04.03.1927
Neðri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1718 í B-deild Alþingistíðinda. (1308)

6. mál, fátækralög

Bernharð Stefánsson:

Jeg verð að taka undir það, sem tveir háttv. þm. Reykv. (JakM og HjV) hafa látið í ljós um þetta mál, að því leyti, að mjer finst eins og þeim, að lagabreytingar þær, sem í þessu frv. felast, sjeu ákaflega þýðingarlitlar.

Hv. frsm. allshn. (JK) vildi afsaka, hvað frv. breytti litlu frá núgildandi lögum, með því, að frv. rjeði þó bót á einu atriði, sem almenn óánægja væri um og valdið hefði því, að farið var að breyta lögunum. Þetta atriði er rjettindamissir þeirra manna, er þiggja af sveit. Í stjfrv. er reynt að ráða bót á þessu, enda er það eina breytingin frá núgildandi lögum, sem nokkru máli skiftir.

Þó að þetta sje nú talið eina ástæðan fyrir því að breyta þurfti lögunum, þá var þó önnur ástæða nefnd, að minsta kosti af mjer, þegar þáltill. um skipun milliþinganefndar til þess að íhuga sveitarstjórnar- og fátækralöggjöf landsins var hjer til umræðu á þingi 1925. Og sú ástæða var að reyna með breytingunni að ráða einhverja bót á því misrjetti, sem sveitirnar verða fyrir í fátækraframfærslunni. Fátækraframfærið er orðið svo þungur baggi ýmsum sveitum, að við það er lítt unandi lengur. Og þessi byrði kemur mjög misjafnt niður á hinar einstöku sveitir.

Í mínu hjeraði er það svo, miðað við fátækraframfæri síðastliðið ár, að í einum hreppi nema gjöld þessi sem næst 4 kr. á hvern íbúa hreppsins. En í öðrum hreppi í sama hjeraði nemur skattur þessi um 13 kr. á nef hvert. Þetta er mikill munur, og þó er hjer ekki um neitt skelfingarástand að ræða, síður en svo. En það má gera ráð fyrir mikið meiri mismun á því hjeraði landsins, sem minst hefir að gjalda til fátækraframfæris, og hinu, sem mesta framfærslu hefir.

Það verður ekki á neinu sjeð, að hæstv. stjórn hafi reynt að ráða bót á þessu. Þó býst jeg við, að hún hafi athugað þetta, en ekki treyst sjer til að ráða bót á þessu misrjetti, eða komist að þeirri niðurstöðu, að hjer væri engu hægt um að þoka.

Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) hjelt því fram í gær, að taka mætti afstöðu til einstakra till. án tillits til þess, hvernig frv. væri að öðru leyti. Jeg er þarna á annari skoðun. Jeg álít ekki gerlegt að slíta einstök ákvæði þessara laga út úr rjettu samhengi, þannig, að þau komi í bága við þann grundvöll, sem með frv. er lagður. Jeg álít það þurfi að vera samræmi í þessum lögum eins og öðrum.

Grundvöllur þessa lagafrv. er hinn sami og í núgildandi fátækralöggjöf: sá, að fela einstökum hjeruðum fátækraframfærsluna algerlega. Þess vegna finst mjer, að ekki sje nema um tvær leiðir að ræða í þessu efni. Önnur er sú, að breyta þessum grundvelli, og hin, að halda honum, en þá verða einstök ákvæði að vera í samræmi við það.

Þessir tveir hv. þm. Reykv., sem talað hafa um málið, hafa ekki lagt til, að grundvellinum verði breytt. Aftur á móti hefir annar þeirra borið fram brtt., sem fara í gagnstæða átt við stefnu frv. í einstökum atriðum, en sem mjer skilst, að ekki sje rjett að samþykkja, meðan þessi grundvöllur á að standa. Úr því að hin einstöku framfærsluhjeruð eiga að haldast með sama fyrirkomulagi og verið hefir og á þau á að leggja allar byrðarnar af fátækraframfærinu, hversu þungar sem þær verða, þá má ekki heldur svifta þau allri sjálfstjórn í þeim málum nje hindra sveitarstjórnirnar að ráðstafa þurfamönnum á þann hátt, sem þær sjá að hentar best.

