09.04.1927
Neðri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Það eru sárfáar brtt. frá fjvn. við fyrri kafla fjárlagafrv., sem nú liggja fyrir, og get jeg því verið stuttorður.

Eins og hv. þdm. hafa sjeð, hefir fjárlagafrv. raskast allmikið við 2. umr., svo að nú er tekjuhallinn 58 þús. kr. En í frv. frá stjórnarinnar hendi var tekjuafgangur 90 þús. kr., svo að það eru um 150 þús. kr., sem gjöldin hafa hækkað í meðferð deildarinnar.

Niðurstaðan á meðferð fyrri kaflans við 2. umr. er sú, að gjöldin hafa hækkað um 44 þús. kr., og stafar það mest af því, að stærsta lækkunartill. nefndarinnar var feld. Nefndinni var ljóst, að vel gæti svona farið, og því hafði hún ekki reitt sig á þessa lækkun. Hún hafði gengið svo frá fyrri kaflanum, að hann þyldi þessa hækkun. En á síðustu stundu varð að taka upp 56 þús. kr. lið til heilsuhælis Norðurlands, og við það hefir niðurstaðan raskast allmikið. Jeg get þessa hjer af því að hæstv. forsrh. (JÞ) ljet svo um mælt við 2. umr., að till. nefndarinnar svöruðu ekki til tilgangs hennar, þar sem telja mætti víst, að þessi stærsta lækkunartillaga yrði feld.

Nú liggja enn fyrir allmiklar brtt. á frv. Hækkunartill. nefndarinnar á þessum kafla nema 53200 kr., en till. frá einstökum þm. 129500 kr. Við þetta er það að athuga, að tvær till. (frá nefndinni og einstökum þm.) falla saman, svo að samtals er hækkunin 132700 kr. Þetta er samt mikil hækkun, og þegar litið er yfir allar hækkunartill. við frv.. munu þær nema um 430 þús. kr.

Nefndinni þykir leitt að þurfa að leggja frv. fram í þessari mynd, en hún hefir þó ekki viljað á þessu stigi málsins gera till. um lækkun á einstökum liðum. Hún vill sjá fyrst, hvernig þessum brtt. reiðir af, sjá hve gjöldin hækka mikið, áður en hún leggur til að fresta framkvæmdum eða fella niður einstakar fjárveitingar. Mjer mundi blöskra, ef allar þessar hækkunartill. yrðu samþ., sem hjer eru á ferðinni. Til þess að vega á móti þeim lætur nærri, að fella yrði niður sem svarar öllu framlagi til vega og viðhalds þeirra. Nú má ennfremur gera ráð fyrir einhverjum hækkunum í Ed. Það fer því að verða full ástæða til að athuga nokkuð nákvæmlega á hverju skift er. Nefndin er enn þeirrar skoðunar, að varlega beri að treysta tekjum þessa árs, en hinsvegar hækka gjöldin venjulega um 30–40%. Hjer er því mikil alvara á ferðum.

Jeg skal nú víkja að einstökum brtt. nefndarinnar við þennan kafla, en þær eru sárfáar. Um brtt. einstakra þingmanna mun jeg ekki láta uppi álit mitt fyr en þeir hafa gert grein fyrir þeim sjálfir.

Fyrst er þá brtt. III. á þskj. 336, um endurgreiðslu á láni. Jeg gat þess við 2. umr., að nefndin hefði gleymt að bera þessa till. fram þá, og skal jeg nú gera grein fyrir, hvers vegna nefndin felst á hana. Það var byrjað að byggja sjúkraskýli og læknisbústað í Þistilfjarðarhjeraði árið 1916 og lokið 1917. Kostnaðurinn var áætlaður 12 þús. kr. áður en verðhækkun stríðsáranna kom til, en varð 40 þúsund. Af þessum 12 þús. kr. voru aðeins greiddar 3000 úr ríkissjóði. Nú urðu hlutaðeigandi hreppar að taka 28 þús. króna lán vegna kostnaðaraukans. Hafa þeir síðan farið fram á að fá 7000 króna eftirgjöf af viðlagasjóðsláni, og yrði þá tillag ríkissjóðs alls 10 þús. kr., eða 1/4. kostnaðar. Nefndinni finst hjer um sanngirnismál að ræða og leggur til, að þetta sje samþykt.

Þá er brtt. V. á sama þskj., um 1200 kr. styrk til augnlæknis á Akureyri. Sú málaleitun hefir komið fram frá ýmsum mönnum á Norðurlandi, að æskilegt væri að fá einn augnlækni til að setjast að á Akureyri. Reynslan hefir sýnt, að erfitt er að sækja þessa læknishjálp hingað. Fjarlægðin gerir það að verkum, að menn kynoka sjer við að sækja hingað, draga það því of lengi og missa kannske sjónina þess vegna. Ferðir augnlækna kringum land eru þannig vaxnar, að menn hafa þeirra ekki not nema að tiltölulega litlu leyti, af því að þeir geta ekki dvalið nema svo skamma stund á hverjum stað. Því hefir þess verið farið á leit við Guðmund Guðfinnsson augnlækni, að hann settist að á Akureyri og fengi þá til yfirsóknar Norður- og Austurland. Hann mun ekki hafa tekið þessu fjarri, en gerir þó ráð fyrir, að það hefði í för með sjer tekjumissi fyrir sig, nema ríkissjóður legði fram 1200 kr. styrk og sjer væri trygður 500 króna ferðastyrkur eins og áður, og hefði hann síðan til yfirsóknar Norður- og Austurland. Þessi læknir mun þó ekki hafa gefið fullkomið loforð um að setjast þarna að, en nefndin taldi rjett að taka styrkinn upp. Því að einhver annar læknir yrði þá til þess að taka þetta að sjer. Nefndin væntir þess, að þetta verði álitið nauðsynjamál, því að aðstaða manna í þessum landshlutum til að ná í augnlækni í tæka tíð batnar að miklum mun með þessari tilhögun, og getur þetta orðið til þess að bjarga sjón margra manna. Eins og jeg tók fram, áskilur læknirinn sjer að halda sínum hluta af ferðastyrk þeim, sem hann hefir haft.

