11.04.1927
Neðri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (1099)

21. mál, fjárlög 1928

Ingólfur Bjarnarson:

Jeg á að vísu enga brtt. við fjárlagafrv. að þessu sinni, en það er aðeins till. hv. samgmn., sem jeg vil gera örlitla aths. við. Hún leggur til, að styrkur til flóabáta sje hækkaður um 9300 kr. Jeg ætla ekki að ganga mikið inn á þetta í heild sinni. Það má vel vera, að hækkanir þær, sem nefndin fer fram á, sjeu bygðar á meiri og minni sanngirni. Hækkunartill. eru nú ekki margar. Til aðal-Djúpbátsins eru 5 þús. kr., til Flateyjarbátsins 2500 kr. En það, sem jeg vil gera athugasemd við, er það, að hv. nefnd byggir þessar till. sínar á því, að lækkaður sje styrkur til Eyjafjarðarbátsins. Eftir því sem nál. ber með sjer, leggur nefndin til, að ríkisstyrkurinn sje feldur niður, aðeins látinn halda sjer póststyrkurinn. Hv. frsm. upplýsti, að það væri á misskilningi bygt og nefndin væri nú horfin frá því, með öðrum orðum, ætlaðist ekki til annars en að styrkurinn yrði lækkaður um 2 þús. kr., frá því sem verið hefir. Mjer skildist líka, að það, sem sagt er hjer um þennan Eyjafjarðarbát, væri að mestu tekið aftur. En ástæður fyrir þessari lækkun eru engar færðar fram, hvorki í nál. nje í framsöguræðu hv. frsm. Hann gat að vísu um það, — jeg hygg, að jeg muni það rjett, — að þörfin væri ekki mikil, samgöngur væru svo ágætar á þessu svæði. Jeg er ekki á sömu skoðun, og það er einmitt viðvíkjandi því, sem jeg vildi gefa upplýsingar.

Þegar „Hólar“ og „Skálholt“ önnuðust strandferðirnar hjer áður fyr, þá get jeg bent á það, að þau komu við á tveim stöðum við Eyjafjörð austanverðan, Svalbarðseyri og Grenivík, í hverri ferð. En nú kemur Esja þar aldrei og tvisvar í Flatey. Má af því sjá, hve ágætar samgöngurnar eru, eða hitt þó heldur.

Þegar þess er gætt, að þær hafnir í Þingeyjarsýslu, sem Eyjafjarðarbáturinn kemur við á, hafa engar aðrar samgöngur á sjó, þá fæ jeg ekki sjeð, að þær sjeu ofhaldnar, þótt reynt sje að bæta úr brýnni þörf þeirra með styrk til bátsins.

Það er kunnugt um þann bát, sem nú gengur, að þetta er fyrsta árið, sem ferðum hans er svo fyrir komið, að hann fer vestur á Sauðárkrók og austur á Húsavík, 36 ferðir á ári, að jeg held. Jeg hefi ekki sjeð áætlun um ferðir hans og man það því ekki glögglega. En jeg býst við, að háttv. samgmn. hafi kynt sjer það og annað, er að þessu máli lýtur. Þó er jeg ekki viss um það, því að mjer finst nál. bera þess vott, að hún hafi ekki kynt sjer vel málavöxtu og ekki talið ómaksins vert að tala við okkur þm., sem til þekkjum. En jeg skal líka játa, að um má kenna vanrækslu minni, að hafa ekki leitað á fund hv. nefndar til þess að ræða þetta við hana, enda bjóst jeg ekki við, að hún mundi leggja til að skera niður þennan styrk, án þess að leita álits okkar.

Jeg þekki ekki vel til vestan megin Eyjafjarðar, en um Skagafjörð og út með Skaga að austanverðu er það upplýst, að þau hjeruð eiga ekki svo góðum samgönguskilyrðum að fagna, að vanþörf sje þessara ferða Eyjafjarðarbátsins.

Jeg skal taka það fram, að það er kunnugt, að fjelagið, sem gerir út bátinn, telur þetta minsta styrk, sem hægt sje að komast af með. Það var heldur ekki farið fram á neina hækkun á honum.

En þar sem till. nefndarinnar er á því bygð, að styrkurinn til bátsins sje lækkaður, get jeg ekki greitt henni mitt atkvæði.