19.04.1927
Efri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

21. mál, fjárlög 1928

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 1. landsk. (JJ) hjelt hjer í dag ræðu hátt á annan klukkutíma. Jeg skal nú lofa því að verða ekki eins langorður, en þó þarf jeg að svara nokkrum atriðum úr ræðu hans.

Hann sagðist ætla að bera upp nokkrar fyrirspurnir til stjórnarinnar, en svo dæmdi hann sjálfur um flest af því, sem hann spurði um, og svaraði sjer sjálfur. Það virðist því svo, sem hann hafi ekki viljað leita fræðslu, heldur fræða aðra. Jeg hefi nú ýmislegt við þessa fræðslu hans að athuga og skal fara þar um nokkrum orðum.

Hv. þm. spurði þá fyrst um uppmælingar siglingaleiða á Húnaflóa og Breiðafirði. Úr þeim uppmælingum verður ekkert í ár, og það mun sennilega taka tvö sumur t. d. að mæla upp Húnaflóa og kosta mikið fje. Það þarf að fá til þess fagmenn, útbúa sjerstakt skip til mælinganna og kaupa ýms áhöld. Jeg grenslaðist eftir því, þegar jeg var í Kaupmannahöfn í vetur, hvort ekki mundi vera hægt að fá þar æfða menn, og var það ekki útilokað, ef gott skip fengist. Kom það svo til orða að fá vitaskipið „Hermóð“ til þessa, en hann getur ekki annað því í sumar vegna mikilla flutninga, einkum vegna hins stóra vita, sem á að reisa á Dyrhólaey. En jeg hefi loforð fyrir því, ef lagt verður í þennan kostnað á næsta ári, að fá 1 eða 2 lærða menn frá Danmörku til þess að standa fyrir mælingunum. Hjer var líka um tvent að ræða, hvort heldur ætti að snúa sjer að þessum mælingum eða fá mokstrarskipið til þess að dýpka hafnirnar á Akureyri, Vestmannaeyjum og víðar, og það varð ofan á að fá heldur mokstrarskipið, því að meira lægi á að dýpka þessar hafnir heldur en að mæla upp siglingaleiðirnar.

Þá mintist hv. þm. á strandferðirnar og spurði, hvort stjórnin hefði hugsað sjer að leigja skip til þeirra. Um þetta hefir engin ákvörðun verið tekin, því að stjórnin hefir eigi fengið neina áskorun um það frá þinginu, en það er þingsins að taka ákvörðun um þetta. Mjer hefir skilist svo á hv. samgmn. Nd., að hún sje á móti því að leigja skip til strandferða. Það var ýmislegt fundið að því skipi, sem leigt var í fyrra. Eimskipafjelaginu var þá falið að leita eftir hentugu skipi, en það gat ekki fengið betra skip. Nú er þörfin fyrir slíkt skip minni en í fyrra, vegna þess að Eimskipafjelagið hefir bætt við sig nýju skipi, „Brúarfossi“, og því fleiri skip sem það hefir í förum, því betri verða samgöngurnar.

Þá vildi hv. þm. fá að vita, hvað jeg áliti um hið fyrirhugaða nýja strandferðaskip. Það mál er nú ekki hjer á dagskrá og þess vegna ekki rjett að blanda því inn í umræðurnar. Hv. þm. mun komast að því síðar, hvern hug jeg ber til hins nýja skips. Hv. þm. sagði, að jeg hefði eigi farið eftir áskorun þingsins í fyrra um strandferðaskip, og það er rjett. En jeg tók það fram í fyrra, og það mun sjást í Alþt., að jeg sæi mjer ekki fært að nota heimildina frá árinu 1913, þar sem hún hefði verið notuð áður. Auk þess var stjórninni uppálagt að halda genginu föstu, og þá dugði ekki að fara að slengja mörgum skipakaupum ofan á aðrar greiðslur. Það er nóg fyrir okkur að kaupa eitt skip á ári, eins og „Brúarfoss“, og eins og allir vita lagði ríkissjóður fram 350 þús. kr. til þess að fá það skip.

Þá spurði hv. þm. um fyrirhleðslu Þverár, og hver hefði ráðið til þess, að hún var gerð. Það var vitanlega vegamálastjóri, en hann tók enga ábyrgð á því, að verkið hepnaðist, og það sagði hann þegar. Tilraunin kostaði um 7000 kr. En í vatnavöxtum í fyrra ónýttist stíflan, ekki vegna þess að hún bilaði, heldur vegna hins, að fljótið breytti sjer, þannig að það reif sjer nýjan farveg í gegnum þurra sandeyri, hinumegin við stífluna.

