21.03.1927
Efri deild: 33. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg þarf ekki að svara hv. 5. landsk. (JBald). Það, sem háttv. þm. sagði í aths. sinni við 2. umr., og það, sem hann hefir sagt nú, er ekki annað en endurtekningar, sem búið er að hrekja. Jeg sný ekki aftur með það, að það var ógætnisverk af honum, er hann gerði sig beran að þeirri mótsögn, er hann gaf bankastjórn Íslandsbanka traustsyfirlýsingu og vottorð um óhlutdrægni, en spann síðan upp hlutdrægnissögu um þessa bankastjórn viðvíkjandi útgerðinni á Ísafirði. En með þessu ógætnisverki hv. þm. sannaðist málshátturinn: Skýst þótt skýrir sjeu. Og þegar of mikið er talað, þá er hætta á, að samræmið vanti. Gæti nú háttv. þm. dregið þann lærdóm af þessu, að tala færri orð framvegis í málunum, þá gæti hann sneitt hjá svona mótsögnum.

Þá endurtók hv. þm. þá staðhæfingu, sem hefir verið harðlega mótmælt, og sem meðbróðir hans, hv. 1. landsk. (JJ), líka hefir endurtekið, að stjórnin eða fjrh. hafi ráðstafað nokkru af fje því, sem hugsanlegt er, að stjórn Landsbankans taki til láns. Jeg hefi sagt það og segi enn, að stjórnin hefir engu ráðstafað og að ráðstöfun fjárins sje eingöngu á valdi bankastjórnarinnar. Þá talaði hv. þm. um, að þetta væri lánsheimild handa Landsbankanum. Það er fullkominn misskilningur, að svo sje. Bankastjórn Landsbankans er gefin full heimild til að taka lán með lögum 18. sept. 1885. Hún hefir aldrei þurft að koma til þingsins í slíkum erindum, því hún hefir ótakmarkaða heimild til lántöku. En hjer er aðeins um að ræða heimild til ábyrgðar ríkisstjórnarinnar á tilteknu reikningsláni.

hv. þm. lýsi vantrausti á stjórninni, það finst mjer ekkert undarlegt; jeg mundi ekki óska eftir neinni annari yfirlýsingu frá honum. Og jeg skal geta þess — þótt það sje of snemt — að þegar hann er kominn í stjórnarsess, þá má hann vera viss um, að jeg geri honum sömu skil. Annars verð jeg að segja það, að afstaðan til þessa frv. verður að fara eftir því, hvort Alþingi ber traust til stjórnar Landsbankans til þess að fara með þetta fje eða ekki. Þetta traust verður ríkisstjórnin að bera til stjórnar Landsbankans, sjerstaklega þó þegar þess er gætt, að hann á að verða seðlabanki ríkisins. Það verður að vera hægt, án tillits til flokkaskiftingar, að bera fult traust til bankans. Jeg ætla ekki að fara út í hugleiðingar hv. þm. um lenging vinnutímans í Þýskalandi. En jeg vil aðeins segja það, að haldi hv. þm., að það hafi verið gert til að minka framleiðsluna, þá skýst honum hraparlega. Það sýndi dugnað og þrek þjóðarinnar að grípa til slíks þegar að krepti.

Þá ætla jeg að víkja nokkrum orðum að hv. 1. landsk. (JJ). Hann hjelt langa ræðu við 2. umr., sem jeg ætla að svara aðeins að litlu leyti.

Fyrst talaði hann um sína dýrð. Svo talaði hann um, að hann hefði fengið efnið í frv. sitt annarsstaðar frá. En hvað það er mikil dýrð! Það er von, að hv. þm. sje hreykinn af henni! Svo fór hann að tala um byggingar- og landnámssjóðsfrv. sitt; þar væri hann skrýddur sínum eigin fjöðrum. En það verð jeg að segja, að það frv. er sjerkennilegt fyrir þennan hv. þm. Hann tekur mál, sem hann veit, að er mál allrar þjóðarinnar, að auka ræktun landsins með tilliti til fjölgunar sveitabýla, setur saman frv. um það, sem er svo illa samið, að ótrúlegt myndi alstaðar þykja, hvernig tekist hefði að senda mann á þing, er sýndi svo mikinn skort á hæfileika til að bera fram mál, að hann beinlínis óvirti það. En þegar svo aðrir menn koma fram með skynsamlegar till. í sama máli, segir hv. þm.: Sko, hvað jeg er mikill, þeir eru að taka upp eftir mjer. — Þetta er ekkert annað en tilraun til að skreyta sig með annara fjöðrum. Hv. þm. getur engum vilt sýn um það, að nokkur skynsamleg lausn þessa máls eigi nokkra rót að rekja til endemis frv. þess, er hann flutti málinu til spillingar fyrir nokkrum árum.

