12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (1130)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er nú liðið á annan sólarhring, síðan jeg gerði grein fyrir brtt. nefndarinnar, og nú hafa nálega allir þeir einstakir þm., sem flutt hafa hjer brtt., talað fyrir þeim, en þó ekki allir. En þar sem þeir hafa ekki enn gefið sig fram, get jeg ekki verið að bíða eftir þeim, og verð því að grípa tækifærið til þess að gera grein fyrir afstöðu nefndarinnar til hinna einstöku brtt.

Jeg skal geta þess, að nefndin hefir enga ástæðu til þess að vera óánægð yfir þeim undirtektum, sem till. hennar hafa fengið. Annars hafa fáir hv. þm. vikið að till. hennar og þá ekki óvingjarnlega. — Hæstv. atvrh. drap á tvær till. nefndarinnar. Var önnur um hækkunina samkvæmt jarðræktarlögunum, og hafði hæstv. ráðherra ekkert við hana að athuga, enda er hún fram komin í samráði við hann. Hann mintist líka á síðustu till. nefndarinnar á þskj. 336, sem er um styrk til S. í. S. til þess að gera tilraunir með útflutning á kjöti. Hæstv. ráðherra gat þess, að styrkurinn ætti ekki að vera til frambúðar, eins og líka er sjálfsagt. En þar sem hjer er um tilraun að ræða, þá sagðist hann ekki vera á móti till., og getur nefndin gert sig ánægða með það.

Þá skal jeg koma ofurlítið að nokkrum öðrum hv. þm., er vikið hafa að brtt. fjvn. Háttv. 1. þm. Rang. (KlJ) drap á till. um styrkinn til yfirhjúkrunarkonunnar í Laugarnesi, en hann er, eins og kunnugt er, formaður spítalanefndarinnar. Hann studdi till., en sagði þó, að hún hefði mátt hærri vera. En nefndin er hjer í samræmi við annað, sem hún hefir gert í þessum efnum.

Þá skal jeg snúa mjer að því að gera grein fyrir afstöðu fjvn. til hinna mörgu brtt., sem hjer liggja fyrir. Um meginið af þeim brtt. má segja það, að erindi um þær hafa legið fyrir fjvn. En hún hefir ekki treyst sjer til þess að bera þær fram, og í því liggur eiginlega dómur hennar um þær. Vitanlega er margt af þessu, sem hjer er farið fram á, þarft, og ef gott væri í ári ánægja að geta samþykt það. En nú er hart í ári, og einhversstaðar varð að draga merkin, og hefir því nefndin beitt hnífnum með harðasta móti. Það er engin tilviljun, að brtt. fjvn. eru óvenjulega fáar í þetta skifti, og það mun vera fátítt, að hlutfallið milli brtt. fjvn. og brtt. einstakra þingmanna sje slíkt sem það er nú. Nefndin hefir skilið svo hlutverk sitt nú, að hún þyrfti að vera harðhent.

Þá skal jeg fyrst snúa mjer að brtt. á þskj. 336. Það er þá fyrst XXII. brtt. frá hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) og hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) um húsaleigustyrk til sóknarprestsins í Ísafjarðarprestakalli. Hv. þm. N.-Ísf. gerði grein fyrir þessari brtt. og sagði, sem rjett er, að þessi prestur ætti mjög erfitt aðstöðu. En það má benda á það, að af hálfu Alþingis hefir nýlega verið gerð ráðstöfun til þess að hlynna að honum, þar sem hann var losaður við part af prestakallinu, sem honum var mjög kostnaðarsamt að gegna. Fjvn. getur ekki mælt með þessu vegna fordæmis, sem það skapar fyrir aðra kaupstaðarpresta.

Þá koma brtt. um styrki til námsmanna, og eru það flest afturgöngur frá 2. umr. Háttv. þm. Borgf. (PO) mælti með styrk til Bjarna Sigurðssonar, hv. 1. þm. Árn. (MT) og hv. 1. þm. Reykv. (JakM) með styrk til Jakobs Gíslasonar, hv. 1. þm. Reykv. einnig með styrk til Valgarðs Thoroddsens og svo loks hv. þm. Dal. (JG) með styrk til Sigurkarls Stefánssonar. Fyrir hönd fjvn. get jeg sagt, að hún getur ekki mælt með þeim. Hún treystir sjer ekki til þess að taka neinn sjerstakan út úr og legst því á móti þeim öllum. Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) gat þess í sambandi við þessar styrkbeiðnir, að ríkinu bæri skylda til þess að styrkja þá stúdenta til náms, sem vilja nema þær greinir, sem ekki er hægt að nema hjer, vegna þeirra tíðinda, sem gerst hefðu 1918, er stúdentar voru með sambandslögunum sviftir Garðstyrknum. En hv. þm. gat þess þó, að það væri lögboðið að styrkja 4 stúdenta á ári. Með því hefir Alþingi lýst yfir því, að það telji sjer ekki skylt að styrkja fleiri stúdenta, svo að hv. þm. svaraði sjer í raun og veru sjálfur með því að benda á þessi lög.

