06.05.1927
Efri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1488 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

21. mál, fjárlög 1928

Jón Baldvinsson:

Þetta gengur svo fljótt yfir hjá hv. frsm. (EJ) og ber svo bráðan að, enda ekki fyrir miklu að tala hjá honum, að maður fylgist varla með því, sem hann er að segja, og vinst tæplega tími til þess að kveðja sjer hljóðs.

En jeg vildi þó um leið og jeg stend upp minna hv. frsm. á það, að það skýtur nokkuð skökku við hjá honum, er hann segir, að hv. fjvn. sje ekki við riðin neina hækkunartill. Hún ber þó fram stærstu till. af þeim, sem fyrir liggja. (EJ: Það er lán, og verður minst á hana seinna, eins og jeg minnist á). Já það er lán, eins og hún er borin fram, en það getur líka orðið styrkur, enda æði mörg dæmi þess, að einmitt slík lán eru gefin eftir, og það stundum eftir fá ár.

Jeg á hjer fáeinar brtt. á þessu sama þskj. (513) og hefði haft tilhneigingu til þess að hafa þær fleiri, en sá það ekki til neins, af því að það eru auðsæ samtök háttv. íhaldsþingmanna að drepa allar fjárveitingar, sem fara eiga til andstæðinga þeirra, og samþ. helst það, sem er nógu lítið og vitlausast.

X. og XI. brtt. viðvíkjandi kaupum á listaverkum eru ekki til útgjalda, heldur ber að skoða þær sem öryggisráðstöfun.

Vegna þess að eftir till. má búast við, að farið verði hlutlaust með fjeð og ekki verði auðvelt fyrir stjórnina að beita ranglæti og hlutdrægni, þá býst jeg ekki við, að þessi till. verði samþ. Jeg hefi því borið fram þá varatill., að þjóðminjavörður annist kaupin. Rök till. eru rjett og hún að öllu leyti sjálfsögð, en það eru líklega ekki meðmæli hjá hv. meiri hluta þessarar deildar.

Þá hefi jeg borið fram brtt. við 15. gr., 18, k, um styrk til Jóns Leifs.

Hann hefir, sem kunnugt er, um langt skeið búið í Þýskalandi. Um hann hefir staðið talsverður styr, og ekki alt verið á eina lund, sem um hann hefir verið sagt. Samt sem áður hefir það verið svo einlítt, að engum getur blandast hugur um, að hjer er á ferðinni listamaður, sem mun vinna sjer fasta stöðu í hópi þeirra og vera landinu til sóma. Það er ekki ólíklegt, að hann sje einmitt sá maður, sem tekið getur við af Sveinbirni prófessor Sveinbjörnsson, enda enginn af íslensku bergi brotinn, sem er jafnlíklegur til að gera garðinn frægan með tónsmíðum sínum og einmitt hann. Ýms tónverk hans hafa hlotið einróma lof þeirra erlendra og innlendra manna, sem færir eru að dæma um slíkt. Fjárhagur hans er samt mjög þröngur, þar eð hann býr í framandi landi, þar sem margt er listamanna, því að þótt hann skapi verk, sem gera hann frægan og okkur eru mikilsverð, þá er ekki víst, að hið framandi land taki hann upp á arma sjer fjárhagslega. Okkur er það líka skyldast að sjá honum fyrir fjárstyrk, því að tónsmíðar hans eru íslenskar og bera á sjer auðsæ merki Íslendingsins. Í fyrra gerði hann það þrekvirki að koma hingað með 40 manna hljómsveit, og þótt hann fengi til þess nokkurn styrk frá bæjarstjórninni í Reykjavík, verður það að teljast þrekvirki engu að síður. Það er ekki hægt nema fyrir þann, sem bæði er dugnaðar- og hæfileikamaður, að leysa þetta svo af hendi, að ekki lendi alt í endileysu vegna kostnaðar, auk þess, sem sá maður þarf líka að vera frábær stjórnandi. Jón Leifs hafði alt þetta til að bera, og auk þess naut hann þess álits, sem gerði honum kleift að leysa þetta vandaverk af hendi. Öllum, sem hlustuðu á þessa hljómsveit, mun það ógleymanlegt, enda margir, sem aldrei eiga þess kost framar að hlusta á jafngóða músik. Því að þótt hingað komi einn og einn listamaður, þá er það lítið á móts við valdar hljómsveitir, sem aðeins hin stóru lönd hafa upp á að bjóða.

Jeg vil því stinga upp á því, að hann fái föst laun í 18. gr. Það er kannske fulllágt að fara fram á 2000 kr., en ef hv. Nd. finst það of lágt, getur hún bætt úr því. Skal jeg svo enda umr. um Jón Leifs með því, að þótt hann sje ungur, hefir hann hlotið slíka viðurkenningu, að okkur ætti að vera sómi að styrkja hann á þann hátt, sem hjer er farið fram á.

Þá kem jeg að till. um að hækka styrk Guðbrands Jónssonar úr 1000 kr. upp í 1200 kr., eins og hann var áður. En stjórnin lækkaði hann, og er þessi till. aðeins leiðrjetting á því. Er ennþá mikið óunnið úr gömlum handritum um miðaldamenningu okkar, og mun því ekki veita af, þótt 200 kr. verði bætt við, svo að styrkurinn verði jafnhár og í fyrra.

Er þá þeim till., sem jeg er einn um, lokið. Eins og jeg sagði áðan, áleit jeg ekki rjett að bera fram fleiri till. en þær, sem nauðsynlegar eru og ekki er svo mikill flokkslitur á, að þýðingarlaust sje fram að bera. Þessar till. ættu því allir að geta verið sammála um. Jeg vil aðeins víkja að því, sem hv. frsm. sagði, að lítið hefði verið gert úr framsöguræðu hans við 2. umr. Mönnum fanst hann fara óvenju fljótt yfir störf hv. fjvn., og var það ekkert óeðlilegt, þótt menn styngju saman nefjum um það. Yfirleitt höfðu menn enga hugmynd um afstöðu hv. fjvn. í málinu fyr en búið var að smátína það út úr hv. frsm. sjálfum og meðnefndarmönnum hans. Hv. frsm. má því ekki kveinka sjer við, þótt að þessu sje fundið, enda játaði hann þetta sjálfur.