Þá spurði hv. þm. um rannsókn nýrra vega- og brúastæða, en þar svaraði hann sjer sjálfur, þar sem hann kannaðist við, að vegamálastjóri hefði framkvæmt þessa rannsókn. Vilji hv. þm. fá skýrslu um þetta frá vegamálastjóra, þá getur hann eflaust fengið hana.

Þá talaði hann um þál. í fyrra um snjódreka og bifreið, og álasaði hann vegamálastjóra fyrir það að kaupa þennan snjódreka og bifreið, en ekki þá bifreið, er hann, hv. 1. landsk., áleit að ætti að kaupa. Jeg get gefið þær upplýsingar um snjóbílinn, að hann hefir reynst vonum betur og hefir hjálpað mikið til þess að halda opinni leið austur yfir fjall. Þó er það satt, sem hv. þm. sagði, að það er ekki gott að fara í slóð hans eftir að fent hefir í hana. En þá má fara utan við, og er það altaf gert á vetrum að fara utan við veginn. Og seint mun hægt að fá þann snjóbíl, að ekki geti fent í slóð hans. Jeg skildi þál. Í fyrra svo, að það væri ekki lagt að stjórninni að kaupa þessa 10 þús. kr. beltabifreið, sem hv. þm. hafði í huga, því að í till. stendur, að stjórnin skuli kaupa hana, „ef líkur eru til, að hún komi að verulegu gagni.“ Vegamálastjóri rannsakaði þetta nú erlendis og komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri hægt að nota þá bifreið í dýpri snjó en 1/2 meter. Hv. þm. sagði, að það ætti ekki að fara eftir tillögum vegamálastjóra, og fanst mjer hann ætlast til, að stjórnin færi eftir till. sínum. En með allri virðingu fyrir tillögum hans, sá stjórnin sjer ekki fært að fara að kaupa þá bifreið, sem reynslan erlendis hefir sýnt, að ekkert vit er í að kaupa.

Þá sagði hv. þm., að stjórnin hefði greitt erindrekanum á Spáni 40 þús. krónur. Það væri betra fyrir hann að reyna að fara rjett með. Það voru rúml. 30 þús. kr., sem sendimaðurinn fjekk, en af því greiðir ríkissjóður ekki nema 1/3; bankarnir greiða 2/3 þeirrar upphæðar. Og hv. þm. getur ímyndað sjer, hvort stjórn Íslandsbanka t. d. sje svo vitlaus að greiða þetta, ef hún teldi það óþarft og tilgangslaust.

Mjer þykir leitt, ef hv. þm. hefir beðið tjón á sálu sinni, af því að stjórnin keypti snjóbílinn, því að hann má ekkert missa og þarf á öllu sínu að halda. En honum til huggunar skal jeg taka þá ábyrgð á mig, — því að syndabaggi hans er nógu þungur fyrir.

Þá sagði hv. þm., að það hefðu verið vetlingatök hjá stjórninni, hvernig hún snerist í vörninni gegn gin- og klaufasýkinni. Sýki þessi hefir nú í mörg ár geysað í Danmörku, og ekkert hefir verið gert hjer til þess að forðast hana. Þó hefir Alþingi verið vel kunnugt um þetta. Hvers vegna hefði stjórnin þá átt að þjóta upp til handa og fóta, þótt eitt tilfelli af veikinni kæmi fyrir í Noregi? Nei, það er annað, sem liggur hjer á bak við, og það er að fá bannaðan innflutning á heyi. En þetta tilfelli, sem jeg gat um, kom fyrir í Víkinni, en alt það hey, sem við fáum frá Noregi, er frá Bergen og þar í grend. Í ýmsum landshlutum hjer er mjög erfitt að fá innlent hey, svo sem t. d. í Vestmannaeyjum. Þar er miklu erfiðara að ná heyi úr landi heldur en frá Noregi. Og til þessa verður að taka tillit. Og jeg tel nokkurn vafa á, hvort rjett sje að banna innflutning á heyi frá Noregi til Vestmannaeyja vegna gin og klaufasýki, þar sem hún hefir verið landlæg í Danmörku árum saman og ekkert verið gert til að verjast henni.