Þá hefir hv. þm. í þessum tveim ræðum gert tilraun til að láta líta svo út, sem hjer væri um að ræða lántöku handa ríkissjóði, hjer væri verið að halda áfram því, sem gerðist á árunum 1917–1923, að taka lán til að borga tekjuhalla ríkissjóðsins. Hann hermir það upp á mig, að jeg hafi á fundum á Austurlandi sett það fram sem stefnuskrá Íhaldsflokksins, að landið yrði skuldlaust 1943. Þetta hefi jeg ekki gert. En jeg sagði, að ef við gætum borgað lausu skuldirnar og við stæðum við aðrar greiðsluskuldbindingar ríkissjóðs án þess að taka ný lán, þá yrði ríkissjóður skuldlaus 1943. En jeg hefi ekki sett það fram sem stefnumark, að hann skyldi vera skuldlaus þá. Hafi það verið sett fram einhversstaðar, þá hefir mínum orðum verið vikið við. Það getur margt drifið á dagana og of snemt að spá, hvað verði 1943, enda óvíst, hvort rjett sje að keppa að því, að ríkissjóður verði þá algerlega skuldlaus. En hitt er stefna Íhaldsflokksins, að varna hleðslu skulda á ríkissjóðinn og að taka ekki lán nema til arðvænlegra fyrirtækja. Hjer er alls ekkert lán til ríkissjóðs um að ræða, hjer ræðir aðeins um það, að tryggja, að atvinnuvegirnir kyrkist ekki af fjárskorti. Og það get jeg sagt háttv. þm., að illa hefir hann skilið stefnu Íhaldsflokksins, ef hann heldur, að flokkurinn geti horft upp á það, að atvinnuvegirnir kyrkist vegna fjárskorts. Það er annað aðalatriðið í stefnuskrá Íhaldsflokksins að efla atvinnuvegi þjóðarinnar. Það má vera öllum vitanlegt, að í landi, sem hefir miklar auðsuppsprettur, en hefir tekið við litlum fjármunaarfi af forfeðrunum, verður ekki komist hjá því að byggja atvinnuvegina upp með erlendu fje að nokkru leyti, er látið er renna beint til þeirra, en ekki látið í ríkissjóð til afskifta þeirra manna, sem kunnir eru að því að vilja fara djúpt í ríkissjóðinn til hins og þessa, sem þeim býður svo við að horfa. Hv. þm. má gjarnan taka þetta til sín, því að hann ber ekkert skyn á hina fjárhagslegu hlið málanna. En slíkar ráðstafanir og þær, sem frv. fer fram á, eru í fullu samræmi við stefnu Íhaldsflokksins, og jeg held jeg megi fullyrða, að þær sjeu ekki í ósamræmi við stefnu neins stjórnmálaflokks í landinu. Og þar sem hv. þm. lýsir því sem stefnu síns flokks að vera á móti þessu máli, þá held jeg, að hann sje einn um þá skoðun.

En hitt verða menn að geta horft upp á, að misjafnt ári fyrir atvinnuvegunum. Menn mega ekki fyllast ljettúð, þótt stundum gangi vel; en það er erfitt fyrir marga að verjast því að eyða þá of miklu. Hitt er jafnslæmt, að gefast upp, þótt móti blási. En það vill háttv. þm., ef nokkuð er að marka hans mörgu orð. Af því að nú er þröngt í búi hjá atvinnuvegunum og þeir geta ekki skilað öllu lánsfje sínu, vill hann láta herða snöruna að hálsi þeirra. En allir, sem þessu máli eru fylgjandi, geta skilið það, að rjett sje að þrauka fram úr erfiðu árunum og halda öllum heilbrigðum fyrirtækjum lifandi. Svo koma góðu árin og þau munu skila svo miklum tekjuafgangi, að hann geti borgað halla erfiðu áranna og meira til. Svo mun fara nú. Það getur farið svo, að í staðinn fyrir þá óglæsilegu mynd, er hv. þm. dró upp af gjaldþrotum, vesöld, hörmungum og hruni, fái hv. þm. að sjá framan í aðra mynd, þjóðinni kærkomnari en ef til vill honum sjálfum.