Brtt. um skólagjöldin þarf jeg ekki að minnast á; hv. frsm. fyrri kaflans (ÞórJ) hefir gert það.

Háttv. 3. þm. Reykv. (JÓl) gerði grein fyrir brtt. frá hv. 2. þm. Reykv. (MJ), um að hækka styrkinn til verslunarskólans. Hann gat þess, að skólinn ætti erfitt uppdráttar. Það efar enginn. Það eiga allir á þessum tímum og ekki hvað síst ríkissjóðurinn. Nefndin getur ekki mælt með þessari brtt.

Þá kemur XXXI. brtt., frá hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), um að hækka styrkinn til unglingaskóla úr 45 þús. kr. upp í 50 þús. kr. Þessi styrkur var í stjfrv. 38 þús. kr., en fjvn. hækkaði hann upp í 45 þús. kr., samkvæmt brjefi frá háttv. þm. V.-Ísf., núverandi fræðslumálastjóra. Nú vill hann hækka þennan styrk upp í 50 þús. kr., en nefndin heldur fast við sína tillögu og getur ekki mælt með þessari. Þá er önnur brtt. frá þessum hv. þm., um að veita Núpsskólanum 3 þús. kr. styrk. Það lá erindi fyrir fjvn. um þetta, og jeg skal játa, að þessi skóli er alls góðs maklegur, en hann var styrktur ekki óverulega í fyrra að till. fjvn. En þar sem hjer verður að gæta hins ítrasta sparnaðar, þá getur nefndin ekki fallist á að styrkja hann að þessu sinni og leggur því á móti þessari till.

Þá er XXXIII. brtt., frá hv. þm. Ak. (BL), um veiting fjár til húsmæðraskóla á Norðurlandi, aðaltillaga og varatillaga. Hjer er um mikla og stóra stofnun að ræða og stóra fjárveitingu, 35 þús. kr. Maður skyldi því halda, að hjer lægju skýr gögn fyrir um það, hvort menn sjeu ásáttir um það, hvar skólinn eigi að standa, hvað bygging hans muni kosta o. s. frv. En ekkert slíkt hefir legið fyrir fjvn. og ekkert erindi til hennar komið þessu viðvíkjandi. Þetta virðist vera borið fram sem leikur, gegn viðleitni Þingeyinga til þess að stofna sjerstaka húsmæðradeild við Laugaskólann. En viðvíkjandi þeim skóla lá alt fyrir, sem þurfa þótti. Hv. þm. Ak. sagði, að konur nyrðra hefðu orðið ásáttar um að láta þetta mál bíða, bæði vegna fjárhags ríkissjóðs og svo vegna heilsuhælis Norðurlands, meðan ríkissjóður legði styrk til þess. Þetta var mjög skynsamleg ástæða. Nú eru í þessu fjárlagafrv. veittar 56 þús. kr. til heilsuhælisins í Kristnesi, svo að mjer finst það bein afleiðing af orðum hv. þm., að þessi húsmæðraskóli verði að bíða.

Þá er brtt. frá hv. 4. þm. Reykv. (HjV), um að liðurinn um listaverkakaup verði fluttur undir þjóðmenjasafnið. Þetta atriði lætur nefndin sig engu skifta.

Þá er brtt. frá hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. V.-Ísf., um styrk til Þorsteins M. Jónssonar til þess að gefa út „Lýðmentun“. Fyrir þessari brtt. hefir engin grein verið gerð nú, vegna þess að aðalflm. hennar er fjarstaddur, en hún var rædd við 2. umr., og fjvn. hefir alveg sömu afstöðu til hennar nú og þá.

Jeg var á það mintur rjett í þessu, að mjer hefði skotist yfir seinni lið XXIII. brtt., frá hv. þm. Dal. (JG), um 1000 kr. styrk til safnaðarstarfsemi meðal Íslendinga í Kaupmannahöfn. Nefndin var á sínum tíma því meðmælt að veita styrk í þessu skyni, þótt hún hinsvegar geti ekki mælt með því að þessu sinni. Hv. flm. vitnaði í það í þessu sambandi, að safnaðarstarfsemi Íslendinga vestan hafs hefði mest unnið að því að viðhalda íslensku þjóðerni vestra. En þá starfsemi höfum við Austur-Íslendingar ekki styrkt. Býst jeg því við, að fjvn. líti svo á, að landinn geti staðið undir þessari starfsemi í Kaupmannahöfn, eins og hann hefir gert annarsstaðar.