Það var ekki rjett hjá hv. þm., að ekkert hafi verið gert til þess að hefta það, að sýkin berist hingað með mönnum. Hefir hann þá ekki lesið blöðin? Stjórnin gaf út auglýsingu um það, að allir þeir, sem kæmu frá útlöndum, yrðu að gefa drengskaparyfirlýsingu um það, að þeir hefðu eigi síðustu sex mánuðina dvalið í hjeraði, þar sem veikin hafi verið. Lengra var eigi unt að fara. Og ef þetta eru vetlingatök hjá stjórninni, þá hafa verið enn meiri vetlingatök hjá Alþingi á undanförnum árum, er það hefir verið að semja lög um innflutningsbann á ýmsum varningi.

Hv. þm. sagðist vita til þess, að fjósamaður hefði komið frá Danmörku og farið í fjós uppi í Mosfellssveit. Ef hann hefir vitað um þetta, þá var það borgaraleg skylda hans að segja frá því um leið, en geyma það ekki þangað til hjer í þinginu. Þetta er líkt og um hálmpokann, er hann talaði um, að hann hefði sjeð. Hann átti þá að sjálfsögðu að hringja til lögreglustjóra undir eins og láta hann vita af þessu. Borgarar eiga þegar að tilkynna það, ef þeir verða varir við, að lög eru brotin, annars eru þeir samsekir. Annars þykir mjer undarlegt, að formaður Búnaðarfjelags Íslands skuli ekki hafa kært, ef það hefir átt að koma gin- og klaufaveikinni til hans með þessum hálmpoka, eins og hv. þm. var að spauga með.

Hv. þm. sagði, að það væri sótthreinsun að brenna hálminn. Það hefi jeg nú ekki heyrt fyr, og a. m. k. er það ekki algeng sótthreinsun að brenna.

Um byggingu varðskipsins „Óðins“ er þessu að svara: Skipið var bygt í Danmörku vegna þess, að ódýrasta tilboðið kom þaðan, nema ef telja skyldi tilboð það, sem kom frá Þýskalandi um skip með alt öðru lagi. Auk þess var þar krafist svars sama dag, án þess að fyrir lægju nægilegar upplýsingar til þess að dæma um tilboðið. Það skiftir engu máli, þó að Danir hafi látið byggja skip annarsstaðar. Mjer er þó ekki um það kunnugt. En jeg man eftir því, að gert var einu sinni við danskt skip í Svíþjóð, þó að jeg hinsvegar muni ekki eftir því, hvaða fjelag átti það. Annars hafa Danir ekki látið byggja nein ný skip, nema hjá sjálfum sjer. T. d. hefir „Sameinaða fjelagið“ bygt öll sín skip í Danmörku.

Það er von, að háttv. þm. haldi, að skipið sje valt, úr því að hann hyggur þyngdarpunktinn verið hafa ofansjávar. (JJ: Morgunblaðið sagði það!). Það er nú ekki altaf gott að fara eftir því, sem sagt er. Það stóð nú t. d. í þingvísu, að þyngdarpunktur háttv. 1. landsk. hefði fallið niður. En það er auðvitað ekki altaf örugt að fara eftir sögusögn annara, hvorki í þessu efni nje öðrum. (JJ: En hvar var þá þyngdarpunkturinn?). Hann var að minsta kosti ekki í heila hv. þm. (JJ), en annars hefi jeg ekki rannsakað, hvar hann var. En það sýnir aðeins fáfræði hv. þm., þegar hann ímyndar sjer, að þyngdarpunktur skipsins sje ofansjávar. Úr því farið var að minnast á þetta, þá get jeg upplýst það, að þyngdarpunkturinn var 11/2 feti ofar en hann átti að vera. Þegar skipið var rannsakað kom það í ljós, að teikningunni hafði ekki verið fylgt, er það var bygt. Nú vill hv. 1. landsk. meina, að þetta sje mjer að kenna. Hann ætlast þá til, að jeg hefði átt að vera í Danmörku meðan skipið var bygt, til þess að sjá um, að teikningunni væri fylgt. Nú var skipið bygt einmitt um þingtímann, og var því ekki vel gott fyrir mig að koma því við. Jeg gerði því það eina, sem hægt var að gera, og það var að fela kunnugum mönnum eftirlitið með smíðinni. Fól jeg það því sama firma, sem haft hefir eftirlitið með öðrum skipum hjá Flydedokken fyrir Eimskipafjel. Íslands, og er jeg viss um, að það hefir gert það, sem það gat, í þessum efnum. Það er nú svo, að í sjálfri skipasmíðastöðinni kemur mönnum ekki saman um, af hverju þetta stafi. Vjeladeildin kennir hinni deildinni um það, en hún aftur vjeladeildinni. En fyrir okkur hefir það auðvitað enga þýðingu, hverjum það var sjerstaklega að kenna, eða þó að þeir deili innbyrðis. Það hefir verið bent á, að jeg hafi gert þennan samning, sem og er rjett. Og það sýndi sig, að samningurinn var svo fullkominn, að það voru engar útgöngudyr fyrir skipasmíðastöðina. Hún varð að gera við skipið á sinn kostnað.

