02.05.1927
Efri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (1195)

21. mál, fjárlög 1928

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Flestir hv. þm., sem talað hafa hjer, hafa byrjað mál sitt með því að dæma verk hv. fjvn. og mun jeg fylgja dæmi þeirra. Jeg álít, að hv. nefnd hafi leyst gott starf af hendi og hafi skift rjettlátlega sól og vindi, þannig, að hún hefir fært niður á mörgum stöðum, en þó ekki tilfinnanlega nema á einstaka stað. Í þessu efni er jeg ósamþykkur hv. 5. landsk. (JBald). Það er svo um slíkar nefndir sem þessa, að það er ómögulegt fyrir þær að vinna svo, að allir sjeu ánægðir með störf þeirra, og jeg hefi einnig athugasemdir að gera við einstaka till. nefndarinnar, en þær eru hverfandi í öllum fjöldanum.

Jeg geri ráð fyrir því, að hv. þdm. hafi tekið eftir því, að í fjárlagafrv. stjórnarinnar er gerð sú breyting á listamannastyrknum, að það er heimilað að láta hann fara niður í 500 kr., í stað þess, að í núgildandi fjárlögum má hann ekki fara niður úr 1000 kr. Hv. nefnd hefir ekki breytt þessu og hv. Nd. ekki heldur, og verð jeg því að álíta, að þingið sje þessu samþykt. Jeg vil nú færa mig upp á skaftið og láta þá skoðun mína í ljós, að jeg álít rjett að skifta styrknum fyrir yfirstandandi ár í 500 kr. til hvers, svo að fleiri menn geti notið hans, því að ef það verður ekki gert, þá geta aðeins 8 menn fengið styrkinn, en umsækjendurnir eru 38. Vegna þess að menn þeir, sem um er að ræða, eru margir fátækir, þá mundi þá muna um það að fá þó ekki sje nema 500 kr. Jeg vildi því fá heimild til þess að skifta styrknum 1927 á sama hátt og fyrir árið 1928, enda tel mjer það heimilt, ef ekki koma fram andmæli gegn því. Jeg sagði svipað um þetta í háttv. Nd., en þar komu engin andmæli fram. Jeg álít þó ekki rjett að lækka styrkinn til þeirra manna, sem hv. fjvn. í fyrra nefndi sjerstaklega og ætlaðist til, að fengju 1000 kr.

Um markaðsleitarstyrkinn er þess að geta, að hv. fjvn. leggur það á vald stjórnarinnar, hvernig farið verður með hann. Háttv. nefnd virðist hafa horfið frá því ráði að láta greiða á yfirstandandi ári nokkuð af fjárhæðinni.

Hv. 1. landsk. talaði um hækkun styrksins til kvennaskólans í Reykjavík og fanst það ekki sanngjarnt. En ástæðan til hækkunarinnar er sú, hve skóli þessi er meira sóttur en aðrir hliðstæðir skólar á landinu. Ef borinn er saman styrkurinn til þessa skóla og skólans á Staðarfelli, sem gert er ráð fyrir að hafi 10 nemendur, þá er styrkurinn til Staðarfellsskólans hlutfallslega mikið hærri, því að í kvennaskólanum í Reykjavík eru námsmeyjarnar hátt á annað hundrað. Er þetta nægilegt til þess að sýna rjettmæti hækkunarinnar, auk þess sem laun kenslukonunnar í matreiðslu hafa verið hækkuð, til þess að hægt væri að halda henni við skólann.

Þá talaði hv. þm. (JJ) um styrkinn til fjárhúsbyggingar á Hólum í Hjaltadal og hjelt því fram, að þar væri um kjördæmareipdrátt að ræða, af því að feldur hafði verið styrkur til hlöðu- og fjósbyggingar á Hvanneyri. En það er ætlast til að veita styrk til miðstöðvar á Hvanneyri, enda mun þess meiri þörf. Annars stendur fjárhúsbyggingin á Hólum í sambandi við aukning búsins þar, sem samþykt var á þinginu í fyrra.

Jeg tek undir það álit hv. 1. þm. G.-K. (BK), er hann sagðist skoða það sem samning við sjera Jóhannes Lynge, að hann starfaði áfram að orðabókinni. Hann var tekinn úr embætti sínu til þessa starfa, og væri það því brigðmælgi, ef atvinnan væri nú tekin af honum og hann aðeins látinn njóta lítilla eftirlauna. Enda er hann ekki svo hrumur, að hann hefði ekki getað verið í embætti sínu ennþá.

Út af till. háttv. samgmn. um að lækka styrkinn til bátaferðanna vil jeg geta þess, að enda þótt ekki sje víst, að hægt sje að komast af með þessa upphæð, þá tel jeg þó rjett að hafa hana ekki hærri. Er í því efni betra fyrir stjórnina að hafa áætlunina krappa, því að með því stendur stjórnin betur að vígi við eigendur bátanna. Jeg tel það ekki heppilegt, að í nál. er talið upp, hve mikið skuli fara til hvers báts, því að þá þykist hver eigandi eiga heimtingu á því, sem nefnt er. Hv. nefnd hefði getað náð sama tilgangi með því að láta stjórnina hafa útskrift úr gerðabók sinni um það, hvernig hún vill, að styrknum sje úthlutað.