Þá ætla jeg að byrja þar, sem frá var horfið, og er það XXXVIII. brtt., sem flutt er af háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) og er um 500 kr. hækkun styrksins til Leikfjelags Reykjavíkur, vegna greiðslu verðtolls á búningum, sem Leikfjelagið hafði orðið að útvega sjer. Hv. flm. lýsti því yfir, að fjvn. mundi því ekki mótfallin að veita þessa ívilnun. Get jeg þá bætt því við, að nefndin getur fallist á að veita þessa ívilnun í þetta sinn, en þó megi það ekki skiljast svo, að nefndin með því fallist á að gefa öðrum slíkar undanþágur.

Þá kem jeg nú að till. þeim, sem fara fram á að veita ýmiskonar námsstyrki, bæði stúdentum og listámönnum, til Rómaferðar o. fl. o. fl. Þessar till. eru 10 að tölu og flestar gamlir kunningjar, sem jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða um. Flestar þessar styrkbeiðnir hafa legið fyrir fjvn. og hún ekki sjeð sjer fært að gera svo upp á milli manna, að hún treysti sjer til að taka neinn sjerstakan út úr til þess að mæla með. Heldur nefndin því við það, sem hún hafði áður orðið ásátt um, að hafna öllum þessum styrkbeiðnum, og mun því standa móti þessum brtt. einstakra þm.

Að vísu mætti segja, að sumar þessar till. sjeu sanngjarnar, eins og um styrk til ritstarfa, frá hæstv. atvrh., um styrk til Hrafnkels Einarssonar og til þess að kaupa málverk af Ásgrími Jónssyni, sem hv. 1. þm. Reykv. flytur, en vegna fjárhagsörðugleika ríkissjóðs hefir þó nefndin ekki sjeð sjer fært að taka þetta upp, og mun hún því greiða atkv. móti því öllu saman.

Sama er og um styrkinn til Barða Guðmundssonar að segja, að nefndin hefir ekki getað mælt með honum. En þar sem einn úr nefndinni er meðflm. að þessari till., leiðir af sjálfu sjer, að einstakir nefndarmenn hafa þar óbundin atkvæði. Og þar sem það er jeg, sem flyt þessa brtt. ásamt hv. þm. Ak., þá vil jeg aðeins segja, að það var síst ofmælt, sem hv. þm. Ak. sagði um þennan unga mann og hæfileika hans. Í Barða Guðmundssyni er alveg óvenjulegt og sjerstakt efni í sögumann, svo að búast má við miklum og glæsilegum árangri af starfi hans, ef honum endist líf og heilsa. Það er líka þessi fræðigrein, sem haldið hefir best uppi hróðri okkar Íslendinga. Og frá þeim, sem við sagnagerð hafa fengist alt frá söguöld og til okkar daga, hefir stafað sá ljómi, er lýst hefir af til fjarlægra landa. Mundu og margir fagna því, að söguritun Íslendinga hjeldi áfram, og þar sem vænta má, að hjer sje á ferðinni maður, sem liðtækur muni reynast í því efni er stundir líða, vænti jeg, að hv. þdm. geti fallist á þessa brtt.

Þá kem jeg að brtt., sem tveir hv. þm. Múlsýslinga flytja, um að fella niður styrk til vegagerðar í Vestmannaeyjum. Það eru þeir hv. 1. þm. S.-M. og hv. 1. þm. N.-M. — Hv. 1. þm. S.-M (SvÓ) talaði fyrir brtt. þessari og mælti eitthvað á þá leið, að honum væri það sjerstaklega ljúft að leggja til, að þessi styrkur yrði feldur niður. Þetta held jeg, að hafi raunar verið í spaugi mælt og fremur verið sagt til þess að slá til hljóðs fyrir nokkrum hækkunartill., sem hann flytur, enda ljet hann svo ummælt, að hv. þdm. mundu geta frekar fallist á útgjaldatill., er hann kæmi jafnhliða fram með sparnaðartill. Þó held jeg, að hann hefði getað fundið eitthvað heppilegra til þess að bera niður á, úr því að hann vildi spara, enda get jeg skilað því frá fjvn., að hún mun ekki að neinu leyti fallast á þessa till. hans. Annars get jeg sparað mjer að fara lengra út í þetta mál, því að hv. 3. þm. Reykv., sem er kunnugur í Vestmannaeyjum, hefir gert glögga grein fyrir þessu máli. Þó get jeg upplýst um það, að það var ekki hæstv. stjórn, sem bar þetta fram í fyrstu, heldur var það fjvn., og hún gerði það eftir að fram hafði farið nákvæm rannsókn á ræktunarmöguleikum Vestmannaeyja, er Búnaðarfjelag Íslands ljet framkvæma samkvæmt beinni áskorun eyjaskeggja. Ef þessi styrkur yrði feldur niður nú, mætti skoða það sem brigðmælgi þingsins, því að í fyrra var óbeinlínis gefið loforð um, að þessi styrkur stæði áfram.

