02.05.1927
Efri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

21. mál, fjárlög 1928

Halldór Steinsson:

Jeg á hjer tvær litlar brtt., sem ekki er þörf á að tala langt mál um. Sú fyrri er við 12. gr., 19. lið, þar sem farið er fram á, að Kristjönu Helgadóttur í Vík í Eyrarsveit verði veittar 400 kr. sem viðurkenning fyrir hjúkrun á sjóhröktum mönnum. Eftir að brtt. voru komnar á prent sá jeg, að hv. 1. landsk. flutti till. um sama efni, en fór fram á hærri fjárupphæð. Það lítur þannig út eins og við sjeum í nokkurskonar kapphlaupi um þessa ekkju, en það gleður mig að sjá, að fleiri eru þessu fylgjandi en jeg, því að því vísari von er um, að þetta nái fram að ganga. Þessi ekkja hefir nú um 30 ára skeið hýst og hjúkrað sjómönnum, er hafa borið þar að hraktir og illa haldnir. Það hagar þannig til þar vestra, að sjómenn verða að afla sjer beitu langt að, og ef veður breytist, verða þeir oft að vera að heiman marga daga. Ef svo fer, þá er þarna ekki nema um tvo bæi að ræða, þar sem þeir geta leitað gistingar og aðhlynningar, og er það þó sjerstaklega þessi bær. Þessi kona hefir oft orðið að hýsa 30–40 manns, en borgun, sem hún hefir fengið, oft af skornum skamti. Fyrst er það, að mennirnir eru flestir fátækir, og svo hafa þeir ekki búið sig út með peninga heiman að eða haldið, að þess gerðist þörf. Þetta má því skoða sem mannúðarstarfsemi, sem ekkjan á skilið að fá viðurkenningu fyrir í eitt skifti fyrir öll, einkum þar sem samkv. 18. gr. er fjöldi ekkna með hærri og lægri styrk. Jeg er ekki þar með að segja, að þessar ekkjur eigi ekki skilið að fá styrk, en jeg þori að segja, að þetta tilfelli þolir fyllilega samanburð, sjerstaklega þar sem aðeins er farið fram á þessa styrkveitingu einu sinni. Jeg vona því, að þessari brtt. hv. 1. landsk. verði vel tekið, því að jeg geri ráð fyrir, að deildarmenn taki heldur hærri till., en ef ek.ki, þá skoðast mín till. sem varatill., sem jeg geng að sem sjálfsögðu, að verði samþ.

Við 16. gr., 22, um hafnarbætur í Ólafsvík hefir fjvn, lagt það til að lækka fjárveitinguna til þess fyrirtækis úr 15 þús. í 12 þús. kr. Jeg hefi orðið var við mikinn ókunnugleika um þetta mál, sjerstaklega hjá hv. 1. landsk. Jeg skal því skýra málið nokkru nánar.

Það er áætlað, að báðir hafnargarðarnir í Ólafsvík muni kosta ca. 140 þúsund krónur, og er það áætlað af vitamálastjóra. Nú er búið að vinna að öðrum garðinum fyrir 53–54 þús. kr.; þar af hefir ríkissjóður lagt til 30 þús. kr., en hreppurinn 23–24 þús. Af þessum aðalgarði, sem á að vera 180 metrar, er nú búið að vinna ca. 120 m. Jeg skal taka það fram, að þegar þessi ytri garður er kominn, þá er þar komið skjól fyrir vestan- og norðanátt, sem þegar má nota fyrir mótorbáta, þótt þessar hafnarbætur verði ekki fullkomnar fyr en syðri garðurinn er kominn.

Nú er það kunnugt, að jörðin Ólafsvík er ríkiseign, og í lögum 1919, um hafnargerð í Ólafsvík, er það ákveðið, að ríkissjóður leggi til 14 alls kostnaðar, en beri ábyrgð á þeim 3/1, sem hreppurinn borgar. Þetta vil jeg taka fram vegna þess, að jeg hefi heyrt ýmsa hv. þingmenn fárast yfir því, að hjer sje um fjárveitingu að ræða, þar sem ekkert komi á móti. Að þessu er þannig farið, má kenna hæstv. fjrh. Í fyrra, þegar þetta mál kom til umr., setti stjórnin sig upp á móti þessu ákvæði og vildi heldur hafa upphæðina hærri í fjárlögunum, en losna við ábyrgð ríkissjóðs. Hin leiðin var okkur miklu haganlegri. því þá væri unnið fyrir hærri upphæð árlega en þá, sem nú er veitt í fjárlögunum. Í sambandi við þau ummæli hv. 1. landsk., að hann teldi vafa undirorpið, hvort þetta mannvirki mundi standa til frambúðar, vil jeg geta þess, að síðan þessi garður var bygður hafa komið svo mikil hafrok vestra, að slík eru ekki í manna minnum, og hefir ekki einn steinn haggast. Er það ólíkt glæsilegri árangur en orðið hefir um ýms slík mannvirki hjer á landi, sem þó hefir verið fleygt í tugum þúsunda og jafnvel hundruðum þúsunda árlega, og þó hægt að hafa þau orð um þau í orðanna eiginlegu merkingu, að því fje hafi verið fleygt í sjóinn.

Í gildandi fjárlögum 1927 eru áætlaðar 20 þús. kr. til þessarar hafnargerðar, en nú hafði stjórnin móti von minni lækkað þá fjárveitingu niður í 15000 kr., og hafði jeg sannast að segja ætlað mjer að koma með brtt. í þá átt að hækka fjárveitinguna upp í 20 þús. kr. aftur. Verkinu miðar lítið áfram með slíkum smáfúlgum, og mátti sannarlega ekki vera lægri fjárveiting en 20 þús., ef nokkuð átti að muna um hana. En að jeg hætti við að bera fram þessa brtt. var af því, að jeg vildi ekki sporna á móti sparnaðarviðleitni þingsins og vildi sýna það með því að sætta mig við lægri fjárveitinguna í ár, ef hún væri hækkuð í fjárlögum næstu ára. En þegar hv. fjvn. fer líka að klípa af þessari upphæð, þá er mjer meira en nóg boðið, þá er mjer ofboðið. En þar sem er við ofurefli að etja, þar sem jafnfjölmenn nefnd er í fámennri deild. þá hefi jeg látið nægja að koma með þessa brtt., þótt jeg eigi mjög bágt með að sætta mig við lækkun fjárhæðarinnar frá því, sem hún er á yfirstandandi ári.

Vona jeg, að hv. þingdeildarmenn geti með góðri samvisku greitt þessari brtt. minni atkvæði.