Þá flytur nefndin tillögu um rekstrarkostnað heilsuhælisins í Kristnesi, sem nemur 4000 krónum. Hæstv. atvrh. (MG) talaði um þetta við nefndina og landlækni. Má búast við því fyrst í stað, meðan verið er að koma búi á laggirnar í Kristnesi, að afurðir þess verði ekki svo miklar, að þær lækki rekstrarkostnaðinn. Nefndin hefir því fallist á að setja þessa upphæð í fjárlög.

Næst er tillaga um hækkun á framlagi til sjúkraskýla og læknisbústaða. En í þessu eru vitanlega þær 7 þúsundir, sem komnar eru tekjumegin. Í raun og veru eru það 8 þúsundir, sem ætlaðar eru til byggingar í Reykhólahjeraði. Jeg gat þess við 2. umr., að þessi bygging væri ráðgerð. Þá var mikið rætt um að fá jörðina til kaups, en landlæknir lagði á móti því. Nefndinni virtist því mundi stranda á þessu. Þar sem hún hafði heldur engin sönnunargögn um það, að annar undirbúningur, t. d. fjársöfnun, væri á þann veg, að þetta gæti orðið. Nú hefir hv. þm. skrifað nefndinni um þetta og óskað þess, að tillag væri ætlað úr ríkissjóði og að minsta kosti bygt þarna eins og í ráði var. Hann hefir fengið yfirlýsingu húsameistara ríkisins um kostnaðinn og auk þess meðmæli landlæknis. Nefndinni virtist því ekki hægt að vera á móti þessu, þó að henni væri ekki fullkunnugt um, að nægileg fjársöfnun hefði farið fram í hjeraðinu. En það er vitanlega um þetta eins og aðrar slíkar tillögur, að ríkissjóður leggur ekki fram fje, fyr en málið er fullundirbúið.

Þá eru ekki eftir nema tvær tillögur frá fjvn., undir XXI. lið. Sú fyrri er við 13. gr. E. V.a, um að liðurinn orðist svo: Til nýrra vita og leiðarljósa 50 þúsund krónur. Við 2. umr. varð um þetta nokkur ágreiningur og fjvn. átalin fyrir, að hún hafði lagt til að fresta skyldi byggingu Hornvitans, og þótti hún hafa tekið óvægilega á þessum lið. Aðalástæða fjvn. fyrir þessari afstöðu sinni voru þessir nýju radiovitar. Tillaga um þá fjell, og nú hefir fjvn. viljað koma á móti sjútvn. og leggur til, að 50 þúsund krónur verði veittar til nýrra vita og leiðarljósa. Af þeirri upphæð eiga 35 þúsundir að ganga til vitabygginga, en 15 þúsundir til leiðarljósa. Að fjvn. hefir ekki farið hærra en þetta, er af því fyrst og fremst, að henni virtist málið ekki nægilega undirbúið og ekki fengin nóg reynsla fyrir hinum nýju vitum. Heldur ekki var vitamálastjóri viss um, hve kostnaðurinn yrði mikill, nje hvað víða þyrfti að byggja. Hv. sjútvn. gerði ráð fyrir þrem vitum, á Suðurlandi, Vesturlandi og Austurlandi, en fjvn. áleit nóg til reynslu að hafa tvo, og væri því þessi upphæð nægileg, að minsta kosti í bráðina. Jeg vona, að hv. sjútvn. geti fallist á þessa tillögu fjvn., einkum þar sem hún miðar ekki við sömu upphæð og við 2. umr., en hefir lækkað sína tillögu niður í 60 þúsundir. því að við nánari upplýsingar kom í ljós, að þessir vitar eru ekki eins dýrir og nefndin bjóst við.

Þá kemur 2. brtt. nefndarinnar, um að niður falli liðurinn um dufl á Valhúsgrunni í 13. gr. E. V.b. Jeg býst jafnvel við, að fjvn. muni taka þessa tillögu aftur. Hún hefir fengið frekari upplýsingar um, að þessu hafi í raun og veru verið lofað í fyrra, gegn því að hjeraðið legði jafnt á móti. Jeg hefi samt ekki umboð frá nefndinni til að taka hana aftur að svo stöddu.

Þá hefi jeg ekki fleira að segja fyrir hönd fjvn. Jeg þykist ekki hafa tekið mikinn tíma, og vænti jeg þess, að svo geti orðið um fleiri, svo að sem greiðlegast gangi að ljúka þessum kafla.