Hv. 1. þm. S.-M. virðist ekki hafa athugað, að hjer er um landssjóðsjörð að ræða, og að hjer er verið að skapa möguleika til þess, að íbúar þessa bæjar geti unnið að því að rækta landið, og til þess að hjálpa eyjaskeggjum til betri afkomu. Jeg gat þess í fyrra, að hjer væri um nýtt verkefni að ræða, og að mjer væri sjerstaklega ljúft að bera fram þá styrkbeiðni, sem þá var farið fram á. Landið þarna er að dómi þeirra manna, sem til þekkja, sjerstaklega vel fallið til ræktunar. Þarna er hægt að nota starfskrafta kvenna og barna við ræktunina, yfirfljótanlegur áburður og margt fleira til hagræðis, sem óþarft er upp að telja.

Eins og það er sjálfsagt að efla ræktun landsins og margfalda í sveitum landsins, eins er það ekki síður þörf, að ríkið komi á móti mönnum í sjávarþorpum og styrki þá, svo að þeir geti miðað afkomu sína við aukna ræktun.

Þess vegna vænti jeg, að þessi till. nái ekki fram að ganga, þó að tveir af mínum góðu vinum standi að henni.

Að síðustu skal jeg vekja athygli á því, að nú sem stendur er trúnaðarmaður Búnaðarfjelags Íslands staddur í Vestmannaeyjum til þess að binda enda á, hvernig haga skuli þessu mikla ræktunarmáli, sem þar er upp tekið.

Næstu brtt. flytur hv. 1. þm. S.-M., og er hún um 6 þús. kr. styrk til húsabóta á Hallormsstað. Þessi till. var líka á ferðinni við 2. umr., en tekin þá aftur. Það er rjett, að ríkið á þessa jörð, líkt og á sjer stað um prestssetrin. En nefndin leit svo á, að hjer væri ekki um neina framtíðarbyggingu að ræða, og getur því ekki fallist á þessa brtt.

Þá flytur hv. þm. Dal. brtt. um að hækka styrkinn til bryggju- og lendingabóta um 2000 krónur til þess að byggja bryggju við Salthólma á Gilsfirði. Nefndin hefir haft það fyrir venju, þegar legið hafa frammi einhver ábyggileg plögg um styrkbeiðnir í þessa átt, að synja þeim ekki. En um þessa bryggju við Salthólma lágu engin gögn fyrir nefndinni og engar áætlanir eða teikningar. Þess vegna getur hv. flm. (JG) ekki vænst þess, að nefndin fallist á þessa brtt., og vildi jeg því ráðleggja honum að taka till. aftur og afla sjer betri gagna en hann hefir. Því að þó hann sje þarna kunnugur, er það okkur hinum ekki nóg.

Þá eru næst undir LV. lið 3 till. frá hv. sjútvn., sem samtals nema 30 þús. kr. Hvað sem annars verður sagt um hv. sjútvn., þá verður hún varla fyrir ámæli um það, að hún sje ekki nógu stórtæk í sínum till. Það er skylt að taka fram, að af óaðgæslu er nefndur 20. liður 16. gr., en við hann er ekki átt. Jeg man ekki, hvort hv. frsm. sjútvn. (SvÓ) gat um það. Annars stendur það svo af sjer, að af hálfu fjvn. get jeg talsvert sparað mjer að gera grein fyrir afstöðu hennar gagnvart þessum hlutum, því að sá hv. þm. hjer í deildinni, sem af mönnum hjer um slóðir er langkunnugastur og reyndastur útgerðarmaður, hv. 3. þm. Reykv., hefir rætt um þessar till. og gert grein fyrir sinni skoðun á þeim á þann hátt, að hann geti ekki treyst sjer til að mæla með þeim. Hann leit svo á, að þær væru ekki nægilega undirbúnar, og að það væri ekki nægilega föstum tökum á þessu tekið. Ennfremur skal jeg bæta því við, að jeg gat ekki skilið öðruvísi en svo, að hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) segði í sinni ræðu, að í sjútvn. sjálfri væri jafnvel ekki einróma álit gagnvart þessum till.

Hv. frsm. sjútvn. (SvÓ) gat þess, að a.-liður, 12000 kr. til fisksölutilrauna í Suður-Ameríku, væri ákveðið ætlaður nýstofnuðu fjelagi. (SvÓ: Ekki ákveðið!). Ekki það. Það var hv. 3. þm. Reykv., sem benti á, að það væri ekki heppilegt. Hann var sem sagt fjvn. sammála, að það væri ekki nógu vel frá 1. liðnum gengið til þess, að hægt væri að mæla með honum.

Viðvíkjandi 2. liðnum, um síldarsölu í Mið-Evrópu og Finnlandi, 10 þús. kr., gat hv. 3. þm. Reykv. þess, að áður hefðu verið farnar slíkar sendiferðir sem hjer er bent til og ekki orðið af því neitt verulegt gagn. Og á þeim grundvelli áleit hann, að eins og til væri stofnað, mætti ekki vænta mikils árangurs. Fjvn. verður að vera á sömu skoðun um þetta.

