, að hinir stjórnskipuðu bankastjórar telji það sína æðstu skyldu að gera þingi og stjórn viðvart, hvenær sem um hættu gæti verið að ræða. Jeg fyrir mitt leyti treysti því.

Það er ekki þar með sagt, að heppilegt eða æskilegt sje, að ríkið veiti honum ótakmörkuð lán, hvort heldur er með beinum lántökum til hans eða gegnum Landsbankann, heldur er því slegið föstu, að ábyrgjast verði honum eitthvert starfsfje á næstu árum. Aðalatriðið er að komast að fastri niðurstöðu um hag stofnunarinnar og það, hversu langt þarf að ganga til þess að veita henni nægilegan stuðning. Sem sagt verður að bera það traust til hinna stjórnskipuðu bankastjóra, að þeir sjái hvað líður og geri viðvart, ef hætt er komið. Það er líka sú hlið á málinu, sem nú er að koma allgreinilega í ljós, að Íslandsbanki virðist hafa sjeð sig knúðan til þess að ganga allhart að viðskiftamönnum sínum og innheimta lán með harðri hendi. Jeg tilfæri engin dæmi, en þetta gefur bendingu um, að tími sje til þess kominn að gera sjer ljóst, hvort fært sje að styðja hann verulega meir en orðið er, án þess þing og stjórn geri aðra skipun á fyrirkomulagi hans. Því þó að Landsbankinn hafi mjög gott traust í útlöndum, álít jeg dálítið varhugavert, að hann taki þar lán á lán ofan um fram það, sem hjer er um að ræða. Jeg er ekki að segja, að þessi lántaka sje varhugaverð, en ef svo skyldi verða álitið, að í náinni framtíð þyrfti að taka meira lán til þess að veita Íslandsbanka hluta af því, þá gæti jeg ekki verið því fylgjandi nema fyrir lægju frá ríkisstjórninni nákvæmar upplýsingar um hag bankans og fyrirhugaðan rekstur hans í framtíðinni.

Jeg þykist nú hafa gert grein fyrir því, hvers vegna jeg er þessari lánsheimild fylgjandi. En það er óþarfi að líta á fylgi mitt við þetta mál sem traustsyfirlýsingu til núverandi stjórnar, því að jeg álít, að ríkisstjórnin eigi að hafa sem allra minst áhrif á stjórn Landsbankans að því er lánveitingar snertir, enda hygg jeg líka, að hún hafi ekki beitt sjer mikið í því efni og muni ekki leggja stund á það í framtíðinni. Hitt væri nær sanni að segja, að þeir, sem greiða atkvæði með málinu hjer, veiti stjórn Landsbankans fulla traustsyfirlýsingu. Að afgreiða málið með það fyrir augum, að þörf sje á þessari heimild og ekki stafi af henni hætta, — í því liggur fullkomin traustsyfirlýsing til Landsbankastjórnarinnar.

Jeg þarf svo ekki að eyða um þetta fleiri orðum og mun leiða hjá mjer frekari umræður, nema sjerstakt tilefni gefist.