Háttv. 1. landsk. sagði, að skipið hefði verið smíðað eftir ráðum danskra hermanna. En þar fer hann villur vegar, eins og fyrri daginn. Skipið var teiknað hjá „Flydedokken“, en síðan var það borið undir flotamálaráðuneytið, hvort alt væri nægilega og greinilega tekið fram, sem að smíðinni laut, en það hafði aftur á móti ekkert atkvæði um það, hvernig skipið ætti að vera þetta var gert eftir ósk þess firma, sem átti að hafa eftirlit með skipinu. Það kvaðst ekki vera vant skipum, sem þola þyrftu fallbyssur, og vildi því, að fagmenn flotamálaráðuneytisins segðu álit sitt um það, hvort skipið væri nægilega traust til þess að bera fallbyssur. Þetta var borið undir flotamálaráðuneytið og annað ekki.

Það er algengt, að gallar komi í ljós á skipum. Jeg vil minna á „Esju“ í því sambandi. Það voru ekki neinir smáræðisgallar, sem komu þar í ljós. Jeg veit ekki, hvort háttv. 1. landsk. er það kunnugt, en jeg býst þó við því. Aftur á móti er mjer ekki kunnugt, að hann hafi gert neitt veður út af því. En það er svo um katlana á „Esju“, að það verður að gera við þá í hverri einustu ferð. Þeir eru altaf að springa, og er það af því, að efnið í þeim er slæmt. Og í vetur varð loks að láta hana fara utan til þess að gera við katlana.

Þá var háttv. þm. að tala um það, að það hefði ekki verið mikið að marka skipið, þó að það hefði gengið í sundunum dönsku. En hann hefði átt að lesa samninginn áður en hann sagði þetta. Jeg fjekk því nefnilega komið inn í samninginn, að skipið ætti að vera fullkomið með tilliti til þeirra ferða, sem það ætti að halda uppi, sem sje við „Fiskeri-inspektion“ við strendur Íslands. Það er því ekki til neins fyrir hann að vera að tala um dönsku sundin, því að skipið var ekki smíðað til umferðar um þau.

Háttv. þm. hjelt því einnig fram, að ekki hefði þurft að senda skipið utan, ef engir gallar hefðu á því verið. En þetta er misskilningur. Það er venja, sem ekki er út af brugðið, þegar skip eru keypt, að þau eru til reynslu í 6 mánuði, en verða svo að fara til skoðunar. Ef gallar koma í ljós, er sá, sem smíðaði skipið, skyldur að laga þá. Skipið hefði því þurft að fara utan, þó að engir gallar hefðu verið á því. Það er nú svo um skipin, að fagmenn treysta sjer ekki til að segja fyrirfram um það, hvort þau muni reynast eins og tilskilið er, með því aðeins að sjá þau eða teikninguna, sem þau eru bygð eftir.

þá kom háttv. 1. landsk. ekki með fleiri fyrirspurnir, eins og hann kallaði það, en voru það þó í rauninni ekki. En hann var með ýmsa útúrdúra, eins og hann er vanur, og ætla jeg að svara þeim að nokkru. — Hann talaði um það, að stjórnin hefði varið miklu fje til framkvæmda í kjördæmum stuðningsmanna sinna. En hann hefði bara átt að líta í fjárlagafrv. Stærstu upphæðirnar tvær til vegagerða, 50000 kr. og 60000 kr., eru til kjördæma Framsóknarmanna. Hann mintist á Hvítárbrúna og sagði, að hún tilheyrði Borgarfjarðarsýslu. Jeg vil þá segja. að hún tilheyri fult eins mikið Mýrasýslu, sem þó er Framsóknarkjördæmi enn. Ef hann athugar svo fje það, sem veitt er til símalagningar, þá mun hann reka sig þar á, að hæsta upphæðin fer til Skaftafellssýslna, en það er þó ekki nema önnur þeirra íhaldskjördæmi enn. (JJ: þær verða það kannske hvorugar næst). Eða kannske báðar. Það er þess vegna langt frá því, að þetta sje rjett hjá hv. 1. landsk. En jeg vil út af þessari ásökun, sem er næsta ósvífin, taka það fram, að framkvæmdarstjórar ríkisins, vegamálastjóri, vitamálastjóri og landssímastjóri, eru látnir gera tillögur um það, hvað þeir álíta helst að gera beri fyrir hinar ákveðnu upphæðir. þessar till. eru svo lagðar fyrir þingið, og geta því hv. þm. sjeð, hvort rjett sje að álasa stjórninni fyrir hlutdrægni. Ef um hlutdrægni er að ræða, þá ætti hún að vera framkvæmdarstjórunum að kenna. En jeg býst nú við, að hv. þm. (JJ) vilji ekki segja það, og geri jeg því ráð fyrir, að þessi orð hans falli máttlaus niður.