Viðvíkjandi 3. liðnum, sem talað var um að verja til starfsemi í Portúgal, gat hv. 3. þm. Reykv. þess, að búast mætti við, að erindrekinn á Spáni gæti unnið það starf líka, að svo miklu leyti sem hægt er að vonast eftir árangri þar, en yfirleitt væri verðið þar lágt.

Fjvn. verður sem sagt að álíta um allar þessar till., að það sje ekki svo frá þeim gengið, að fært sje að fallast á þær.

Aftur á móti felst fjvn. að sjálfsögðu á brtt. frá háttv. 1. þm. S.-M. undir LVI. lið; það er sjálfsögð till. að styrkja ekki Sigrúnu Blöndal á tveim stöðum í fjárlögum til hins sama.

Þá flytur hv. 1. þm. Reykv. undir LVII till. um 1200 króna fjárveitingu til Fjelags íslenskra hjúkrunarkvenna, til að standast kostnað af heimsókn fulltrúa frá hjúkrunarkvennafjelögum á Norðurlöndum. Hv. þm. gat þess, að þessar konur hefðu notið heimboðs frá starfssystrum sínum í öðrum löndum, og nú ættu þær von á að taka á móti gestum, sem náttúrlega er ánægjulegt. En það er venjulega svo, að ef maður þiggur boð, þá á maður sjálfur að standast kostnað af að taka á móti aftur. Erindi lá fyrir nefndinni, en hún treysti sjer ekki til að mæla með þessu.

Þá er það hv. 2. þm. Reykv., sem flytur till. um styrk til Verslunarráðs Íslands, — kostnaður af símskeytum um markaðsverð og markaðshorfur erlendis, að upphæð 2000 kr. Hv. 3. þm. Reykv. gerði grein fyrir þessari brtt., af því að hv. 2. þm. Reykv. var fjarstaddur. Hann gat þessi rjettilega, að fjvn. feldi þetta niður, en setti í staðinn styrk til skólastjóra verslunarskólans til þess að kynna sjer kaupþing erlendis. Eins og háttv. 3. þm. Reykv. gat um, lágu erindi um þetta hvorttveggja fyrir fjvn., og treystist hún ekki að mæla með hvorutveggja. Taldi hún, eftir því sem gögn lágu fyrir, að stofnun kaupþings væri nauðsynlegri, og að hin starfsemin mundi ekki koma að fullum notum fyr en búið væri að koma kaupþinginu myndarlega af stað. Nú lætur hv. 3. þm. Reykv. það í ljós af hálfu Verslunarráðsins, að það hefði miklu fremur óskað eftir hinu. Jeg vil minna á, að ef svo hefir verið, þá gafst því nægur tími til að nefna það, frá því fjvn. bar fram sínar till. og þangað til þær komu til umræðu. En eftir gögnum frá Verslunarráðinu varð ekki annað sjeð, en að lögð væri jöfn áhersla á hvorttveggja, enda er það komið fram hjá hv. 3. þm. Reykv., að Verslunarráðið óskaði eftir því hvorutveggja. — Annars geri jeg ráð fyrir, að það muni ef til vill orka tvímælis, hvort þessi brtt. muni komast að, því að alveg samhljóða liður þessum var feldur burt úr fjárlagafrv. við 2. umr. En jeg geri enga kröfu til hæstv. forseta um að vísa henni frá.

Hv. 1. þm. Reykv. ber fram till. um styrk handa Ísak Jónssyni til kexgerðarnáms. Fyrir nefndinni lá erindi um þetta, en hún treysti sjer ekki til að taka till. upp.

Þá er till. frá hv. 4. þm. Reykv. um styrk til Byggingarfjelags Reykjavíkur. Þessi háttv. þm. hefir ekki getað verið á fundi í dag, og hefir enginn gert grein fyrir till. En hún kom fram við 2. umr., og þar sem ekkert nýtt hefir komið fram í málinu, þá hefi jeg engu við að bæta frá fjvn.

Þá eru það allir hv. þm. Reykv., sem bera fram, undir LXI. lið, brtt. um 50 þús. kr. fjárveitingu til sundhallar í Reykjavík, gegn jafnmiklu framlagi úr bæjarsjóði Reykjavíkur. Aðalflm. brtt., hv. 1. þm. Reykv., mun hafa tekið fram, að þetta mundi vera önnur fjárveiting af tveimur. Jeg vil geta þess, að mjer væri mjög kært að vera með þessari till. Það munu yfirleitt ekki deildar meiningar um, að það væri mjög farsælt og gott að geta sem fyrst fengið slíka sundhöll. Og yfirleitt munu flestir hafa verið því sammála, er skrifað var í blöðin síðustu dagana um nauðsyn þessa máls og hollustuna, sem af slíku fyrirtæki mundi leiða. En hinsvegar er það svo, að á krepputímum verður svo margt að bíða. Þar sem svo mörgu verður að fresta, þá verður fjvn. að líta svo á, að þessar framkvæmdir verði þar á meðal. Enda er hjer um eigi lítinn kostnað að ræða. — Ennfremur til jeg benda á eitt atriði enn, sem hlýtur að stuðla að því, að allmargra áliti, að heldur beri að fresta þessum framkvæmdum. Mjer skilst svo ráðgert, að laugavatnið eigi að nota fyrst til upphitunar í opinberum byggingum og síðan í sundhöllina, og verði því að vera búið að reisa landsspítalann og aðrar opinberar byggingar, sem eiga að njóta góðs af þessu heita vatni, áður en komið geti til mála að ganga frá sundhöllinni. Þar af leiðandi hljóti það að frestast, þar sem það er vitað, að árið 1928 verður ekki hægt að reisa þessar byggingar til fulls.