Jeg ætla að láta ótalað um alt umtal hv. þm. um stjórnarskrárbrot í sambandi við þetta mál. Það hefir enginn minst á það annar en hann. Það er augljóst, að háttv. þm. kemur með þetta af eintómri fátækt af árásarefnum á stjórnina, aðeins til þess að álasa stjórninni fyrir eitthvað, sem hún hefir ekki gert. Það er sannarlega öfundsvert hlutskifti, sem stjórnin hefir, að andstæðingar hennar verða altaf að gefast upp við að finna árásarefni á hana. En þegar svo er komið, verða þeir að búa sjálfir til fjarstæðar hugmyndir um eitthvað, sem stjórnin á að hafa gert, og nota þær svo sem árásarefni. Svo ráðast þessir veslings þm. á sín eigin afkvæmi.

Þá hafa þeir báðir hv. 1. landsk. og hv. 5. landsk. haldið því fram, að hjer væri verið að taka lán handa Landsbankanum, er hann þyrfti ekki með. Það væri nú út af fyrir sig ekkert ódæði, þótt bankanum væri trygt fje, sem hann þyrfti ekki. En hann á ekki svo mikið fje inni erlendis, að rjett væri þess vegna að hindra þessa lántöku. Háttv. þm. segja, að hann eigi óeyddar 4 milj. af lánstrausti sínu erlendis. Sveiflurnar eru stærri en það, að hægt sje að fullyrða, að 4 milj. sjeu nægilegar í ársbyrjun. Hjer við bætist, að Landsbankinn hefir 2 milj. kr. af sínu lánstrausti hjá Landmandsbanken, og því er ekki að treysta, að sá banki geti látið Landsbankann fá sömu upphæð áfram. Högum þess banka er svo háttað, að verið er að kreista hann saman með innheimtu útistandandi skulda, vegna tapa hans, sem talið er að nemi um 500 milj. kr. Að vísu eru í veltunni eftir um 700 –800 milj. kr., en eftir svona mikil töp er eðlilegt, að bankinn þurfi að kippa að sjer hendinni með útlán. Það væri því ógætilegt að ganga svo á móti þessu máli, að Landsbankanum væri ekki trygt lánsfje í stað þess, ef afturkippur yrði hjá Landmandsbanken.

Þá fór hv. 1. landsk. hörðum orðum um það, að stjórnin hefði ætlað að taka sjer vald til að ábyrgjast þetta lán. Hv. þm. ætti að tala varlega um þetta meðan hann fær að vera í Framsóknarflokknum. Hafi núv. stjórn ekki haft þetta vald, þá er illa komið fyrir stjórn þeirri, er sat að völdum 1922 –1924 og Framsóknarflokkurinn bar ábyrgð á, því að hún tók sjer einmitt þetta vald. Hafi hún haft það, þá hefir núverandi stjórn það. Og sje það ámælisvert af stjórninni að œtla að nota þetta vald, þá ætti háttv. þm. að reikna út, hvaða ábyrgð ætti að koma á hendur hans eigin stjórn fyrir að hafa notað það.

Það fer stundum fyrir þessum hv. þm. eins og segir í rímunni:

Ekki sjer hann sína menn, svo hann ber þá líka.

Jeg hefi þegar svarað ásökun hv. þm. um það, að það sje lögbrot, þótt láninu sje ráðstafað lengur en til eins árs. Þetta er fjarstæða, samboðin hv. þm. Stjórnin hefir engu ráðstafað. Hún álítur, að stjórn Landsbankans sje fyllilega trúandi til þess að fara með þetta fje, eins og hún líka hefir heimild til að ráðstafa því á þann hátt, sem hún telur rjettast til þess að fullnægja þörfum viðskiftamanna bankans. í þessu sambandi mintist hv. þm. á það, að Íslandsbanki hefði ekki ennþá greitt þær 700 þús. krónur, sem hann fjekk að láni hjá Landsbankanum meðan síðasta þing stóð yfir. Það er alveg rjett hjá hv. þm., að bankinn hefir ekki ennþá endurgreitt þetta lán nema að nokkru leyti. En lánveiting þessi var þannig tilkomin, að Íslandsbanki ljet Landsbankann fá upp í lánið víxla, sem trygðir voru með fiski af framleiðslu ársins 1926, og áttu víxlarnir að greiðast jafnóðum og fiskurinn seldist, og þá peningarnir auðvitað jafnóðum að ganga til Landsbankans upp í skuldina. En nú standa svo sakir, að fiskurinn er ekki ennþá allur seldur, og af þeim ástæðum hefir Íslandsbanki ekki ennþá endurgoldið alt lánið.

