12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

21. mál, fjárlög 1928

Sigurjón Jónsson:

Jeg skal vera mjög stuttorður, og það get jeg því fremur sem hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) hefir talað alllangt mál og tekið fram ýmislegt af því, sem jeg vildi segja. Jeg vildi þó segja háttv. þm. Borgf. (PO) það, að það er ekki rjett af honum að slá því fram hjer í deildinni, að þessi tillaga okkar um fjárframlag til markaðsleita sje aðeins komin fram af „agitation“. Jeg ber þessa ásökun af mjer, og jeg verð að segja það, að jeg veit ekki hvaða rjett hv. þm. hefir til að slá öðru eins og þessu fram. (PO: Jeg sagði það ekki). Jeg skrifaði þetta hjá mjer eftir hv. þm. (PO: Jeg sagði, að það væri annaðhvort, að þessi maður hefði boðið sig fram til starfsins, eða að það hefði verið skorað á hann til þess). Jeg gat nú samt ekki skilið orð hv. þm. öðruvísi, en hitt get jeg sagt hv. þm., að það var löngu áður en þessi maður kom fram, að við höfðum talað um að fá fjárstyrk til þess að stuðla að útbreiðslu markaðs á síld. Það var einmitt með tilliti til þess, sem á að fara hjer fram, að það verður stofnað síldarsamlag, og það var tekið fram hjer áður í kvöld, að sá maður, sem styrkinn fengi, starfaði í sambandi við þetta síldarsamlag og stjórn þess, og það er í rauninni óþarfi að taka þetta fram, nema af því að orð hv. þm. fjellu eins og mjer skildist.

Svo mun jeg ekki segja meira um þetta mál, en jeg vil skjóta því til hv. frsm. fjvn., af því að hann hefir nú hvað eftir annað talað um, að það væri leitt og óheppilegt, að ráðist væri svo á fjvn., eftir að frsm. hennar væri dauður, að það er ekki hægt að tala um afstöðu hv. fjvn. til tillagna einstakra þingmanna, fyr en eftir að hv. frsm. hennar hefir talað tvisvar. Og jeg verð að segja, að jeg finn ekkert óheppilegt við það, að það sjeu vaktar slíkar umr. einu sinni á hverju þingi, því að jeg efast ekki um góðan vilja hv. nefndarmanna til að taka vel á móti skynsamlegum tillögum sjútvn., og jeg held, að það sje ekkert óheppilegt við það, þó að vakin sje hugsun hjá hv. nefndarmönnum og öðrum háttv. þdm. um það að láta atvinnuvegi okkar njóta fullkomins jafnrjettis um tillög úr ríkissjóði, og mjer finst, að slíkt geti ekki verið óheppilegt fyrir neinn þann, sem hefir ákveðinn vilja til þess, að haldið sje í rjettu horfi. En jeg veit, að það mundi vera óheppilegt fyrir þá háttv. þm., sem kynnu að vilja bera hagsmuni annars okkar atvinnuvegar fyrir borð, en jeg hygg, að það, sem hjer virðist hafa komið fram í þá átt, sje aðeins sprottið af athugaleysi.