Það kann nú að vera, að krafan um þennan ráðstöfunarrjett sveitarstjórnanna komi að einhverju leyti í bága við þá mannúðarstefnu, sem haldið er fram af sumum hv. þdm. En meðan ekki er gerð tilraun til að breyta heildarskipulaginu, verða sveitirnar að sjá sjer farborða. Á þær er búið að hlaða svo þungum byrðum, að þær geta ekki risið undir þeim, nema þær fái að haga þessum málum eftir sínum eigin ástæðum.

Jeg verð að segja, að mjer finnast báðar þessar uppástungur, sem koma fram í frv. og í brtt. háttv. 4. þm. Reykv. (HjV), viðvíkjandi því hvort sveitarstyrkur eigi að vera afturkræfur eða ekki, vera hálfvandræðalegar.

Í raun og veru finst mjer, að það, hvort styrkur á að vera afturkræfur eða ekki, ætti að fara eftir því, hvort styrkþegi muni í framtíðinni geta borgað hann eða ekki. En hvor leiðin, sem farin er, hvort þetta fer eftir mati, eins og gert er ráð fyrir í 43. gr. frv., eða er fastákveðið, eins og ætlast er til á þskj. 65, þá getur svo farið oft og tíðum, að maður, sem fengið hefir fátækrastyrk, sem er úrskurðaður óafturkræfur, geti komist í þær kringumstæður seinna, að hann geti hæglega borgað. Og hvers vegna á þá ekki að láta hann gera það? Mjer dettur í hug út af till. á þskj. 65, að ef maður á þrjú börn, þá á styrkurinn að teljast veittur vegna ómegðar og þar af leiðandi ekki afturkræfur. Nú getur það hæglega komið fyrir, að þótt maður, sem á þrjú börn, komist í þrot um lítinn tíma, þá geti hann orðið stórefnamaður aftur seinna. Það er alls ekki útilokað. Og hví skyldi hann þá ekki eiga að borga það, sem hann hefir þegið?

Sama má segja um mann, sem kemst í þrot fyrir atvinnuleysi. En ef hann fær góða atvinnu seinna, þá er ekkert líklegra en að hann geti borgað styrkinn.

Það er aðeins fyrsti liðurinn í þessum brtt. við 43. gr. á þskj. 65, sem mjer finst geta gengið, að ekki verði krafist endurgreiðslu á styrk, sem veittur er eldra manni en 60 ára.

43. gr. frv., eins og hún liggur fyrir, hefir sömu annmarka og till. hv. 4. þm. Reykv. Það má gera ráð fyrir, að komið geti fyrir, að minsta kosti í kaupstöðum, að úrskurður um styrk, hvort afturkræfur skuli vera eða ekki, verði ekki í alla staði óhlutdrægur. Jeg er ekki eins hræddur um, að það komi til greina í sveitum, en eftir því mikla kappi, sem komið er milli flokka í bæjarstjórnum, og eftir því, hvað flokkspólitíkin er orðin svæsin í bæjum, þá finst mjer ástæða til að óttast, að þetta geti þar átt sjer stað.

Nei, sannleikurinn er sá, að þessar vandræðatillögur eru fram komnar vegna þess, að hjer er blandað saman tveimur óskyldum málum, — nefnilega því, hvort eigi að svifta þurfamenn kosningarrjetti eða ekki, og hinu, hvort styrkur eigi að vera afturkræfur eða ekki. Þetta tvent er í raun og veru alveg óskylt; og mjer finst ekki vera hægt að leysa spurninguna um kosningarrjettinn á þennan hátt. Og ef á annað borð á að fara að hverfa að því ráði að veita þurfamönnum kosningarrjett, þá hefði mjer fundist eðlilegra, eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Reykv. (JakM), að leysa þá spurningu á rjettum stað, nefnilega með stjórnarskrárbreytingu, heldur en að reyna að fara svona í kringum þetta mál.