Þá hljóp hv. þm. út í það að tala um Kárafjelagið og sagði það eftir stjórn fjelagsins, að það hefði tapað um 80 þús. kr. á ráðstöfun stjórnarinnar á þinginu í fyrra. (JJ: Jeg sagði, á gengispólitík stjórnarinnar). Hvað viðvíkur Kárafjelaginu, þá skal jeg taka það fram, að landsstjórnin hefir ekki gert neinar ráðstafanir, er snerta fjelagið, aðrar en þær, sem stjórn fjelagsins sjálf hefir beðið um. Jeg leyfi mjer því að draga það í efa, að háttv. þm. hafi þetta rjett eftir stjórn fjelagsins, að það hafi tapað á ráðstöfunum landsstjórnarinnar. — Jeg veit ekki, hvort jeg á að vera að elta hv. þm. lengra í útúrdúrum hans. Þó skal jeg minnast á nokkur atriði ennþá í ræðu hans. — Næst hljóp hv. þm. í þingmálafund í Vestur- Húnavatnssýslu og svo í nál. sitt á þskj. 193. Mig furðar ekkert á því, þó að hv. þm. þyki mikið til þeirrar ritsmíðar sinnar koma, því að það er nú einu sinni svo, að hverjum þykir sinn fugl fagur. En út af þeim góða vitnisburði, sem háttv. þm. gaf mjer, þar sem hann gat þess, að jeg væri sjerstaklega seinn að hugsa, þá skal jeg segja hv. þm. það, að jeg vona, að forsjónin gefi mjer það sem lengst að vera ekki fljótur að hugsa á þann hátt sem hann. Jeg hefi hingað til verið alveg ánægður með þann tíma, sem það hefir tekið mig að hugsa. En um hinn alkunna hugsanaflótta hv. þm. skal jeg taka það fram, að þó að honum finnist hann smellinn, þá líta bæði jeg og aðrir öðruvísi á það, því jeg hefi aldrei fyrir mjer hitt mann með lifandi holdi og blóði, sem kemst nálægt hv. þm. um þann ágalla að vera lauslopalegur í hugsun og máli. Minnist jeg þess að hafa lesið í merkilegu skáldverki snjalla lýsingu á persónu, sem eins er farið í þessu efni og hv. þm. Hugsun hennar er haldlaus og hvarflar úr einu í annað, tengd saman á bláþráðum án þess um nokkurt eðlilegt samhengi sje að ræða. En höfundurinn veit, hvað hann er að gera. Hann er að lýsa hugsanaferli geðveikrar persónu. Ætti hv. þm. að taka Lear konung eftir Shakespeare og lesa romsurnar, er konungurinn lætur frá sjer fara í sjúkdómsköstum sínum. Þar fengi hv. þm. glögga mynd af samhengisleysinu í ræðum sínum hjer í þinginu. — Þá ætla jeg ekki að fylgja hv. þm. lengra í hugarhvarfli hans. Hann mintist á árið 1943 og þaðan hljóp hann í síldareinkasöluna. Þar skaut upp í huga hans eins og vant er einhverju um útlenda kúgun, sem gert hefði það að verkum, að einkasalan væri ekki ennþá komin til framkvæmdar. Þetta er algert hugarfóstur hv. þm. sjálfs. Hv. þm. talaði um ríkisverslun í sambandi við síldareinkasöluna, en jeg veit ekki til þess, að það hafi verið hugsað til þess að hafa ríkisverslun í sambandi við hana.

Annars vorkenni jeg hv. þm. vandræði þau, sem hann er í sem stjórnarandstæðingur, að hann skuli þurfa að þyrla upp auðvirðilegum andmælum gegn jafnsjálfsögðu máli og þessu, til þess að láta ekki bera á því, að hann sje ráðþrota um að finna að stjórninni.