01.04.1927
Neðri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

21. mál, fjárlög 1928

Hákon Kristófersson:

Mjer skildist á hv. frsm. (ÞórJ), um kaup starfsfólksins á Kleppi, Laugarnesi og Vífilsstöðum, að ummæli hans væru aðeins bending til hæstv. stjórnar um þá niðurfærslu, sem nefndin hefir gert. Jeg verð að líta svo á, að hv. fjvn. hafi farið alt of skamt í þessu efni, og jeg vil beina þeirri áskorun til hæstv. stjórnar að láta málið til sín taka, því að þetta kaup er ekki í nokkru samræmi við hliðstæða kaupgreiðslu víðsvegar á landinu.

Það virðist ekki vera óviðeigandi, að hv. þm. Str. (TrÞ), sem sæti á í hv. fjvn. og er málsvari bænda hjer á Alþingi, ljeti þetta mál til sín taka. Það nær engri átt, að ábyrgðarlausir vinnumenn skuli fá 150 krónur á mánuði og frítt húsnæði, ljós og hita, þegar tekið er til samanburðar kaupgjald annara manna, t. d. margra embættismanna. Það er því ósk mín, að hæstv. stjórn taki í taumana og sýni, að hún láti málið til sín taka, svo hinar stóru misfellur, sem hjer eiga sjer stað, verði lagaðar.