Þá hefir hv. 4. þm. Reykv. (HjV) ennfremur stungið upp á því, að til þess að fátækraflutningur gæti átt sjer stað, þyrfti skriflegt samþykki þurfamanns. Með öðrum orðum: að fella fátækraflutning niður. Jeg veit vel, að það getur komið fyrir og hefir komið fyrir, sjerstaklega fyrir nokkuð löngu síðan, að fátækraflutningur hefir verið framkvæmdur á ómannúðlegan hátt. En ef hin einstöku hjeruð eiga að bera öll þyngslin og sveitfestitími að haldast, þá verður fátækraflutningur að eiga sjer stað, eða það verða að vera möguleikar til hans, af þeim einföldu ástæðum, sem jeg nefndi áðan, að sum framfærsluhjeruð geta alls ekki staðist sveitarþyngslin að öðrum kosti. Það er ekki fært fyrir fátækan hrepp norður í landi að kosta t. d. stórar fjölskyldur hjer í Reykjavík. Aftur á móti mundi í slíkum tilfellum mjög oft hægt fyrir slíka hreppa að standa straum af þurfalingunum, þegar komið væri heim í sveitina.

Þess er krafist í nafni mannúðarinnar, að hætt sje fátækraflutningi. En það er á fleiri að líta í nafni mannúðar en þurfamennina. Því að það er nú svo, að sumstaðar eru allir gjaldendur í heilu framfærsluhjeraði fátækir menn, sem eiga fult í fangi með að sjá sjer og sínum farborða. Mjer finst það engin mannúð að gera þeim lífið þyngra og auka gjöld þeirra meira heldur en nauðsyn krefur. Nei, það gildir hjer sem annarsstaðar, að það þarf að skera í meinsemdina sjálfa, ef menn vilja lækna hana. Það er nefnilega hægur vandi að losna við fátækraflutning með öllu með því að gera hann óþarfan. Það þarf enga stórbyltingu í þjóðfjelaginu til þess, eins og hv. 1. þm. Reykv. tók fram í gær. Það þarf ekki annað en að dvalar- og framfærslusveit verði eitt og það sama. Fyrir þessa hv. deild eru komnar till., sem nálgast þetta æðimikið; og yrðu þær samþ., myndi fátækraflutningur hverfa að langmestu leyti. Jeg vildi ráða þeim, sem vilja afnema fátækraflutning með öllu, til að samþ. till. hv. 1. þm. N.-M. (H- Stef). Með því væri hægt að losna við þetta gamla, ómannúðlega fyrirkomulag, og það á eðlilegan hátt. Annars er náttúrlega fullmikið gert úr því mannúðarleysi, sem á að eiga sjer stað gagnvart þurfamönnum hjer á landi. Háttv. 4. þm. Reykv. (HjV) sagði, að fólk vildi ekki leita fátækrastyrks fyr en í fulla hnefana, vegna þeirrar meðferðar, sem það yrði fyrir hjá sveitarstjórnum og bæjarstjórnum. — Jeg verð að segja, að jeg þekki ekki þessa illu meðferð; jeg hygg það sje annað, sem orsakar það, að fólk reynir í lengstu lög að forðast sveitarstyrk, og það er þess eigin manndómshvöt. Það vill ekki verða upp á aðra komið. Jeg veit til þess, að margir þurfamenn lifa betra lífi í alla staði heldur en ýmsir þeirra, sem gjalda til fátækraframfærslunnar, já, þeir lifa miklu betra lífi á margan hátt heldur en þessar alræmdu sveitarstjórnir geta leyft sjálfum sjer. Jeg er ekki að segja þetta í því skyni, að jeg vilji gera kjör þurfamanna lakari en þau eru, heldur er það hitt, að jeg sje ekki ástæðu til að láta það ómótmælt, þegar verið er að bera sveitarstjórnum landsins á brýn hörku og ómannúðlega framkomu. Slíkt kann að hafa átt sjer stað fyr á tímum, en það mun vera regla nú orðið, að minsta kosti í sveitum, að fara svo mannúðlega að gagnvart þurfalingum, sem kostur er á.