01.03.1927
Efri deild: 17. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Hæstv. atvrh. (MG) er búinn að andmæla hv. 2. þm. S.-M. (IP) svo vel, að jeg hefi þar litlu við að bæta. Þó vil jeg benda háttv. deild á það, sem virðist vera orðið aðalatriðið nú, hvað það er voðalegt, ef 2 menn ráða í 7 manna nefnd. 2 er auðvitað lítill hluti af 7, en eftir till. hv. 2. þm. S.-M. (IP) gætu eftir sem áður 3 menn af 7 ráðið. Það er allur munurinn. Það getur verið ófært, að geta ekki ráðið málum til lykta á fundi, sem meiri hluti nefndar er mættur á. Það væri þá rjettara hjá hv. þm. að vilja, að hreppsnefndarfundir væru ekki lögmætir, nema allir væru mættir. Það gæti auðvitað oft komið fyrir, að kallaðir væru saman fundir til einskis, ef ekki er hægt að ráða málunum til lykta nema því aðeins, að allir sjeu mættir. Enda væri það undarlegt, ef þetta ákvæði yrði svo hættulegt nú, þar sem það hefir staðið í lögunum óáreitt í marga tugi ára. Nei, þarna er um ekkert verulegt að ræða, nema meinloku í höfði háttv. 2. þm. S.-M. (IP).