11.05.1927
Neðri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1656 í B-deild Alþingistíðinda. (1277)

21. mál, fjárlög 1928

Jakob Möller:

Út af orðum hæstv. atvrh. (MG), þar sem hann sagði, að deilan út af till. um fjárframlag til landsspítalans stafaði af því, að þeirri till. hefði fylgt athugasemd um það að ráða yfir fje annara, sem sje landsspítalasjóði kvenna, þá vildi jeg gera stutta athugasemd, vegna þess að jeg bar fram till. Var hún borin framsamkvæmt umræðum og till., sem borin var fram og samþykt á fundi kvenna, sem að landsspítalasjóðnum standa, og haldinn var hjer í bæ. Var þar skorað á landsstjórnina að leggja fram fje til byggingar landsspítalans, og kváðust þær mundu leggja fram fje á móti. Í samræmi við þetta kom jeg fram með till. um 150 þús. kr. fjárveitingu, sem var feld, en við 3. umr. fjárlagafrv. var borin fram till. um 100 þús. kr., og var hún samþykt. Þá mun hæstv. ráðh. (MG) ekki hafa mælt á móti till. vegna þess, að með henni væri farið fram á að ráða yfir fje annara. Jeg man ekki betur en aðalástæðurnar, sem hann flutti fyrir þessu, væru alt aðrar. Hann sagði, að í svona fyrirtæki ætti ekki að ráðast í á þessum tíma, heldur ætti að geyma það til erfiðu áranna, þegar litla vinnu væri að fá. En jeg er sannfærður um, að það var gott að till. var samþykt á þinginu 1925, annars væri ekki farið að byrja á byggingunni enn. Fyrsta greiðslan til landsspítalans kom á árið 1926, í byrjun þeirrar kreppu, sem nú stendur yfir. Að því er snertir brtt. um það að fella nú niður fjárveitinguna til landsspítalans, þá get jeg ekki verið henni fylgjandi. Úr því að byrjað er á byggingunni, þá er sjálfsagt að halda áfram, uns spítalinn er kominn upp. Og það mun líka verða gert hvort sem er, hvernig svo sem fer um þessa brtt. Þá verður tekið lán til byggingarinnar, og sje jeg þá ekki, hvaða þýðingu það hefir að fella þessa fjárveitingu úr fjárlögunum. Það kann að þykja skemtilegra að skila fjárlögunum tekjuhallalausum eða með tekjuafgangi. En þessi aðferð til þess að búa til tekjuafgang er gersamlega þýðingarlaus. Hv. frsm. meiri hl. (TrÞ) hefir lýst yfir því, að þessi brtt. væri fram borin vegna þess, að meiningin væri sú, að allar framkvæmdir í þessu efni væru stöðvaðar fyrst um sinn. Því síður mun jeg geta verið henni fylgjandi. Jeg mun því greiða atkvæði móti þessari brtt., svo og hinni brtt. um að lækka tillagið til landsspítalans.