Háttv. þm. V.-Ísf. hefir borið fram till. um að styrkja Ostagerðarfjelag

Önfirðinga, og á styrkurinn að ganga til endurgreiðslu á viðlagasjóðsláni. Hann gerði grein fyrir starfsemi þessa fjelags, að hún hefði mistekist og fjelagsmenn orðið fyrir allmiklu tjóni. Nú er það svo, að fjvn. hefir ekki treyst sjer til á neinu sviði að mæla með því að veita neina eftirgjöf á viðlagasjóðslánum. Eins og kunnugt er, lágu í fyrra fyrir ýmsar beiðnir um það, sem ekki náðu framgangi. Fleiri hafa legið fyrir nú, og verður eitt yfir þær allar að ganga.

Þá eru það allir hv. þm. Reykv., sem bera fram till. aftur, eins og við 2. umr., um að veita 2000 kr. til Sjúkrasamlags Reykjavíkur til að vinna að því að koma á sambandi milli allra sjúkrasamlaga á landinu og til að stofna ný sjúkrasamlög. Varatill. er 1500 kr. Háttv. 3. þm. Reykv., sem mælti fyrir till., ljet í ljós von um það, að fjvn. mundi geta aðhylst varatill., og skildist mjer hann telja sig ánægðan með það. Um þetta er það að segja, að nefndin getur öll fallist á varatill., samkvæmt umtali við hv. þingmenn Reykv.

Þá er komið að 18. gr. Fyrsta brtt. snertir eftirlaun ekkju Bjarna Jónssonar. Hv. 1. þm. Reykv. gerði grein fyrir þeirri brtt. og gat þess, að eftirlaun þessarar ekkju sköpuðu ekkert fordæmi, þar sem um sjerstaka aðstöðu væri að ræða. Hæstv. atvrh. (MG) mælti með því, og undir það mundu margir vilja taka. Hinsvegar ber mjer að lýsa brtt., sem fjvn. hefir borið fram til samræmis, um eftirlaun annarar ekkju, sem veitt eru í 18. gr., þar sem nefndin leggur til að veita 1200 kr. til ekkju Sveinbjörns Sveinbjörnssonar tónskálds. Mjer er skylt að geta þess, að það er ekki fjvn. í heild, sem ber fram þessa till., en meiri hl. hennar.

Hv. þm. Ak. og tveir aðrir hv. þm. leggja til, að eftirlaun Páls Árdals sjeu hækkuð allmjög. Jeg ætla það væru sömu hv. þm., sem báru fram till. við 2. umr. um það sama, en nefndin vildi halda við það, sem stjórnin hafði gert í sínu frv.; og hún heldur fast við það ennþá, að það sje ástæðulaust að hækka þessi eftirlaun. Hv. þm. Ak. gat þess, að þessi maður hefði starfað fyrir Akureyrarbæ, jeg ætla í 40 ár; þar af leiðandi verð jeg að telja, — og það munu fleiri gera —, að Akureyri beri skylda til þess að láta þessum starfsmanni eftirlaun í tje. Jeg hygg Reykjavíkurbær muni vart knýja á dyr Alþingis um eftirlaun til manna, sem búnir eru að starfa hjer í 40 ár. Og eftir því, sem hv. þm. Ak. lýsti efnahag Akureyrar, þá hygg jeg, að sá bær muni sjá sóma sinn í að launa þessum manni, sem er alls góðs maklegur fyrir allra hluta sakir.

Hv. 2. þm. Eyf. og hv. 1. þm. Rang. flytja till. um fjárveitingu til Eggerts Stefánssonar símritara. Hefir verið gerð allrækileg grein fyrir tillögunni, en hæstv. atvrh. lagt á móti henni. Jeg tel enga ástæðu frá nefndarinnar hálfu að fara út í sögu þess máls. Mjer ber að lýsa því yfir af hennar hálfu, að hún treystist ekki til að mæla með till.