Hv. 5. landsk. (JBald) mintist á till. sína um styrk til Fjarðarheiðarvegar og kvaðst álíta, að hann mundi fá aðstoð mína til þess að koma þessum styrk í kring, af því að jeg hefði bent honum. á, að hann gæti komið fram með slíka till., enda þótt ekki væri búið að rannsaka kostnaðinn, sem vegagerðin hefði í för með sjer. Hv. þm. (JBald) hefir misskilið mig hrapallega, ef hann heldur, að jeg hafi lofað honum fulltingi mínu í þessu efni. Jeg bara svaraði honum þannig til þess að sýna honum, að hann gæti ekki borið því við, að ómögulegt væri að bera fram till. um þetta af því, að málið væri ekki rannsakað. Jeg sje mjer ekki fært að mæla með þessari till., þegar þess er gætt, að verið er að klípa af styrk til vega, sem stjórnin hefir borið fram í frv. sínu. Það er því aðeins hægt fyrir stjórnina að ganga inn á lækkun á styrk til verklegra framkvæmda, að ekki verði settar inn nýjar till., sem ekki hafa meiri rjett en þær, sem skornar eru niður.

Þá mintist hv. 1. landsk. (JJ) á styrkinn til Magnúsar læknis Pjeturssonar og spurði mig, hvort jeg tæki ekki undir meðmæli landlæknis, er umsókninni fylgja. Jeg greiddi atkv. á móti þessum styrk í hv. Nd., meðal annars af því, að læknir þessi hefir ekkert með berklavarnirnar að gera, og jeg áleit því, að þegar þingið er í vandræðum með að koma jafnvægi á tekju- og gjaldabálka fjárlagafrv., þá ætti ekki að samþykkja slíkan styrk sem þennan.

Háttv. 4. landsk. (MK) mintist á styrkinn til Eggerts Stefánssonar símritara og talaði um það, að hann hefði verið ófrægður af stjettarbræðrum sínum og yfirboðurum, og talaði um hann sem píslarvott í þessu efni. Jeg veit ekki, hvort hv. þm. hafa lesið skýrslu þá um þetta mál, sem áður hefir legið fyrir þinginu, en jeg skal ekki fara nánar út í það, nema jeg fái frekara tilefni til þess. En jeg get með engu móti viðurkent rjettmæti þessara ummæla hv. 4. landsk.

Það eru 2 till. hv. fjvn., sem jeg er ekki ánægður með. Önnur er sú, að fella niður kaup á sýslumannsbústaðnum á Sauðárkróki. Jeg er hræddur um það, að ekki verði til lengdar hægt fyrir ríkissjóð að spyrna á móti því að útvega sýslumönnum úti um land bústaði, því að þegar hann útvegar nú bæði læknum og prestum bústaði, þá er það á engan hátt rjettlátt gagnvart sýslumönnunum að ganga fram hjá þeim í þessu efni, því að þeir eiga jafnerfitt og hinir embættismennirnir um að sjá sjer fyrir bústöðum, þegar þeir koma fátækir frá prófborðinu. En auk þessa var önnur ástæða fyrir því, að jeg áleit rjett að samþykkja þessa till., og hún var sú, að jeg er viss um, að engir sýslumenn mundu geta boðið ríkissjóði jafngóð kjör og þessi sýslumaður, vegna þess, að sparisjóður sýslunnar hljóp undir bagga. Ríkissjóður eignast húsið fyrir 7 þús. krónur, auk vaxta meðan verið er að borga lánið, sem á að greiðast á 22 árum.

Hin till., sem jeg vil nefna og jeg er óánægður með, er sú, að lækka eftirlaun ekkju Bjarna Jónssonar frá Vogi. Jeg veit, að upphæð sú, sem sett var í hv. Nd., er hærri en veitt er nokkurri ekkju hjer í eftirlaun. En það stendur svo á hjer, að um engin efni er að ræða, því að það var nú ekki Bjarna sterka hlið í lífinu að hugsa um fjármál, en hann lætur eftir sig með þessari konu sinni 3 börn. Jeg veit, að það hefir komið til orða, að efnilegur sonur hans hætti skólanámi til þess að fara að vinna fyrir sjer og móður sinni. Af því að jeg veit, að þessi piltur er sjerstaklega efnilegur, og að honum og móður hans er það mjög þungbært, ef hann þyrfti að hætta námi, og vegna þess, að hinn látni heiðursmaður, sem mjer þótti vænt um, bað mig þess á dánardægri sínu að sjá svo um, að ríkissjóður gerði vel við ekkju sína, þá vil jeg eindregið mæla með því, að sú fjárhæð fái að standa, sem samþykt var í hv. Nd.