þá sagði hv. þm., að mikið hefði verið gert í Skagafirði, bygð ósköp af brúm o. s. frv. En af því að hv. þm. hefir komið í Skagafjörð, þá veit hann, að þar liggja sundvötn eftir endilöngu hjeraðinu, en skiftast um Hegranes og renna svo til sjávar báðumegin nessins. En vegurinn yfir vötnin við ósana beggjamegin er sýsluvegur, og hefir sýslan varið stórfje til brúa þar. Annar vegur liggur framar yfir vötnin, og þar er engin brú, þó að þar sje landssjóðsvegur. En það er dugnaði sýslubúa að þakka, að brýr eru komnar á ósana. Það kvað svo ramt að því, að sýslubúar voru búnir að leggja fram alt fjeð í hittiðfyrra og buðust til að lána ríkissjóði þann hluta, sem hann átti að borga. En af því að ríkissjóður stóð þá vel eftir góðærið 1924, þurfti þess þá ekki með. Þarna á nú að gera eina brú í sumar, og er hún á þjóðveginum, og þetta er eina vatnsfallið, sem altaf er sund í, á póstleið, og er enn óbrúað. Og þó að þar sje dragferja, þarf oft að sundríða út í hana. Jeg veit ekki, hvort hv. þm. álíta það hlutdrægni að setja þarna brú, því að þetta er síðasta vatnsfallið á aðalpóstleið hjer á landi, þar sem altaf er sund, og er þó enn óbrúað.

Jeg get látið mjer nægja það, sem hæstv. forsrh. (JÞ) sagði viðvíkjandi heimavistunum við mentaskólann og öðrum framkvæmdum, sem stjórnin stakk upp á utan fjárlaga. Það er nú svo um þær, að þær eru áætlanir um, hvað gera skuli, er um hægist, og verður ekki sjeð annað en að það sje hyggilegt að hafa þannig starfsáætlun til þess að fara eftir, þegar fje er fyrir hendi. Ef þingið álítur, að verk þessi beri að framkvæma, þá á að gera þau, er um hægist. Annað felst ekki í þessum frv. stjórnarinnar. Og hvað samskólana snertir, þá verður ekki byrjað á þeim, nema veitt sje til þeirra fje í fjárlögum.

Háttv. 1. landsk. álasaði stjórninni fyrir þann framkvæmdarhug, sem lýsti sjer í frv. hennar. En jeg hygg, að landsmenn muni ekki taka undir það með honum. Hjer er margt óunnið, og jeg ímynda mjer því, að landsmönnum þyki gott, að stjórnin hefir hug á framkvæmdum, og að þeir sjeu henni þakklátir fyrir, að hún lætur í ljós, að hún vilji koma verkum í framkvæmd, og býr til áætlanir um, hvað gera skuli.

Hv. þm. áleit, að það hefði verið nær að ráðast eitthvað á embættabáknið. Það getur vel verið. En jeg man þó ekki, að jeg fengi neitt þakklæti hjá hv. 2. þm. S.-M. (IP), er jeg vildi draga ofurlítið úr síldarmatsmannabákninu. Það þótti illa gert, ef ekki væri borgað úr ríkissjóði stórfje fyrir mat á nokkrum tunnum.

Að öðru leyti þarf jeg ekki að svara hv. 1. landsk. Jeg skal þó fræða hann um það, að málarinn, sem fjekk lán og fæddur var í Skagafirði, fjekk það ekki með atkv. mínu. — Annars vil jeg segja það, að mig sundlar alveg við að horfa ofan í það hyldýpi saurugs og gerspilts hugsunarháttar, er lýsti sjer í ræðu hv. 1. landsk. — Hann getur ekki ímyndað sjer, að nokkur hlutur sje gerður af andstæðingunum, nema eitthvað saurugt liggi á bak við. Það er ekkert hægt að sjá eins leiðinlegt og þann hugsunarhátt, er svo oft kemur fram hjá hv. þm. Jeg vil ekki segja, hvað hann minnir mig á, en það er mjög ljótur hlutur.