Þá er komið að 22. gr. Þar hafa komið fram mjög margar till. um lánveitingar, eða 5 alls. Tvær eru frá hv. þm. Barð., um lán til læknisbústaða í Flatey og Reykhólahjeraði; ein er frá hv. 1. þm. Rang., um lán til að reisa gistiskála í Fljótshlíð. Ein er frá hv. þm. Mýr. (PÞ), lán til endurbyggingar á raforkustöð í Borgarnesi, og loks er till. frá hv. þm. Ak., um lán til hafnarbóta á Akureyri. — Hæstv. atvrh. hefir vikið nokkuð að þessum umsóknum öllum og gat þess, að hann væri þeim yfirleitt ekki mótfallinn. Vitanlega er það rjett, sem hæstv. ráðherra sagði, að það er alls ekki sama sem að veita þessi lán, þótt stjórnin fái heimild til þess í 22. gr. fjárlaga, og oft hefir slík heimild ekki verið notuð. Það er augljóst, að verði lánbeiðnir þessar allar uppfyltar og bætt við þær í þessari gr., fyrir utan brtt. hv. 2. þm. Eyf. á þskj. 345, sem skýrt er tekið fram um, að þær eigi að ganga fyrir öðrum, þá kemst þetta ekki alt saman að. Út frá því getur maður sagt, að það sje ekki neitt stórt atriði, hvort þessi heimild er veitt; hæstv. stjórn hefir í sinni hendi að sigta þetta í sundur og ganga frá því svo tryggilega, að ríkissjóður verði ekki fyrir tapi. Samt getur fjvn. ekki mælt með, að þessi lán sjeu veitt. Hún álítur, að þau lán, sem fyrir eru í þessari grein, sjeu yfirleitt meir aðkallandi. En mjer er ekki lagt á hendur að leggja með neinum þunga á móti þessum lánaheimildum.

Þá eru 3 brtt. um að veita heimild til að gefa eftir vexti af hallærislánum, til Grunnavíkur- og Árneshreppa og í öðru lagi til Gerðahrepps í Gullbringusýslu, ennfremur af viðlagasjóðsláni til Ostagerðarfjelags Önfirðinga. Alt eru þetta kunningjar síðan í fyrra; þá var rætt um að veita eftirgjöf á þessum lánum, og varð um það nokkur styrr. Nú er um miklu minna að ræða og sumpart að stíga áfram það spor, sem tekið var í fyrra, sjerstaklega viðvíkjandi tveim hreppum. Nefndin getur ekki veitt þessu meðmæli sín, en mjer ber heldur ekki að leggjast með sjerstökum þunga á móti af hálfu hennar. Enda er það vitanlegt, eftir því hverjir standa að sumum þessum till., að það er ekki einróma álit nefndarinnar að leggja á móti.

Þá hefir hæstv. atvrh. borið fram brtt. undir LXXVII. lið, um að stjórninni sje heimilt að veita Eimskipafjelagi Íslands, ekki 60 þús. kr., heldur 85 þús. kr. styrk, ef það er talið nauðsynlegt. Hæstv. ráðh. vitnaði í það, að svo hefði verið litið á áður, sem styrkur til Eimskipafjelagsins væri eins og endurgjald á skipagjaldi og vitagjaldi, sem fjelagið verður að borga; og þar sem fjelagið hefði bætt við sig skipum, væri rjett að hækka styrkinn til fjelagsins. Hann taldi tilefni til þessarar heimildar það, að fjelagið hefði bætt við „Brúarfossi“, sem hann kvað ekki líklegt, að yrði sjerlega arðvænlegt skip.

Mjer ber að geta þess, að fjvn. vill nú eins og áður sýna Eimskipafjelaginu fulla vinsemd; hún álítur það mjög þarft og nauðsynlegt að styrkja þetta fjelag í samkepninni við útlend fjelög, enda er alviðurkent, hvað það hefir unnið þjóðnýtt starf. Hinsvegar leit nefndin svo á, að ekki væri þörf að veita þessa upphæð nú þegar; hún vill fá að sjá það koma á daginn, hvort ástæða er til að auka styrkinn. Jeg geri ráð fyrir, að fjvn. mundi geta fallist á þetta, ef sýnileg þörf væri á; en hingað til hefir það verið svo, að heimild til að veita Eimskipafjelaginu styrk hefir verið sama og fjárveiting. Nefndin vill því sjá hvað setur um þetta, en ekki ber að skilja það svo frá hennar hálfu, að styrkinn megi ekki auka undir neinum kringumstæðum.

Hæstv. atvrh. hefir sömuleiðis gert grein fyrir till. um að kaupa hús sýslumannsins á Sauðárkróki fyrir 27 þús. kr. Fyrir nefndinni lá erindi um þetta, og sömuleiðis kom sýslumaður að máli við nefndina. Hæstv. ráðherra gat þess, að hjer væri um nýja braut að ræða, en áleit, að það væri ekki hægt að standa í gegn þessu, þar sem búið væri að stíga spor í þessa átt viðvíkjandi læknum og prestum. — Að vísu hefir hæstv. atvrh. rjett fyrir sjer um þetta, en það er einmitt fordæmisins vegna, sem nefndin treystir sjer ekki til að mæla með þessu; hún vill ekki að svo stöddu, að ríkið kaupi embættismannabústaði í kauptúnum. Þetta segi jeg fyrir meiri hlutann, en nefndin stendur ekki óskift gegn till. hæstv. atvrh.

Þá er loks á þskj. 336 till. frá hv. þm. N.-Þ. (BSv), um heimild til þess að kaupa jörðina Ásbyrgi í Kelduhverfi. Hv. þm. hefir gert grein fyrir till., og sömuleiðis mintist hann á till. nefndarinnar, sem fer einungis fram á að fella aftan af síðustu orðin, sem sje að tilgreina upphæðina, sem talað er um að kaupa þessa jörð fyrir. Nefndin aðhyllist till. á þessum grundvelli, og hv. þm. N.-Þ. hefir fallist á það. Það, sem nefndinni gekk til þess að binda sig ekki við neina upphæð, var það, að jörðin fengist sennilega ekki fyrir minna en þessa upphæð, ef tilgreind væri.

Sömuleiðis kom fram í nefndinni, að komið gæti til mála, að þeir samningar tækjust milli þessa hrepps og ríkisstjórnarinnar, að hreppurinn ætti jörðina og gæti haft nytjar af henni; og vildi nefndin, að hæstv. stjórn hefði óbundnar hendur í þessu efni. — En nefndin felst á ástæður þær, sem hv. flm. bar fram fyrir því, að þessi ágæti staður væri keyptur og gerður að ríkiseign, eða ráðstafanir gerðar til þess að friða hann og koma honum í sem best ástand.

Svo á jeg aðeins eftir að gera grein fyrir örfáum brtt. á þskj. 345 og 356.

Hv. þm. V.-Ísf. og hv. 1. þm. Reykv. leggja til, að fjárveitingin til verslunarskólans og samvinnuskólans hækki um 500 kr. til hvors skóla. Hjer er um svo smáar upphæðir að ræða, að nefndin leiðir þær hjá sjer.

Um styrkinn til Einars Markans er það að segja, að nefndin getur ekki mælt með honum fremur en öðrum slíkum styrkjum.

Þá hefir hv. 3. þm. Reykv. borið fram brtt. um 3000 kr. styrk til fjelagsins „Landnáms“ til þess að vinna að stofnun nýbýlafjelaga víðsvegar á landinu. Jeg hefi þá ánægju að geta þess, að fjvn. leggur ekki á móti því, að þessi till. verði samþ. Það er í samræmi við það, að nefndin heldur fast við till. sína um Vestmannaeyjaveginn. Þetta fjelag hefir gert mikið gagn fyrir þennan bæ, með því að margir einstaklingar hafa getað notfært sjer það að fá land til ræktunar og til að stofna nýbýli á því. Það hefir mikla þýðingu í þessu efni, að menn úr stjórn fjelagsins eru í bæjarstjórninni. Með því hefir skapast góð samvinna milli þessara aðilja og hefir hún leitt til aukins áhuga fyrir ræktunarmálum og til að skapa mönnum aðstöðu til þess að lifa af ræktuðu landi ásamt öðrum störfum sínum. Það er mjög farsælt verk að stuðla að þessari samvinnu. Það er rjett, sem hv. þm. (Jól) gat um, að Búnaðarfjelag Íslands hefir styrkt þetta fjelag, og mun það gera það næsta ár. Og milli þessara fjelaga hefir verið góð samvinna.

Þá eru hjer tvær smátill., sem jeg þarf að gera grein fyrir. Þær eru um eftirlaun; önnur er frá hv. þm. V.-Ísf., um eftirlaun til Nikulásar Þórðarsonar, og hin er frá hv. 1. þm. Reykv., um eftirlaun til Kristínar Guðmundsdóttur ljósmóður. Hjer er um smáupphæðir að ræða. Erindi um þetta höfðu legið fyrir nefndinni, en hún ekki tekið þau upp. Nefndin getur því ekki mælt með þessum till.

Þá er aðeins eftir ein brtt. Hún er frá hv. mentmn., um styrk til grískukenslunnar við háskólann. Þetta er afturganga frá 2. umr. Nefndin hefir sömu aðstöðu til þessarar till. sem áður, enda þótt hún sje nú 200 kr. lægri. Nefndin lítur svo á, að þessari kenslu megi koma fyrir á ódýrari hátt en till. fer fram á. Og þar sem frv. um að leggja dósentsembættið niður hefir ekki ennþá náð samþykki Alþingis, þá er engin ástæða til þess að bera fram till. sem þessa.

Jeg hefi þá lokið að gera grein fyrir afstöðu fjvn. til brtt. einstakra þm. og lýk hjer með máli mínu.